14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

1. mál, fjárlög 1951

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég þarf að bera af mér sakir. Mér þykir vænt um, að hv. þm. Barð. og form. fjvn. vill nú taka aftur ummæli sín, sem hann hefur haft um tvöfaldar greiðslur fyrir verk unnin þarna austur frá (GJ: Ég hef aldrei sagt þau orð. Hv. þm. hefur búið þau til.), að þeir hafi tekið tvöfaldar greiðslur fyrir plóginn, það sagði hv. þm. Barð. Töluð orð verða ekki aftur tekin.

Þá vill hv. form. fjvn. meina, að ég hafi alveg að óþörfu minnzt á, að það væri ekki vert að brigzla þessu fólki um ódugnað. Ég var þá að svara innskoti hjá hv. þm., og kom það fjvn. í heild ekkert við.

Þá var það, hvort ég hefði kynnt mér, hvað þessar framkvæmdir við framræsluna hefðu orðið dýrar. Það er vorkunnarmál, þó að hv. form. fjvn. hafi gleymt úr minni ræðu, og sennilega alls ekki tekið eftir, hvernig orð féllu hjá mér. En hann má ómögulega látast vera að verja hv. fjvn. fyrir aðkasti frá mér eða öðrum hv. þm., þegar þeir gera engir neitt á hluta n. Ég sagði í minni ræðu, eins og rétt var, að ég minntist þess ekki, að svona smáupphæðum, sem lofað hefði verið að taka á fjárl. af ríkisstj., hefði verið skipt. Ég ábyrgist ekki, að ég muni það rétt. En mér finnst ekki taka því að gera veður út af svona ummælum. Og hefði verið farið skaplegar í þetta af hv. þm. í umr., þá hefði verið algerlega óþarft þetta eftirspil af hálfu hv. form. fjvn., sem stafar sumpart af því, að hann hefur ekki tekið eftir öllu, sem sagt hefur verið, eða gersamlega misskilið það, sem ég sagði í minni ræðu. Og þó að þessi hv. þm. vilji vel gera fyrir hv. fjvn. — og slíkt ber að meta hjá honum, ef því væri að skipta, að gert væri á hluta n. —, þá má hann ekki taka það svo, þó að eitthvað sé sagt, sem honum finnst halla á sig, að þar með sé verið að ráðast á alla fjvn. eða yfirleitt aðra hv. þm. En mér virðist hann ekki gefa því glöggar gætur að gera mun á þessu tvennu. Og þetta má að vísu virða honum til vorkunnar. Það er ekki á margra færi að sitja svo á fundum, eins og hv. form. fjvn. verður að gera — því að það er þreytandi — og vera alveg viss um það að geta ekki misskilið eitthvað, sem fram kemur í ræðum hjá öðrum þm. En það má þá heldur ekki þess vegna ráðast að ósekju á aðra þm.