17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð viðvíkjandi umr., sem varð hér áðan milli hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. fjmrh. Það er út af því sjónarmiði, sem fram hefur komið m.a. í blaði hæstv. fjmrh., að sú áburðartegund, sem hér á að framleiða, sé sú — áburðartegund, sem bezt hefur reynzt, og eftir þeirri tegund sé sívaxandi eftirspurn. Það er og helzt að ráða af orðum hans, að með framleiðslu þessarar áburðartegundar sé verið að hugsa um hagsmuni bænda. Þessu vildi ég mótmæla, því að þetta er fjarstæða. Þegar l. um áburðarverksmiðju voru samþ. í Ed., gerði ég grein fyrir afstöðu minni í þessu máli og klauf þá landbn. út af þessu atriði. Það er rétt, að þessi áburðartegund hefur verið notuð hér síðan á stríðstímum, og hefur hún að vissu leyti reynzt vel. Hún er þó stórgölluð, þar sem hún inniheldur aðeins eitt af þeim þremur efnum, sem jörðin þarf, ef einhver uppskera á að verða. Þetta vita allir íslenzkir bændur. Mér þætti gaman að horfa framan í þann bónda í þessari deild, sem héldi því fram, að köfnunarefnisáburður nægði eingöngu.

Þegar byrjað var að nota erlendan áburð hér á landi, var notaður Chile-saltpétur, superfosfat og kali. En svo var byrjað að framleiða nitrophoska í Þýzkalandi, sem varð mjög vinsæl tegund, vegna þess að hann inniheldur þau þrjú áhurðarefni, sem jörðin þarfnast. Þurftu þá bændur aðeins einn poka í stað þriggja áður. Hafði það í för með sér, að flutningskostnaður minnkaði mjög og dreifing áburðarins varð auðveldari. Þessi áburður fékkst ekki á stríðsárunum, og var þá farið að nota nítrofosfat. Það ætti að vera svo stór kostur fyrir bændur að kaupa einn poka í stað þriggja, að ég held, að þeir hljóti að kjósa þann kostinn heldur. Ég vil benda á þetta vegna þess, að þetta er staðreynd, sem ekki er hægt að hrekja né neita. — Ég vil einnig benda á það, að í l. um áburðarverksmiðju er gert ráð fyrir, að verksmiðjan framleiði áburð, sem innihaldi ammoníumfosfat. Ég veit, að það mundi vera heppilegt að framleiða hann hér á landi og þyrfti þá ekki að flytja inn annan áburð. — Ég vildi þá einnig benda á það, hvort ekki mundi vera heppilegt að framleiða kalíáburð og hafa þá þau þrjú efni, sem jörðin þarfnast. Ég benti strax á þetta í Ed., er l. um áburðarverksmiðju voru þar til umr. Ég tel, að það væri heppilegra að framleiða þær tegundir áburðar.