13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

72. mál, stjórn flugmála

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur atriði, sem ég ætla að gera að umræðuefni, og mun það ekki lengja umr. mikið. Mig langar til að leggja fyrir hæstv. ráðh. nokkrar spurningar viðvíkjandi þessu frv. Mér skilst, að tilefni þess eigi að vera það að koma við sparnaði í stjórn flugmála. Það er líka minnzt á þetta atriði í grg., er meiri hl. samgmn. sendir frá sér. Nú vil ég leyfa mér að spyrja: Hvaða líkur eru til þess, að samþykkt þessa frv. gæti leitt til sparnaðar í þessum efnum? Hefur verið gerð áætlun um það, hve mikið mundi sparast, og hvernig er það skýrt, að hægt sé að koma honum við? Það er sem sagt kunnugt, að skv. gildandi l. hefur sá embættismaður haft mjög umfangsmikið starf með höndum, svo umfangsmikið, að furðu vekur, að einn maður skuli hafa annað þeim störfum einn. Undir hann hafa fallið: Loftferðaeftirlit, öll mál varðandi slys, orsakir þeirra og ráðstafanir til þess að fyrirbyggja þau, öryggisþjónustan yfir öllu Íslandi og stóru svæði á Norður-Atlantshafi, öll útgáfa á reglugerðum og skírteinum varðandi flugmál og síðast en ekki sízt umsjón og stjórn á nýbyggingu allra flugvalla ríkisins. Ég ætla, að þessi störf hafi verið ærið verk einum manni. Og ef nú á að láta þennan mann víkja, þá skyldi maður ætla, að þarna hafi verið falinn annar starfskraftur, sem lítið hafi haft að gera og geti nú tekið við þessum störfum. Er það svo, að flugvallastjóri, sem settur var með l. 4947, hafi verið gagnslítill starfsmaður, en eigi nú að taka við þessum störfum, er flugmálastjóra er sagt upp? Er þessum málum svo farið? — Þá er hitt atriðið, sem ég vil spyrja um. Hefur verið athugað, hvort hægt sé að víkja þessum starfsmanni úr embætti, svo að ekki verði að halda launagreiðslum áfram til hans? Þegar launal. voru rædd hér á Alþingi, heyrði ég sagt, að ekki væri hægt að víkja launuðum embættismanni úr starfi öðruvísi en svo, að honum væru greidd áfram laun sín. Jafnvel heyrði ég, að ekki væri hægt að lækka laun fastra embættismanna, og væri svo gert, þá kæmi það ekki niður á þeim embættismanni, er þá sæti, heldur einungis niður á eftirmanni hans. Hefur þetta verið athugað? En ef svo er, að þetta sé hægt, þá gefur það auga leið, að hægt sé að leggja niður öll embætti landsins, hvenær sem meiri hl. þingsins kýs svo. Það væri hægt að gera alveg það sama við vitamálastjóra. Skipa nýjan mann og kalla hann t.d. hafnarmálastjóra, og síðan tæki hann við þeim störfum, en vitamálastjóri væri látinn víkja úr störfum. Það mætti gera það við vegamálastjóra, setja nýjan mann, kalla hann t.d. samgöngumálastjóra og víkja síðan vegamálastjóra frá með lagaboði, ef meiri hl. teldi það hagkvæmt. Mér þætti fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðh., hvernig hann lítur á þetta atriði. Hvort ekki verði að greiða áfram laun, eða hvort slá eigi því föstu sem meginreglu, að hægt sé að losna svo við fasta embættismenn með því að fara þessa leið, hvenær sem meiri hl. Alþingis býður svo við að horfa. Það væri fróðlegt að fá úr þessu skorið, að fá að vita vilja Alþingis og ríkisstj. í þessu máli upp á síðari tíma. Eins og ég gat um áðan, er tilgangur þessa frv. ekki sá að koma við sparnaði í stjórn flugmálanna, þó að svo sé látið í skína, né heldur er tilgangurinn sá að fá bætt skipulag. Tilgangurinn er sá einn að losna við ákveðinn embættismann, sem núv. ríkisstjórn hefur ímugust á, enda þótt hann hljóti einróma lof allra, sem til þekkja og vit hafa á þessum málum. Í grg. frv. stendur: „Með lögum nr. 65/1947, um breyt. á lögum nr. 24/1945, um flugvelli og lendingarstaði fyrir flugvélar, er ákveðið um stjórn flugmála, og er flugráði falið að annast stjórn og rekstur flugvalla ríkisins. Undir stjórn flugráðs var svo flugmálastjóra og flugvallastjóra falið að hafa á hendi framkvæmd þessara mála“. Þessi greining er alröng og stangast á við það, sem í l. stendur, að flugvallastjóri skuli hafa á hendi rekstur og viðhald flugvalla ríkisins undir stjórn flugráðs, en flugmálastjóri skal annast öll önnur störf, er flugið varða, nýbygging flugvalla, loftferðaeftirlit og öryggisþjónustu. En grg. heldur áfram með þessa skekkju:

„Þann tíma, sem flugráð hefur starfað, má segja, að góð reynsla hafi fengizt á þeirri tilhögun, að það hefði á hendi stjórn og rekstur flugvallanna undir yfirstjórn ráðherra“. Þó að það sé flugvalla. stjóri, sem hefur átt að hafa á hendi yfirstjórn þeirra mála. Og enn heldur grg. áfram: „Hins vegar hefur það komið í ljós, að ekki er heppilegt og því síður nauðsynlegt að skipta framkvæmdastörfum milli tveggja jafnrétthárra embættismanna, flugvallastjóra og flugmálastjóra“. M.ö.o. það er þessi verkaskipting milli tveggja jafnrétthárra embættismanna, sem er aðalþyrnirinn í augum ríkisstj. Í l., sem kveða greinilega á um aðalverkefni þessara embættismanna, stendur: „Flugmálastjóri skal undir stjórn flugráðs fara með störf þau, er hér greinir: Nýbyggingu flugvalla, loftferðaeftirlit, öryggisþjónustu og önnur störf, er flugið varða og ekki snerta rekstur flugvalla“. Enn fremur segir þar: „Flugvallastjóri skal annast rekstur og viðhald flugvalla ríkisins undir stjórn flugráðs“. Nánari ákvæði átti svo að setja um þetta atriði í reglugerð, sem aldrei var sett. Aðalrök grg. er afnám þessarar tvískiptingar og sparnaður sá, sem af henni leiði. Þessi röksemdafærsla er öll röng, og það, sem sagt er um sparnaðinn, er aðeins sagt að yfirvarpi, og heldur engin rök fyrir því færð, í hverju sá sparnaður eigi að vera fólginn. Líka er það rangt, sem sagt er um óheppilega tvískiptingu á starfi þessara tveggja manna, þeir höfðu fullkomlega afmarkað verksvið hvor um sig. Með lagabreytingunni 1947 var starf flugvallastjóra tekið út úr starfi flugmálastjóra, en nú á að taka það allt. En þetta þykir ekki heppilegt að viðurkenna. Þessi maður, flugmálastjóri, hefur reynzt ágætur maður í sínu starfi, og hann hlýtur einróma lof allra þeirra, sem til þekkja og undir hans stjórn hafa unnið, og þegar svo á að víkja honum úr starfi hans, þá fá þm. ekki að vita, hver sé raunverulega skýringin á, að nauðsynlegt sé að gera þessa breytingu.

Ég skal nú ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, ég býst við, að hæstv. flugmrh. gefi skýringu á þeim bótum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir í sambandi við flugmálin, og hvað hann áætlar sparnaðinn mikinn af þeim.