14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

1. mál, fjárlög 1951

Forseti (JPálm):

Út af athugasemdum hv. l. þm. Árn. vil ég segja, að ég undrast það nokkuð, hvað hann tekur þetta strangt. Þetta hefur verið athugað af formönnum allra þingflokkanna ásamt mér og skrifstofustjóra, og var samkomulag um það milli allra aðila, og að því er mér skildist milli allra þingflokka, að fresta þessari umræðu, en það er á valdi þingsins alls að gera það, þó að í þingsköpum sé ætlazt til, að hún sé við framhald 1. umr. Það kemur ekki til greina, að notaður verði lengri tími, tíminn hefur alltaf verið styttur. Hér er farið fram á, að þessum umræðum verði frestað þangað til síðar á þinginu með þeim formála, sem ég hef mælt fyrir.