13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Mína afstöðu hefur borið nokkuð á góma í umr. þessa máls, og þykir mér því rétt að rekja nokkuð afgreiðslu málsins í n. Málinu var vísað til iðnn. s.l. fimmtudag, og var fundur boðaður sama dag og þess getið, að raforkumálastjóri væri sérstaklega boðaður á fundinn. Þegar örstutt stund var eftir af fundartímanum, var lokið umr. um raforkumálin, og var þá tekið fyrir iðnaðarbankamálið. Það var lítið um mótmæli, en ég sagði, að ég væri ekki tilbúin að taka afstöðu til málsins. En málið hefur aldrei verið til athugunar og það er ekki rétt, að það hafi áður verið undirbúið og athugað af þinginu. Af þessum ástæðum taldi ég mér ekki mögulegt að marka mína afstöðu til þess.

Saga þessa máls er sú, að það var borið fram í fyrra í Nd. Þá fékk það ekki þá meðferð, sem það þurfti, og gekk í gegnum d. óathugað og kom þannig til þessarar d. Var því þá vísað til iðnn. eins og nú, og þá klofnaði n. eins og núna, en á annan hátt. Þá voru í minni hl. hv. 4. landsk. þm. og hv. þm. Vestm., en meiri hl., hv. 1. þm. N-M., hv. þm. Barð. og ég, vildi láta gera á málinu athugun og lagði fram nál., og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp þetta nái., sem er samið af hv. þm. Barð., en það hljóðar svo:

„Nefndin hefur rætt málið á einum fundi og ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Vill minni hl. (JJós og StgrA) láta samþ. frv. óbreytt. Á þetta getur meiri hl. ekki fallizt. Hann lítur svo á, að áður en horfið er að því ráði að stofna nýjan banka, sem ætlazt er til, að ríkissjóður leggi í allmikið fé þurfi ýmsar viðtækari upplýsingar að liggja fyrir en þær, sem koma fram í grg. frv., svo sem upplýsingar um heildarlánsþörf atvinnuveganna og hvernig lánsfé bankanna skiptist á milli þeirra á ýmsum tímum. Enn fremur sýnist vera rétt að fá álit sérfræðinga á gildandi bankalöggjöf og tillögur þeirra um endurbætur á henni í heild miðað við breyttar aðstæður og viðhorf í landinu. Nefndin hefði að sjálfsögðu getað sent frv. til umsagnar til aðila, sem ástæður hefðu haft til að gefa ýmsar upplýsingar hér að lútandi, en tími hefði ekki unnizt til þess á þessu þingi að afla allra slíkra gagna og því síður að vinna úr þeim. Meiri hl. álítur því eðlilegast, að ríkisstj. verði falið að afla þessara gagna og leggja þau fyrir næsta þing. Verður þá augljósara, hvort rétt þyki að samþykkja stofnun nýs banka og taka þá upp í fjárlagafrv. næsta árs þá fjárhæð, sem ákveðið kann að verða, að ríkissjóður leggi fyrirtækinu. Meiri hl. leggur því til, að frv. verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

Með því að rétt þykir, áður en samþykkt eru lög um stofnun Iðnaðarbanka, að fá upplýst um heildarlánsþörf atvinnuveganna hvers fyrir sig og hvernig lánsfé banka og sparisjóða skiptist árlega á milli þeirra, og enn fremur, að fyrir liggi álit sérfræðinga á bankalöggjöf landsins í heild og tillögur þeirra til breytinga á lögunum, og í trausti þess, að ríkisstj. láti sem fyrst afla þessara upplýsinga og leggi þær fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Í þessu máli er stefnt að því að fá grundvöll að því hversu bankamálin verði bezt leyst. Það er litið svo á, að stofnun banka með ríkið fyrir bakhjarl sé ekkert einkamál fárra manna, heldur sé það mál, sem komi allri alþjóð og öllu ríkinu við. Þess vegna lagði meiri hl. til, að reynt yrði að fá fram athugun á málinu, áður en lengra væri gengið. Ég hygg, að meiri hl. hafi frekar þá en nú verið að reyna að fá grundvöll til að byggja á í þessu máli. Í þeirri rökst. dagskrá, sem fylgdi nái. frá í fyrra, var óskað eftir upplýsingum frú ríkisstj. Þær upplýsingar hafa ekki komið enn, og er það engin ný bóla, að það, sem á að gera, kemur ekki fram fyrr en seint og um síðir eða aldrei. Nú vill svo til, hvort sem það er vegna þessa máls eða annars, að ríkisstj. hefur skipað n. til að athuga bankamálin í heild. En það hefur komið í ljós, að þessi n., bankamálan., telur þetta mál koma inn á sitt starfssvið og hafa mjög truflandi áhrif á störf n. Álit þessarar n. hefur að öðru leyti ekki komið til þessa þings. Það hefur ekki heldur verið gerð nein tilraun til þess að fá umsögn n. um það, hvort hún gæti gefið út eitthvert nánara álit, og meiri hl. mundi eflaust finnast það til óþurftar málinu. Það verður svo sjálfsagt kallað fjandskapur við málið, að ég gat ekki, þegar svona stóð á, talið mig reiðubúna til að taka afstöðu til þess á 5 minútum. Ég vil styðja iðnaðinn af öllum mætti og tel hann allra góðra gjalda verðan, en ég efast um, að það sé rétt af Alþ. að samþykkja á þessu stigi málsins stofnun þessa banka. Ég get ekki séð, hvers vegna verzlunarstéttin ætti þá ekki að koma strax á eftir og heimta sinn banka. Það var á sínum tíma ætlazt til, að Útvegsbankinn veitti ekki aðeins lán til útvegsmanna, heldur og til iðnaðar í sambandi við útveg, og ef nú þarf að fara að stofna iðnaðarbanka, þarf þá ekki eins að stofna verzlunarbanka til þess að veita lán til verzlunarinnar? Verzlun er ekki síður þörf en iðnaður, og hví þá ekki að stofna líka verzlunarbanka, — kannske fleiri? Það kann að vera rétt að stofna banka fyrir hverja sérgrein atvinnuveganna, en sú stefna verður að teljast ný og þarf athugunar við.

Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta mál nú. Ég mun fylgja till. hv. þm. Seyðf., sem miða að því að efla iðnlánasjóð, og mun ég greiða till. hans sérstaklega atkv. mitt með tilliti til þess, að þennan atvinnuveg skortir stofnfé, sem stafar af fjárskorti, og ef meiningin er að auka iðnaðinn, er augljóst, að réttara er að leggja fé í iðnlánasjóð en að bíða eftir því, að Iðnaðarbankinn komist upp, jafnvei þó að því máli verði hraðað, og af þeirri ástæðu greiði ég till. hans atkvæði mitt, að ég álít, að nauðsynlegt sé, að fjármagnið komist sem fyrst út í atvinnulífið og sem fyrst að notum.

Að öðru leyti hef ég ekki tafið þetta mál, heldur óska ég þess ásamt hv. form. iðnn. og 1. þm. N-M., að það fái rétta afgreiðslu að undangenginni rannsókn. Læt ég svo máli mínu lokið.