18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

21. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er aðeins út af þessari rökstuddu dagskrá, sem ég vil benda á það, að hún hvílir á misskilningi, því að í stjórnarskránni segir, að ríkisborgararétt skuli veita með lögum. Það á með öðrum orðum að ákveða það í hvert skipti, hverjir skuli hljóta þennan rétt. Og þegar menn eru eins og nú að tala um það, að það sé ómögulegt að meta það í hvert skipti, hverjir eigi að hljóta þennan rétt, og þeir séu óánægðir með þær reglur, sem um það eru látnar gilda, þá eru þeir ekki að segja annað en að þeir séu óánægðir með stjórnarskrána og eiga því að beita sér fyrir breytingum á henni í þessu sambandi, en þangað til henni hefur verið breytt, þá er hún í gildi umfram aðrar reglur. Og þegar menn eru að vitna í lög frá 1935, þá er um það að segja, að þau eru markleysa og stríða á móti stjórnarskránni, það er ekki hægt með lögum að taka það vald af Alþingi, sem stjórnarskráin ætlast til að það hafi.

Hitt er annað mál, sem hv. 8. þm. Reykv. talfærði við mig, áður en þessi umr. fór fram, að rétt væri, að dómsmrn. aflaði sér gleggri upplýsinga um þá menn, sem meiningin er að veita ríkisborgararétt hverju sinni, og leggja þær upplýsingar fyrir Alþingi ásamt umsóknum þessara manna. Ég er alveg á því, að sú ábending hafi við rök að styðjast, og því hef ég lagt fyrir dómsmrn. að láta athuga, hvort ekki sé hægt að gera eitthvað til þess að fá bót á þessu. En eins og sakir standa og á meðan stjórnarskráin er óbreytt í þessu efni, geta menn ekki komizt hjá því að taka afstöðu til hvers og eins, og geta það þá verið bæði stjórnmálaskoðanir og kunningsskapur, sem ræður afstöðu manna, og getur þá hver þm. skapað sér reglur um þessi atriði. En af þessum sökum finnst mér ekki viðhlítandi að afgreiða málið með þeirri rökstuddu dagskrá, sem bv. þm. Barð. hefur lagt fram, og ég get lýst því yfir, að ég mun ekki treysta mér til að undirbúa slíka löggjöf, sem að mínum dómi mundi stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar.