25.10.1951
Neðri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

72. mál, sala Múlasels og Hróastaða

Flm. (Andrés Eyjólfsson):

Herra forseti. Það þarf ekki mörg orð til þess að skýra þetta frv., það liggur alveg ljóst fyrir. Það er flutt eftir beiðni ábúandans á Helgastöðum um, að hann geti átt kost á að kaupa jörðina Múlasel, sem hefur verið í eyði í nokkur ár. Þetta er mjög lítil jörð, sem enginn sómi hefur verið sýndur um langa hríð. Túnið er lítið og þýft og byggingar nálega engar á jörðinni. Á Helgastöðum hefur verið búið af miklum dugnaði og ræktun aukin, en þar skortir meira beitiland fyrir búpening, en beitiland er talið vera í Múlaseli, og gæti þá ábúandi Helgastaða aukið bústofn sinn. Þess vegna óskar ábúandinn, að ríkisstj. sé veitt heimild til að selja þessa jörð og hann verði kaupandi hennar. — Frv. fylgir álit frá hreppstjóra Hraunhrepps og annað frá hreppsnefnd Hraunhrepps, og bæði eru því meðmælt, að þessi heimild verði gefin og ábúandinn geti fengið þessa jörð keypta. Þetta er flutt vegna beiðni ábúandans, sem er orðinn aldraður, en sonur hans, Friðjón, sem er um tuttugu ára, hugsar sér að halda áfram búskap á jörðinni.

Ég vona, að þingdeildin taki þessu máli vel og vísi málinu að umr. lokinni til landbn. Þessi mál hafa venjulega legið fyrir landbn.