23.11.1951
Efri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

109. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson [frh.]:

Herra forseti. Þegar ég lauk máli mínu í gær, hafði ég rætt við hæstv. ráðh., hversu óheppilega hefur tekizt til um skipun mþn., þar hefði í rann og veru enginn fulltrúi verið frá þeim héruðum, sem nú á að fækka prestum 1. Það mun einnig vera meginástæðan fyrir því, að tekizt hefur svo til í sambandi við till. n., að lagt er til að fækka stórkostlega prestum í sveitum landsins, en fjölga aftur þar, sem samgöngur eru beztar og fólkið flest. Mér þykir ekki óeðlilegt, þó að þessi sjónarmið komi fram hjá prófessor við háskólann. Hann lítur fyrst og fremst á málið sem stéttarmál, þar sem honum hefur tekizt að fá samkomulag um till., þar sem ekki sé fækkað að neinu verulegu leyti í heild í landinn. Sama gildir um skólastjórann Ingimar Jónsson. Þetta eru þeirra sjónarmið, en þessir menn eru ekki fulltrúar þeirra sveita, sem ég ræddi hér um. Það gildir líka hið sama um form. n., sem býr í þéttbyggðu héraði og hefur alla möguleika til þess að geta farið um héraðið jafnt vetur sem sumar og er ekki háður þeim erfiðleikum, sem aðrir prestar eru háðir, þar sem samgönguerfiðleikar eru allt aðrir og miklu meiri. Og úr því að hæstv. ráðh. fannst tilhlýðilegt og sjálfsagt gagnvart málinu sjálfu að skipa í n. fyrir fram vitaðan fjandmann þessa máls, þá hefði mér fundizt einnig rétt af honum að skipa í þessa n. einhverja menn, sem fyrir fram var vitað, að hefðu samúð með málinu. Ég tel því, að skipun n. hafi verið beinlínis gerð með það fyrir augum að ná því takmarki, sem hér hefur verið náð, — ég tei, að þannig hafi ekki átt að skipa n., og tel það illa farið. Ég hefði talið heppilegt, að hæstv. ráðh. hefði skipað í n. einn af þeim þremur prestum, sem mér er kunnugt um að hafa gagnrýnt fækkunina í Strandasýslu, þar sem hann er kunnugur og þar sem þessir menn eru kunnugir, en tveir þeirra eru starfandi í þessum prestaköllum, og báðir þeir prestar telja hreinustu fjarstæðu að ætla sér að fækka prestum í Strandasýslu eins og gert er ráð fyrir í frv. En þessi gagnrýni kom fram áður en skipað var í n., svoleiðis að hæstv. ráðh. er kunnugt um, hvað kom frá þeim mönnum, m.a. vegna þess, að ákveðið var að ná því takmarki, sem hér á að nást.

Hæstv. ráðh. minntist á, að það væri allt annað að þjóna þessum prestaköllum nú í Strandasýslu, m.a. vegna þess, að nú væri búið að brúa 7 ár, sem ekki hefði verið áður. Ég vil leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á, að hér er enn þá gert ráð fyrir, að 62 km séu á einn kirkjustað, 60 km á annan, 26 á þann þriðja og 46 km á þann fjórða. Þetta sýnir, hversu fjarstætt það er að ætla sér að draga prestana saman eins og lagt er til í frv. Úr því að þetta sjónarmið ríkir hjá hæstv. ráðh., að það sé hægt að fækka þannig prestum, og er byggt á því, að það sé fyrsta sporið í þá átt að fækka embættismönnum í landinu yfirleitt, hvers vegna hefur þá ekki hæstv. ráðh. dottið í hug að fækka prófessorum við háskólann? Ég hef fengið það upplýst nýlega af manni, sem er kunnugur þeim málum, að guðfræðideild Háskóla Íslands sé komin upp í sama hámark og guðfræðideildin við háskólann í Kaupmannahöfn. það eru komnir fimm prófessorar í guðfræðideild, en mér er sagt, að það mundi vera nóg í sambandi við kennsluna að hafa aðeins þrjá. Það er líka kunnugt, að þegar hér var til umr. fyrir nokkru frv. um að fjölga um einn mann í háskólanum, þá var það flokkur hæstv. ráðh., sem barðist fyrir því, að hann yrði ekki settur inn í háskólann. Nú skal ég ekki bera ábyrgð á því, að það sé rétt, að hér sé sama hámark eins og í Kaupmannahöfn, en ég verð að segja, að ef það er tveimur mönnum of mikið við guðfræðideildina, þá er miklu nær að taka upp baráttu fyrir því að fækka þar heldur en að fækka prestum í hinum dreifðu byggðum landsins. Hins vegar sagði þessi sami maður mér, að þetta, að hafa svo marga guðfræðiprófessora við háskólann, byggðist á því, að þessir menn gætu unnið að vísindastörfum og skapað andleg verðmæti, en þyrftu ekki að slita sér út á að vinna 30–36 klukkustundir á viku við að kenna, og þess vegna væri hann samþykkur því að halda þessari tölu. Hið sama er það, sem liggur til grundvallar hjá mér, þegar ég er að krefjast þess að halda prestunum, — það eru hin andlegu verðmæti, sem þessir menn skapa, en ekki að meta, hvað margar klst. þurfi til að semja ræður, því ef aðeins á að nota þann mælikvarða, þá er eins hægt að hafa útvarpspresta og láta þá svo þylja yfir fólkinu hálfan eða allan sólarhringinn. Það virðist einmitt vaka fyrir hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. N-M. að meta þetta ekki á annan hátt en þann, hvað þessir menn þurfa langan tíma til að jarða, gifta, skíra, flytja ræður o.s.frv. En ég vil spyrja: Er þessum hv. þm. ekki kunnugt um það, að stundum koma þau atvik fyrir í voru þjóðlífi, að ýmsir menn hafa hrópað og sagt: „Taktu ekki aleiguna mína.“ Þegar því kalli hefur ekki verið sinnt, hvert hefur þetta fólk þá snúið sér? Fyrst og fremst til hinna andlegu leiðtoga, og hafi það brugðizt, þá hefur það skeð, að fleiri sjúklingar hafa verið á Kleppi á eftir, — ef það hefur brugðizt, að það fengi þá huggun, sem það þurfti að fá, og ég hygg, að þessi tilfelli séu allt of mörg. Þetta virðist hvorki hafa vakað fyrir hæstv. ráðh., hv. 1. þm. N-M. né n. Þeim virðist sama um það fólk, sem tekur upp baráttuna í dreifbýlinu, og hvernig það stendur í lífsbaráttunni. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa gert sér ljóst, að það er ekki einasta verið að fækka hér um sjö presta í dreifbýlinu. Á sama tíma er verið að fækka kennurum, því að það er sýnilegt, að ekki á að halda kennurum á þeim stöðum, þar. sem' sett eru kennsluprestaköll. Það er á tvo vegu níðzt á þessu fólki. Hæstv. ráðh. segir, að prestastéttin liti á þetta sem hreint stéttarmál. Ég þykist hafa fært rök fyrir því, að þannig má ekki líta á málið, heldur verður að líta á málið mest út frá því, hvað er verið að ganga langt á rétt þeirra manna, sem hér er verið að taka prestana af, og það á að vera þyngst á vogarskálinni, þegar gengið er til atkv. um þetta mál.

Ég vil svo aðeins víkja nokkrum orðum að því, sem kom fram hjá hv. 1. þm. N-M. Hann sagðist líta svo á, að það væri nauðsynlegt að ætla embættismönnum í landinu nægilegt starfssvið og næga vinnu, greiða þeim svo sæmileg laun, og þetta væri meginástæðan fyrir hans till. í þessu máli, prestarnir hefðu ekki nægilegt starfssvið, þeir hefðu litið sem ekkert að gera, og þess vegna væri nauðsynlegt að stækka þeirra verksvið, svo að þeir hefðu nægilega langan vinnutíma fyrir þau laun, sem þeir taka. Ég hefði óskað eftir því, að hv. þm. byrjaði annars staðar á þessari lífsspeki sinni. Ég get sagt honum, að í fjöldamörg ár hefur búnaðarmálastjóri haft þan laun, að hann hefði átt að geta svarað fullum vinnutíma fyrir sín laun. En það er líka kunnugt, að hann hefur allan tímann haft ýmislegt annað og orðið að gera það í vinnutímanum. Hann hefur setið á Alþ., setið í mþn. og tekið laun fyrir, og þetta hefur hann ekki allt unnið á næturnar, og mér dettur ekki í hug að halda, að búnaðarmálastjóri, hver sem hann hefur verið, hafi ekki rækt þau störf, en ef hann hefur rækt sín störf sem búnaðarmálastjóri, þá er áreiðanlegt, að þau störf hafa verið of lítil og sá starfstími, sem er ætlazt til að hann hafi fyrir þau laun, því að hann getur verið í störfum alls staðar annars staðar en í Búnaðarfélaginu. Mér er kunnugt um, að hver sá, sem ætlar sér að rækja sín störf á Alþ., honum duga ekki 1–2 tímar. Ég veit ekki betur en hér verði menn að vinna stöðuga vinnu frá kl. 9 á morgnana og þangað til kl. 12 á næturnar, og hvaða tími er þá eftir fyrir búnaðarmálastjóra? Ef á að fækka prestum vegna þess, að þeir hafi ekki nægan starfstíma og starfssvið til þess að vinna fyrir þeim launum, sem þeir fá hjá ríkissjóði, þá á áreiðanlega að byrja annars staðar. Þá er ekki hægt að sameina störf búnaðarmálastjóra og störf í ríkisskattanefnd, í milliþn., alþingisstörf o.fl., o.fl. Hv. þm. sagði einnig, að embættiskostnaður, sem nú er látinn í té, væri ekki annað en launauppbætur. Ég er þess fullviss, að hann hefur ekki hugmynd um, hvað hann er að segja, því að embættiskostnaður, sem ætlaður er til þessara manna, nægir ekki til þess að greiða þann kostnað, hvað þá að það sé launauppbót. Ferðakostnaður, hvort sem presturinn fer með bíl eða mótorbát til þess að skíra, gifta eða jarða eða til að framkvæma önnur embættisverk, nægir ekki til að standa undir þeim kostnaði.

Ég mun láta þetta nægja á þessu stigi, en mun hins vegar ræða hin einstöku atriði frv. við 2. umr., ef málið nokkru sinni kemur til 2. umr., en ég vænti, að hv. menntmn. geri allt, sem hún getur, til að hefta, að það nokkru sinni komi til 2. umr., því að ég er ekki sammála hæstv. ráðh. um það, að betra sé, að þetta frv. verði samþ., en að hin gildandi l. komi í framkvæmd. Hann getur að vísu breytt l. og fækkað prestum, en þá mun rísa upp sú alda í landinu, að honum verði ekki stætt á því að láta l. koma til framkvæmda, og yrði þá að gefa út brbl. um að fresta framkvæmd l. Ég er því ekki sammála um, að betra sé að láta þetta frv. ná fram að ganga heldur en að láta það falla.