20.11.1951
Neðri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

114. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, lá fyrir síðasta þingi. Það fylgdi því þá allýtarleg grg., og er hún nú endurprentuð á þskj. 216. Þetta mál var borið seint fram á þinginu og var þá afgreitt með rökstuddri dagskrá, þar sem þess var óskað, að ríkisstj. sendi stjórn Búnaðarfélags Íslands frv. með ósk um, að hún legði það fyrir búnaðarþing til umsagnar, og átti þá að vera hægt að leggja frv. fram á næsta þingi. Þetta hefur verið gert. Málið lá fyrir á síðasta búnaðarþingi, sem athugaði það rækilega og vísaði því til mþn. Enn fremur hefur landbn. haft frv. til athugunar. Enginn þessara aðila hefur séð ástæðu til að gera breyt. á frv. eins og það kom frá flm., og hefur landbn. því séð ástæðu til að flytja það nú. — Ég skal taka það fram, að landbúnaðarn. hefur í smiðum nokkurn viðauka við þetta frv., og mun hann verða borinn fram við 2. eða 3. umr. málsins, en það var ekki frá honum gengið, þegar frv. var lagt inn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frv. frekar nú, þar sem því fylgir allýtarleg grg. Ég óska þess svo, að málið gangi áfram, en það þarf ekki að vísa því til n., þar sem það kom frá nefnd.