23.01.1952
Efri deild: 70. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þar sem ekki tókst að drepa þetta frv. við 2. umr., vil ég leyfa mér að flytja brtt. við 1. gr. þess á þá lund, að í staðinn fyrir, að sveitarstjórnum (bæjarstjórnum og hreppsnefndum) sé heimilt að leggja sérstakt gjald á kvikmyndasýningar, komi: Bæjarstjórn Reykjavíkur er heimilt að leggja sérstakt gjald á almennar kvikmyndasýningar, aðrar en sýningar íslenzkra kvikmynda og fræðslukvikmynda. — Ég vil, að það sé skýrt tekið fram, að þetta gjald verði hvorki tekið af fræðslukvikmyndum né íslenzkum kvikmyndum. Íslenzkir kvikmyndaframleiðendur eiga við örðugleika að stríða. Hafa aðgöngumiðar á þessar sýningar verið seldir háu verði, en samt hafa þeir í fæstum tilfellum náð upp í kostnaðinn, sem þeir hafa haft af kvikmyndatökunni. Ég álít því, að slíkar kvikmyndir eigi ekki að skattleggja, því að það mundi torvelda fyrir íslenzkum mönnum að taka íslenzkar kvikmyndir, sem er þó góðra gjalda vert. — Tel ég sjálfsagt að binda þessa heimild við Reykjavík, þar sem hér er verið að biðja um skattálagningu í staðinn fyrir skatt, sem hefur verið innheimtur hér í Reykjavík frá reykvískum kvikmyndahúsum. En nú fer mjög að halla svo undan fæti fyrir slíkum rekstri í fámennum kaupstöðum og kauptúnum, að hann er ekki fær um að rísa undir þeirri skattálagningu, sem hér um ræðir. — Vil ég leyfa mér að afhenda forseta þessa skriflegu brtt.