14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

1. mál, fjárlög 1951

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil endurtaka út af ummælum hv. form. fjvn., að ég tel fulla heimild í l. til að greiða laun þjóðleikhússtjóra. Ég skal ekki fara að deila um það, hverju embætti þjóðleikhússtjóra sé hliðstætt, en hann hefur sömu laun og útvarpsstjóri og fleiri, og satt að segja finnst mér ekki að þjóðleikhússtjóri ætti að standa á lægra stigi. — Einnig vil ég taka það fram um þá till., sem atvmrh. bar fram um styrk til Leikfélags Reykjavíkur, að ég álít nauðsynlegt að styrkja leikflokk, sem standi utan þjóðleikhússins, — ekki af því, að ég vilji þjóðleikhúsinu ekki vel, heldur af því, að ég vil því vel, því að þessi staður, sem þessir ungu leikarar starfa á, á að vera lindin, sem þjóðleikhúsið dregur til sín næringu frá. Það hefur sýnt sig, að þjóðleikhúsið hefur orðið að taka krafta, sem utan þess standa, og það á að sjá til þess, að þeir leggist ekki niður sakir fjárskorts.