17.12.1951
Efri deild: 45. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

109. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég á hér nokkrar brtt., sem ég ætla að gera grein fyrir með nokkrum orðum. Nokkrar þeirra byggjast á bréfi frá séra Jakob Einarssyni á Hofi í Vopnafirði, sem mér hefur borizt og ég vil leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Norður-Múlaprófastsdæmi, p. t. Reykjavík, 10. des. 1951.

Mér hefur borizt til eyrna, að allmiklar breytingar séu áætlaðar á frv. prestakallanefndar, hvað snertir Norður-Múlaprófastsdæmi. Er ætlazt til samkvæmt þeim breytingum, að Möðrudalssókn verði lögð til Hofs, Hjaltastaðarsókn undir Desjarmýri, Eiðar undir Vallanes og Kirkjubær verði prestssetur, en ekki Hofteigur.

Hér er með öðrum orðum öllu umturnað. Skv. frv. áttu Eiðar, Hjaltastaður og Kirkjubær að vera prestakall sér með prestssetri á Eiðum og Hofteigs-, Eiríksstaða-, Möðrudals- og Sleðbrjótssóknir prestakall sér með prestssetri í Hofteigi. Héraðsfundur Norður-Múlaprófastsdæmis í sumar var þessari skipan samþykkur, nema hann lagði til, að Möðrudalur yrði lagður til Skútustaða, en að öðru leyti haldist sú skipan, er prestakallanefnd hafði lagt til.

Ég leyfi mér að benda hv. Ed. á till. og grg. héraðsfundarins. Þær getið þér séð, hvort sem þér viljið heldur leita til biskupsskrifstofunnar eða til 2. þm. Norðmýlinga, er ég afhenti afrit af tillögunum, ásamt greinargerðinni, áður en hann fór á þing í haust.

Mig furðar satt að segja á breytingum þessum, einkum að því er snertir ráðstöfun Möðrudals. Milli Hofs og Möðrudals er langur fjallvegur fær bílum að vísu mánuðina júlí–sept., en þó ekki ævinlega þann tíma, en líka stundum einhverjum vikum lengur. Aðra tíma er hann feikna snjósæll og engar vörður á honum. Aftur er, hvort sem Möðrudalur verður í sambandi við Hofteig eða Skútustaði, ágætlega varðað með símalínunni, og síðan brúin kom á Jökulsá hjá Grímsstöðum, er langskást að þjóna þessum stað frá Skútustöðum, því að sú leið er yfirleitt snjóminnst.

Hvað snertir Hjaltastað stendur líkt á. Þar er vondur fjallgarður milli Desjarmýrar og Hjaltastaðar. Það kvað að vísu koma vegur í framtíðinni yfir hann, en hann verður ekki fær bílum nema lítinn tíma þrjá sumarmánuðina, eins og vegurinn milli Hofs og Möðrudals. En það er ekki um sumarmánuðina, sem vandinn er að komast um veginn á hestum okkar eða bilum, eða hvernig sem er, það eru vor-, vetrar- og haustmánuðirnir, og þá 9 mánuði þurfum við ekki síður að fara nauðsynlegar embættisferðir en hina þrjá. Þykir mér undarlegt, að yfir höfuð skuli vera verið að nefna bílvegi yfir fjallgarðana milli Desjarmýrar og Hjaltastaðar eða Hofs og Möðrudals í þessu sambandi. Lægi miklu nær, ef ekki á að halda við þá skipun, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að leggja Hjaltastað til Vallaness, þótt það sé langur vegur, heldur en til Desjarmýrar.

Annars get ég ekki annað séð en að skipun sú, sem prestakallanefnd leggur til, sé hin bezta. Og verði Hofteigur prestssetur áfram, eins og þar er ætlazt til, er auðvitað engin brýn nauðsyn á að leggja Möðrudal til Skútustaða. Það er bara langléttast að þjóna honum þaðan, eins og sjá má af greinargerðinni, er fylgdi tillögum héraðsfundarins.

1. þm. Norðmýlinga, Páll Zóphóníasson, sagði við mig áðan, er tilrætt varð milli okkar um þetta í síma, að það, sem einkum réði því, að hann legði með Kirkjubæ sem prestssetri áfram, væri það, að þá þyrfti ekki að byggja nema á einum stað, en annars á tveim (Hofteigi og Eiðum). En fyrir mér vakir aftur það eitt, hversu þessum málum má bezt skipa, þannig að sem mestu gagni megi koma fyrir kristilegt starf í viðkomandi prestaköllum í framtíðinni, og þá má ekki horfa um of í kostnaðinn. Ég er fæddur og uppalinn á Kirkjubæ og vildi sannarlega geta lagt til, að hann yrði áfram prestssetrið, eins og verið hefur. En mér dylst ekki, hversu illa hann er nú orðinn í sveit settur sem prestssetur. Og ég þekki of vel landslagið í Tungu, til þess að mér dyljist það, hversu oft og lengi vegir þar hljóta að verða ófærir bílum fyrir snjó. Annars væri svo sem mögulegt, ef menn endilega vilja hafa Kirkjubæ fyrir prestssetur áfram, að breyta um og setja Kirkjubæ í stað Eiða inn í frumvarpið. Það hljóta bara allir að sjá, sem vilja líta óvilhallt á þetta mál, hversu miklu skynsamlegra er að hafa prestssetrið á Eiðum frá sjónarmiði prestsþjónustunnar (sbr. greinargerð héraðsfundarins).

Ég vil svo biðja hv. Ed. að endurskoða afstöðu sína til þessa máls til 3. umr. Greinargerðin með till. héraðsfundarins ásamt tillögunum sjálfum var samin af mér og borin undir séra Sigurjón á Kirkjubæ, áður en hún var lögð fyrir héraðsfundinn. Var hann í alla staði samþykkur hvoru tveggja. Vil ég ætla, að aðrir séu ekki kunnugri staðháttum þar eystra, a. m. k. á Úthéraði, en við, hvort sem er sumar eða vetur.

Virðingarfyllst,

Jakob Einarsson.“

Ég hef þá lesið þetta bréf frá þessum merka kennimanni, sem mun vera eins kunnugur á þessum slóðum og hv. 1. þm. N-M., og ég hef samið mínar brtt. um prestakallaskipun eftir þeim till., sem hann færir fram, miðað við þær breytingar, sem urðu á frv. við 2. umr.

Það má telja vitanlegt, að ekki munu allir geta fallizt á þessar till. En hér eru bornar fram till. einhvers merkasta kennimanns kirkjunnar, og ég vona, að hv. þm. geti fallizt á þær, og ef ekki, þá á varatill., sem ég hef borið fram, ef svo skyldi fara, að menn gætu ekki fallizt á hinar.

Þá hef ég einnig borið fram brtt. um, að prestssetrið Tjörn á Vatnsnesi verði látið vera áfram, en útlit er fyrir, að það eigi að leggja niður eftir frv., eins og það er eftir 2. umr. Þetta er gamalt prestssetur, og sóknarfólkinu er umhugað um, að það verði látið vera óbreytt áfram. Og miðað við prestssetrafjölda í öðrum sveitum, þá er ekki ástæða til að leggja það niður. Mér fannst eðlilegt, að hv. deild fengi að endurskoða hug sinn um þetta.

Þá mun ég, með leyfi hæstv. forseta, bera fram skriflega brtt., sem hljóðar svo:

„Á eftir 6. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: Biskup ræður einn prest, aðstoðarprest, til þess að gegna þjónustu í forföllum sóknarprests um stundarsakir og til annarra starfa í þjónustu kirkjunnar, þar sem hann telur mesta þörf hverju sinni. Prestur þessi skal hafa sömu laun og sóknarprestar, en ferðakostnaður greiðist honum samkvæmt reikningi, er kirkjustjórn úrskurðar.“

Þessi till. er samhljóða þeirri till., sem var felld við 2. umr., að öðru leyti en því, að hér er um að ræða einu prest í stað tveggja, sem þar voru. Ég vonast til, að hv. d. falli þessi betur, og þar sem þarna er um tilraun að ræða, er bezt, að þar sé ekki nema einn. Þessi till. er þess vegna allt önnur en sú, sem var felld.

Ég skal geta þess, að við 2. umr. kom fram mjög skynsamleg till. frá hv. þm. Barð. um að fresta efnismeðferð þessa máls að sinni, en láta þau lög, sem samþ. voru á síðasta þingi, ekki koma til framkvæmda. — Það eru nú horfur á því, að þetta þing muni standa lengur en bæði ég og aðrir vonuðumst til, þegar þetta mál var tekið fyrir fyrst, og í öðru lagi eru margir af kirkjunnar mönnum andvígir þessari afgreiðslu málsins. Enn fremur tel ég ósennilegt, að það hljóti ekki einhverjar breytingar í Nd. Ég tel þess vegna ekki séð enn þá, hvernig því reiðir af. Ég tel þess vegna, þar sem horfur eru á, að þetta þing standi lengur en ráð var fyrir gert, ekki rétt að fresta afgreiðslu málsins að sinni, en leyfi mér að leggja fyrir forseta þessa skriflegu brtt. mína.