17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

109. mál, skipun prestakalla

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Það er aðeins stutt athugasemd við það, sem hv. 1. þm. N-M. sagði. Hann sagði, að af því að prestur væri settur á Selfoss, væri möguleiki til að fækka í sveitunum. Ég var búinn að lýsa því yfir við 2. umr., að ég væri ekki á móti því, að prestur væri á Selfossi, en vildi ekki, að það væri gert á kostnað sveitanna. Ég mun fylgja minni brtt. fast fram og vil ekki viðurkenna þetta sjónarmið. Það er allt í lagi að setja prest á Selfoss, en það má ekki taka hann úr fjölbýlli sveit. Ég veit líka viðvíkjandi niðurfellingu Stóra-Núps, að n. er ekki óskipt um það atriði, og a. m. k. tveir nefndarmanna eru alveg á móti því. — En svo hjó ég eftir öðru hjá hv. þm. Hann sagði, að ekki væri leggjandi mikið upp úr bréfi sóknarprestsins á Skarði. Ég er ekki alveg viss um, hvaða atriði hann nefndi, en tók svo eftir, að það væru ummæli sóknarprestsins um Eirík Einarsson og að hann hefði verið lengi á þingi eftir þetta. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Það, sem presturinn á við, er sú breyting, er Eiríkur kom fram á síðasta þingi, en ekki fyrir tíu árum. — Ég vildi aðeins leiðrétta þetta.