06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

109. mál, skipun prestakalla

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Það var aðallega út af ræðu hv. 1. þm. N-M., sem ég óska að segja nokkur orð. Honum virðist ekki hafa fallið þau ummæli, sem ég lét falla í minni ræðu, þar sem ég lét í ljós, að á þeim stöðum, þar sem ég væri ókunnugur, tryði ég niðurstöðum milliþn. betur en honum og mundi því heldur greiða atkv. með till. n. en hans till. Þetta virðist honum ekki hafa fallið mjög vel og vítti mig fyrir það að vera ókunnugur landsþáttum og taldi, að ég hefði ekki leyfi til þess að vera ókunnugur neins staðar á landinu; þar sem ég ætti sæti í samgmn., þá bæri mér að þekkja alla staði á landinu vegna þess starfs, sem þar fer fram, þegar verið er að taka vegi í þjóðvegatölu. Hann taldi, að það yrði að kenna mér að þekkja á kortið, til þess að ég væri ekki alveg ókunnugur í landinu. Nú verð ég að segja það, að í sambandi við starf mitt í samgmn. hef ég oft litið á kortið til þess að athuga ýmislegt um vegi, hvar þeir eigi að liggja og hverja eigi að taka upp í þjóðvegatölu. En ég verð að játa, að það hefur farið fram hjá mér að athuga, hvar hver einasta kirkja í landinu er og hvernig hverri sókn er skipað. En þótt hann léti þau ummæli falla, að ég hafi brugðizt þingmannsskyldu minni með því að athuga þetta ekki, þá verður hann að minnast þess, að ég er ekki eins gamall á þingi og æfður í því að halda þingræður og þessi hv. þm., og verður að hafa það.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að ég hefði ekki farið rétt með það, sem ég sagði um skiptingu prestakalla í Rangárvallasýslu. En þetta er rangt hjá hv. þm. Hv. þm. leggur til, að Kálfholtssókn verði lögð undir prestinn í Fellsmúla, og það getur verið, að þarna hafi n. ekki farið rétt að. En ég vil spyrja: Hvað vakir fyrir hv. þm., þegar hann leggur til, að heilt prestakall verði lagt niður? Þarna sat presturinn í Kálfholti, þar til hann fyrir nokkrum árum óskaði eftir að flytja út í Þykkvabæ, þar sem mjög er þéttbýlt, og nú er miðstöð þess prestakalls þar. Þarna er að dómi hv. þm. einn prestur, sem er hægt að láta hverfa. Þarna kemur þá sparnaðarandinn upp hjá honum. — En í Kirkjubæjarklaustri settist presturinn að í gömlum bústað, sem byggður var í túninu og nokkur graslóð höfð umhverfis. Hv. þm. sagði, að ef prestur færi að Prestsbakka, þá þyrfti að byggja þar upp fyrir um ½ millj. kr. Ég skal ekki rengja hann um, að þetta kosti mikið. En hann minnist ekki á bústaðinn, sem búið er að byggja yfir prestinn á Kirkjubæjarklaustri. Þarna hefði hann átt að minnast á mismuninn, um 300 þús. kr., en ekki ½ millj. kr., því að eignin er til. Þar að auki er það ósk prestsins að sitja á Prestsbakka, en ekki á Kirkjubæjarklaustri, þar sem hann hefur litla möguleika til búskapar.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr., en benda á þá staðreynd, að á lestrarsal liggur frammi áskorun undirrituð af biskupi Íslands, próföstum og 85 prestum um það, að málið verði afgreitt nú á þessu þingi og á þann hátt, sem það nú liggur hér fyrir. Þeir vilja heldur, að þetta mál verði samþ. eins og það nú kemur frá milliþn., en að það verði drepið. Þeir gefa í skyn, að þeir séu ekki að öllu leyti ánægðir með frv., en til þess að ná frið um málið vilja þeir heldur slaka til á þessu en láta lögin frá þessu ári taka gildi um næstu áramót. Þeir hafa ekkert á móti því, að prestum sé fjölgað í sveitum, en vilja heldur, að málið verði afgreitt eins og það er, en að það dagi uppi.