16.11.1951
Efri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

28. mál, aðstoð til útvegsmanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef áður hér í hv. þd., oftar en einu sinni, látið í ljós, að ég teldi það mjög misráðið, þegar Alþ. breytir einum og sömu lögum með fleiri en einum lögum á sama þingi. Við vorum hér áðan, á þessum sama fundi, að samþ. frv. sem lög um að breyta þeim l., sem þetta frv., sem fyrir liggur, einnig er um breyt. á. Þessi tvö frv. um breyt. á þessum sömu lögum eru borin fram til staðfestingar á brbl., sem stjórnin gaf út, og eru þessi tvenn lög um breyt. á lögum um aðstoð til bátaútvegsmanna. - Nú vildi ég spyrja: Væri ekki hægt af nefnd að sameina þessi tvö frv. í eitt? Er það nauðsynlegt að samþ. brbl. eins og þau liggja fyrir? (GJ: Það er búið að samþ. hitt frv. nú sem lög.) Já, en hví sameinaði nefndin ekki bæði frumvörpin? — Nú skyldi ég sem útvegsmaður eða einhver annar maður eftir tuttugu ár fara að gá að því, hvaða breyt. hefði verið gerð á Alþ. því, er nú situr, á lögunum nr. 120 frá 1950, um aðstoð til útvegsmanna. Jú, ég finn — eða þessi maður — aðra breyt., sem gerð var á lögunum. Þá mundu 90 af hverjum hundrað ekki láta sér detta í hug, að tvennar breyt. hefðu verið gerðar á einum og sömu l. á sama þingi, og hætta að leita, þegar þeir væru búnir að finna aðra breyt. Þar að auki hefur það aukin útgjöld í för með sér að ræða þetta á þingi og prenta í tvennu lagi í stað þess að sameina þetta í eitt. — Þessu tel ég að þurfi að breyta þannig, að hafðar séu allar þær breyt., sem gerðar eru á sömu lögum á sama þinginu, í einu lagi. Ég skil vel ríkisstj., þótt hún gefi út tvenn brbl. til breyt. á sömu l. milli þinga, þannig að þegar fyrri l. voru út gefin, hafi ekki verið að fullu vitað, að hin síðari þyrfti að gefa út, og því geti orðið nauðsynlegt að gefa út önnur brbl. En hvers vegna er þetta ekki haft svo, að n. tengi þessi tvenn brbl. saman, svo að ekki séu samþ. nema ein lög til breyt. á sömu l. á sama þingi? Ég fæ ekki skilið annað en að það hljóti að vera leyfilegt að sameina þannig tvenn brbl.

Ég ætla ekki að segja meira um málið og vona, að menn athugi þetta og taki það til greina framvegis.