23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég bjóst við því, að hv. þm. Barð. mundi mæla með þessari brtt., sem hann flytur á þskj. 763. Ég vildi aðeins segja það, að ég er samþykkur þessari brtt. Ég álít ekki neina ástæðu til þess, að heimildin nái til annarra sveitarfélaga en þeirra, sem hafa óskað eftir henni. Það liggja ekki fyrir óskir frá nema einu. Hv. frsm. meiri hl. hélt því að vísu fram, að það væri eingöngu vegna þess, að frv. hefði verið lagt fram sem almenn heimild. Nú er vitað, að frv. þetta var lagt fram eingöngu fyrir tilmæli bæjarstjórnar Akureyrar. Það hefur verið venjan, að bæjar- og sveitarfélögin hafa látið í ljós óskir sínar um þær framkvæmdir, sem þau hafa óskað eftir og varða þeirra fjárhag. Þau hafa ekki látið á sér standa að gera sínar kröfur, til þess að slík mál nái fram að ganga. Ég sé því enga ástæðu til að veita hér almenna heimild, þar sem óskir hafa aðeins borizt frá einu bæjarfélagi, enda er málið gersamlega þýðingarlaust, nema bæjarfélögin vilji ástunda meira ranglæti en þau hafa nú heimild til með álagningu útsvara. Hvað snertir Ísafjörð, en hann hefur víst borið fram sömu ósk, þá er hægt að verða við því, en óskir hafa ekki komið frá fleirum. Ég vildi því spyrja hv. þm., hvort þeir geti ekki verið því samþykkir, að frv. nái aðeins til Ísafjarðar og Akureyrar, því að óskir hafa ekki borizt frá fleirum. Ég fyrir mitt leyti get verið samþykkur frv. svo breyttu.