22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Út af þeim orðum, sem hv. þm. Vestm. beindi til mín, vil ég taka fram, að ég treysti mér ekki til að gefa neinar yfirlýsingar um það, hvernig heppilegast sé að haga framkvæmdum á þessu atriði, þar sem þær fara að sjálfsögðu að verulegu leyti eftir till. frá raforkumálaskrifstofunni og sérfræðingum í þessu efni, enda eru yfirlýsingar ráðh. langt fram í tímann oftlega ekki mikils virði.

Ég skal svo ekki lengja umr. mikið um þetta mál. Það má að sjálfsögðu lengi um það deila, hvort eðlilegt sé að setja þessi lög strax, en mín sannfæring er sú, að þau muni frekar verða til góðs. Ég hef og spurt nokkra þm. að því, hvort þeir hefðu áhuga fyrir því, að þessi lög yrðu samþ. nú, og hafa þeir, sem hlut eiga að máli, talið það rétt. Nú, það liggur og fyrir hjá n., hvað af þessum vatnsföllum hefur veríð rannsakað og hvað ekki, og ég vil benda á, að þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem slík vinnubrögð hafa verið höfð í frammi. Margar framkvæmdir kalla svo að, og hugur manna utan þings sem innan er svo langt á undan tímanum, að menn eru oft langt á undan með ákvarðanir. Það hafa verið samþykktar virkjanir á vatnsföllum, áður en nákvæm rannsókn hefur farið fram á þeim. Verði þetta frv. samþ., þá þýðir það það, að ýtt verður betur á eftir rannsóknum á viðkomandi vatnsföllum. En þessar rannsóknir kosta ekki litíð fé, og á því vil ég vekja athygli, og m.a. er mjög erfitt að framkvæma þær með þeim hraða, sem óskað er, nema að fá til þess erlenda sérfræðinga, vegna þess að okkur vantar innlenda starfskrafta á þessu sviði. En eins og ég sagði áðan, mun ríkisstj. láta hraða rannsókn á þessum vatnsföllum eins og unnt er með því fjármagni, sem veitt er til þessara hluta. Ég geri t.d. ráð fyrir, að í sumar verði rannsakaður verulegur hluti fallvatna á Vestfjörðum og á Austurlandi.