26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

114. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forsetl. Hv. 2. þm. Skagf. lét þess getið, að ég var fjarverandi, þegar n. hélt fund. Og hann sagði, að það hefði verið erfitt að fresta málinu, þar sem svo áliðið væri þings. En ég ætla að benda á það, að það liggja fyrir landbn. önnur mál, a.m.k. þrjú frv., um að bæta úr lánsfjárþörf landbúnaðarins, sem eru ekki afgreidd og ekki tekin fyrir í n. og eru um mál, sem skiptir þó landbúnaðinn miklu meiru en þetta mál, sem hér liggur fyrir. Það hefði því verið miklu meiri ástæða til að afgreiða þau mál en þetta, ef sérstakur áhugi fyrir landbúnaðinum einum hefði átt að ráða.

Þá komst hv. frsm. þannig að orði, að það væri eins og að ausa vatni í botnlausa tunnu að byggja nýbýll og láta góðar jarðir leggjast í eyði rétt hjá þeim. Það er vissulega þróun, sem ekki á að eiga sér stað, og nýbýlastjórn á að gæta þess, að þannig verði ekki misnotuð ákvæði nýbyggðalöggjafarinnar. En því verður ekki neitað, að eigi nýbýlastjórn að hafa svo viðtæk afskipti eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., þá koma afskipti hennar ákaflega mikið til með að snerta það ákvæði, sem í stjskr. er kallað helgi eignarréttarins. Og ef það er um að ræða, sem hann segir, að þessi mál séu viðkvæm og í mörgum tilfellum þannig, að hreppsn. treysti sér ekki við þau að fást, þá sé ég ekki, að aðstaða nýbýlastjórnarinnar sé góð til að fást við þessi mál um allt land, þegar hreppsn. treysta sér ekki til að ráða fram úr þeim, sem er þeirra skylda.

Hv. þm. sagði, að landnámsstjóri hefði safnað skrá yfir allar eyðijarðir á landinu, og það hefur hann gert í þessu máli, án þess að nýbýlastjórn væru lagðar frekari skyldur á herðar. Og ég hygg, að það sé nægilegt, sem hann hefur gert í þessu, og sé ekki rétt að koma með ný l. til þess að leggja nýbýlastjórn það á herðar að standa í stímabraki við hreppsn. og einstaklinga vegna þessa, þegar eignarrétturinn er virtur samkvæmt stjskr., og þeir eiga því að ráða, hvað þeir gera við sínar jarðir. Og hv. 2. þm. Skagf. veit, að einmitt það, sem við höfum rekið okkur á í sambandi við framkvæmd nýbýlal., þegar á að fá land til að stofna nýbýlahverfi, er, að þegar einstaklingar eiga eignarrétt á landinu, hefur það tekið 2–3 ár að komast yfir lönd þau, sem nýbýlastjórn hefur haft augastað á. Þetta er eðlilegt, En ef nýbýlastjórn á að vinna eftir þeim ákvæðum, sem hér um ræðir í þessu frv., þá getur það, sem frv. fjallar um, valdið meiri erfiðleikum en það, sem ég nú nefndi, vegna þess að þar er ekki nema um fáa staði að ræða, þar sem byggðarhverfi hafa verið undirbúin hingað til.

Hv. 2. þm. Skagf. kom inn á það sama og áður, að nauðsynlegt væri að stefna að því, að menn gætu unnið að ræktuninni fyrst á nýbýlum og þyrftu ekki að byggja fyrr en síðar. Jú, það er nú svo. Ég læt það gott heita, svo langt sem það nær. En hv. þm. minntist ekkert á þá erfiðleika, sem ég talaði um í sambandi við þetta, sem þyrfti að yfirstíga, svo að ekki yrðu mistök í þessum málum.

Þá sagði hv. þm., að þetta hefði verið borið undir landnámsstjóra. Það er rétt, en hann mun ekki hafa viljað gefa skriflega umsögn um mólið. En ég tel, að það hefði verið réttara að fá landnámsstjóra á fund í n. og ræða ýtarlega um málið.

Ég vil benda á það, að auðvitað verður að koma til greina í sambandi við þetta mál, að það fé, sem landnámssjóður hefur til umráða, er orðið um 3/5 að notagildi á við það, sem var 1946. Síðan hafa fjárl, hækkað um helming. Nú er svo komið, að ef ekki verður mjög fljótlega ákveðið, að fé verði aukið til þessara framkvæmda, þá verða þær að verulegu leyti stöðvaðar á næstu árum. Það er atriði, sem ekki er minna virði að taka til athugunar í sambandi við þessi mál en þau atriði, sem þetta frv. fjallar um ásamt brtt., sem við það eru gerðar. En það er meiri þörf á að afgreiða frv, um aukið fé til landbúnaðarins, og samþykki þeirra mundi sýna meiri áhuga fyrir framför landbúnaðarins en afgreiðsla þessa frv., sem hér liggur fyrir.