25.10.1951
Neðri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

20. mál, hegningarlög

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vil benda á, að nú er málið til 2. umr., og er 3. umr. þá eftir. Ef mönnum leikur hugur á að koma með brtt. og athuga þetta betur, þá ætti mönnum að gefast nægur tími til þess milli umræðna. Annars kennir nokkurs misskilnings hjá hv. þm., að hér sé um stórfelld fríðindi að ræða. Breyting þessi stafar af breytingu á stjórnarfari okkar. Nú kemur forseti í stað konungs, og það, sem bent er á í 2. gr., er það, að ef forseta eða hans nánustu er sýnd móðgun, sem ætla megi að sé stefnt gegn heimili hans, þá megi þyngja refsinguna um allt að helming fram yfir það, sem væri, et einhver annar ætti hlut að máli. Þetta er nú það eina. Ég ætla, að þess sé í löggjöf nokkuð gætt, að forseti hafi nokkra vernd og kona hans og börn, sem á heimili hans eru. Ég held, að það sé vel fyrir öllu séð, þótt þetta sé svona. En sem sagt, ef hv. þm. þykir nú mikill vandi á ferðum, þá gefst tækifæri til að athuga þetta milli umræðna, og forseti tekur málið þá væntanlega ekki á dagskrá fyrr en eftir nokkra daga, svo að öllu réttlæti sé nú fullnægt.