15.10.1951
Neðri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú sjálfsagt óþarfi að hafa langa framsögu fyrir þessu frv. Það hefur legið hér fyrir þrem undanförnum þingum og þá verið gerð ýtarleg grein fyrir efni þess. Auk þess hefur það fengið meðferð í nefndum og verið afgr. frá þessari hv. d. á síðasta þingi. Málið er þannig þrautrætt, og væntanlega hafa allir hv. þm. kynnt sér það.

Ég vil þó aðeins segja það um þetta mál, að eftir því sem árin líða og eftir því sem upp er tekin meiri vélanotkun og hvers konar starfsemi í þessu landi, þá vex hættan jafnframt á því, að þeir, sem með þessi tæki fara og með þeim vinna, geti orðið fyrir áföllum og slysum, eins og því miður raun ber vitni allt of oft. Það er þess vegna með hverju ári sem líður enn brýnni þörf til þess að afgr. þetta frv. eða einhverjar hliðstæðar lagasetningar, til þess að reyna að draga úr þeirri hættu, sem þetta fólk er í, og reyna að koma í veg fyrir slys á vinnustöðum. Þetta frv. stefnir að þessu á tvennan hátt. Annars vegar með því að mæla fyrir um ýmsar öryggisráðstafanir, sem settar skuli á ýmsum vinnustöðum, og í öðru lagi með því að stofna til strangara eftirlits með því, að þessum öryggisráðstöfunum sé framfylgt. Út í efni frv. skal ég ekki fara nánar. Það hefur verið gert ýtarlega og er flutt hér nú í sömu mynd eins og það var flutt hér síðast, að viðbættu því þó, að inn í það eru teknar þær breyt., sem iðnn. þessarar hv. d. var sammála um í fyrra, og auk þess brtt., sem gekk út á að færa til betri vegar orðalag, og sú till. var frá hv. 5. þm. Reykv. (JóhH). Með þessum breyt. er það að öðru leyti flutt óbreytt eins og það lá fyrir síðasta þingi. Öllum hv. þm. er líka kunnugt um það mikla starf, sem liggur bak við hetta frv. Það var hér á sínum tíma eftir ályktun Alþ. sett á stofn milliþn. til þess að undirbúa það, og hún starfaði vel að því um nokkurn tíma að undirbúa það, og þetta frv. er ávöxtur þessa starfs. Frv. þetta hefur þó ekki náð fram að ganga á undanförnum þingum. Það komst það lengst árið sem leið, að hér í hv. d. var það samþ., með nokkrum breyt. þó, sem ég fyrir mitt leyti persónulega taldi ekki allar til bóta. En í hv. Ed. var það stöðvað eða afgr. með rökst. dagskrá. Þessi rökst. dagskrá fól í sér, að það skyldi athugast, hvort ekki væri unnt að sameina þetta eftirlit með öryggi á vinnustöðum, eða véla- og verksmiðjueftirlit, eins og það heitir nú, skipaskoðuninni á þann hátt, að með því fengist ódýrara og effektivara eftirlit, að mér skilst, með báðum þessum málaflokkum. Við athugun, sem ég hef gert á þessu, hefur það þó komið í ljós, að fyrir lá þegar á síðasta þingi umsögn beggja þessara stofnana um þessa hlið málsins, Og þar var mjög greinilega tekið fram, bæði af verksmiðjuskoðunarstjóra og af skipaskoðunarstjóra, að þeir teldu þetta ekki fært, og þó að það væri gert, mundi það ekki spara nein útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég hef umsögn þessara forstjóra beggja hér við höndina og vildi — með leyfi hæstv. forseta lesa upp það, sem þeir segja um þetta atriði. Eftir að verksmiðjuskoðunarstjórinn hefur í bréfi frá 4. nóv. 1950 lýst aðbúnaði og starfskröftum þeirrar stofnunar, sem hann segir að hafist við í einn herbergi, og séu nú við eftirlitið þrír fastlaunaðir starfsmenn, skoðunarstjóri, skoðunarmaður og skrifstofustúlka, og telur hann, að það starfslið verði á engan hátt takmarkað, þá segir hann hér í bréfinu á eftir:

„Væru fyrr greindar stofnanir sameinaðar, get ég ekki séð, að það gæti sparað starfsmenn, með því að ég tel ekki, að starfsmenn verksmiðju- og vélaeftirlitsins gætu bætt á sig störfum í þágu skipaskoðunarinnar, enda störfin gerólík og sérhæfni starfsmanna sín á hvoru sviði. Þá get ég ekki séð, að hægt sé að ætla verksmiðju- og vélaeftirlitinu minna húsnæði en það hefur nú, enda þótt það væri sameinað skipaskoðuninni.“

Mjög samhljóða er álit skipaskoðunarstjóra. Hann segir í bréfi frá 31. oki. 1950, eftir að hafa lýst því nokkuð, hvernig skipaskoðun ríkisins er byggð upp:

„Af framansögðu sé ég ekki, að neinn sparnaðargrundvöllur sé fyrir hendi fyrir sameiningu nefndra stofnana, og tel ekki æskilegt að breyta til frá því fyrirkomulagi, sem nú er, nema sjáanlegt sé, að með því sé fengið aukið öryggi fyrir sjófarendur, en það sé ég ekki, að fengið sé með sameiningu nefndra stofnana.“

M.ö.o., álit beggja þessara forstjóra hníga í þá átt, að með sameiningu þessara starfsgreina verði hvorki fengið meira öryggi né heldur náist með því móti neinn sparnaður fyrir ríkið. Og eftir að mér varð kunnugt um þetta — og þar með er þá líka fallin ástæðan fyrir rökst. dagskránni í hv. Ed. — sá ég ekki ástæðu til að bíða með flutning frv. eftir því, að hv. þd. hér, og enn síður eftir því, að hv. þdm. í Ed. tækju rögg á sig um að afgr. málið. Og það hefur líka komið í ljós, að þetta mál, sem hér um ræðir, öryggisráðstafanir á vinnustöðum, er talið af sérfræðingum í iðnaðarmálum eitt hið þýðingarmesta fyrir afkomu iðnaðarins. Hingað var fenginn á síðasta sumri sérfræðingur frá Bandaríkjunum til að kynna sér ástand í iðnaðarmálum okkar í verksmiðjum og á vinnustöðum og gera tillögur um bættar vinnuaðferðir. Þessi maður skoðaði fjölda af verksmiðjum í Reykjavík og líka á Akureyri mjög gaumgæfilega og mun að sjálfsögðu skila áliti sínu til ríkisstj., og kemur þá í ljós, hvað hann hefur til málanna að leggja. Ég átti þess kost að vera viðstaddur í kvöldboði. sem honum var haldið. áður en hann lagði af stað vestur aftur, af Félagi íslenzkra iðnrekenda, þar sem hann flutti ræðu, og er þessi ræða prentuð í tímaritinu Íslenzkur iðnaður. Ég gat ekki betur heyrt en hann gerði það beinlínis að uppistöðu í ræðu sinni og legði á það höfuðáherzlu, að öryggi á vinnustöðum yrði bætt. Og ég gat ekki stillt mig um að taka upp í grg. frv. lokaorð ræðu hans, en þau voru þessi — með leyfi hæstv. forseta:

„Og að lokum eitt atriði enn. Ykkar eigin skýrslur sýna, að á árunum 1944–45 og 1946 töpuðust 104231 vinnudagur og 22 mannslíf vegna slysa á vinnustöðvum. Þar við bættust 37 starfsmenn, sem urðu með öllu óverkfærir af sömu orsökum. Þetta samsvarar vinnu 417 starfsmanna í heilt ár, án þess að tekið sé tillit til þeirrar eymdar og þjáninga, sem þetta fólk og aðstandendur þess hafa orðið fyrir. Getið þið talað um aukna verknýtingu í iðnaði og þessa reynslu í sömu andránni, þegar tillit er tekið til þess, hve hörmulega skortir á nauðsynlegar varúðarráðstafanir gegn slysahættu í verksmiðjum ykkar og vinnustofum? Fyrsta vörn ykkar er ef til vill þessi: „Ég hef ekki efni á því.“ Leyfið mér að minna ykkur á, að samkvæmt ykkar eigin tölum, þá hafið þið s.l. í ár greitt kr. 12920060.00 vegna þessara slysa og auk þess hafið þið misst þessa menn og framleiðslu þeirra. Það er engin nauðsyn að benda á, hvaða ráð er hægt að finna við þessu. Þið þekkið þau eins vel og ég.“

Og hvaða ráð eru það svo, sem þessi sérfræðingur á við? Það er að setja reglur um öryggi á vinnustöðum til þess að stöðva þessi slys og fylgja því eftir með eftirliti, að þessum reglum sé hlýtt.

Þetta lagði þessi ameríski sérfræðingur til, og ég álít það ekki vansalaust fyrir Alþ. að hleypa því fram af sér að samþykkja reglur um þetta atriði nú, sérstaklega þar sem Nd. samþ. það í fyrra og ekki skorti nema herzlumuninn, að það næði fram að ganga í Ed.

Ég vona svo, að hv. d. afgr. þetta mál sem fyrst, svo að Ed. gefist kostur á að hafa sem mestan tíma til að athuga það.