23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta mál verulega með því, sem ég segi. Ég hef á ýmsum tímum álitið, að það þyrfti breytingu á sviði fasteignamatsins, en ég hef því hugsað mér hana sem heildarbreyt., gerða með sérstöku tilliti til skatta, sem renna til ríkisins. Hér liggur þetta ekki fyrir, heldur einstök breyt. í skattamálum til uppbótar ofan á útsvör eða til tekjuaukningar fyrir sveitar- og bæjarfélög. Hitt liggur svo ekki fyrir hér að ræða um breyt. á fasteignamatinu hvað ríkið áhrærir. Ég hef lengi verið sannfærður um, að margar misfellur á skattgreiðslum til ríkisins eigi rót sína að rekja til úrelts fyrirkomulags. Ég sagði í upphafi, að það væri farið flaumóslega af stað með breyt. í þessum efnum og væri að því leyti til óþæginda.

Hæstv. ráðh. upplýsti, að í þeim bæ, sem við höfum fyrir augum, væri það vitanlega eitt fyrirtæki, sem yrði fyrst og fremst fyrir barðinu á þessum l. Þessu gæti ég trúað, því að ég hef heyrt, að fyrirsvarsmenn þess fyrirtækis væru farnir að sjá, að sú sérstaka hlífð, sem þessi starfsemi hefur notið, hefði komið bæjarkassanum þar svo um koll, að það þyrfti að grípa til nýrra úrræða. Það stendur sérstaklega á um Akureyri, þar sem eitt fyrirtæki er búið að leggja undir sig alla verzlunina. Þegar þess er gætt, hvernig útsvör eru annars staðar, þar sem margar smáverzlanir eru og engin sams konar yfirgnæfandi velta hjá einu fyrirtæki eins og á Akureyri, horfir þetta öðruvísi við. Það er því þess vegna, eins og hæstv. ráðh. sagði, að þetta er rökstuðningur fyrir að láta þessa tilhnikun á l. varðandi fasteignamatið staðna við Akureyri. Það er af þessari ástæðu og líka vegna þess, að bærinn hefur beðið um þetta. Ég skal svo ekki orðlengja þetta, en ég vil aðeins í einfeldni minni biðja þingbróður minn, hv. þm. S–Þ., að skýra málið, því að hann er greinargóður og þekkir betur inn á sveitarstjórnarmál en ég. En af því að hv. þm. hélt því fram hér, að hér væri skattur á ferð, sem lagður væri á eftir efnum og ástæðum, og það er vitað, að svona fasteignaskattur, hvort sem hann er 400% eða hvað mikill hundraðshluti sem hann er, er lagður jafnt á alla húseigendur, hvort sem þeir eru skuldugir eða skuldlausir, hefði ég gaman af því, að hv. þm. gæti sannfært mig um, að svona skattur væri í raun og veru lagður á eftir efnum og ástæðum. Það er mikils um vert, ef hann getur fengið mig til að skilja, að maður, sem á 100 þús. kr. hús, en skuldar í því 90 þús. kr., eigi að greiða sömu upphæð og maður, sem á sömu eign skuldlausa, og segja svo, að þetta sé að leggja skatt á eftir efnum og ástæðum.