17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

109. mál, skipun prestakalla

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vildi leiðrétta það, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að ég hafi flutt þessa brtt. samkvæmt tilmælum kennara; það er ekki rétt. Viðræðurnar milli mín og fulltrúa kennara fóru fram eftir að till. mín kom fram. — Hv. 6. landsk. fór náið inn á þau dæmi, sem hæstv. ráðh. nefndi. Það er nú svona og svona, þegar menn grípa til þess í þessum umr. að slá á léttari strengi til að dreifa huganum frá alvarlegri atriðum. Í þessu tilfelli er það aðalatriðið, hvort á að hverfa frá kröfum fræðslulaganna eða starfa áfram eftir þeim með því að samþ. þessa till.

Þá vil ég víkja að tveimur öðrum till. Í fyrsta lagi till. hæstv. dómsmrh. um skipun mála í N.- Múlaprófastsdæmi. Ég er nokkuð kunnugur staðháttum þarna. Get ég mælt með samþykkt varatillögunnar, en hún fjallar aðeins um breytta sóknaskipun frá því, sem ákveðið var við 2. umr. Hins vegar var ég og er andvígur því að hafa prest í Hofteigi, svo sem gert er ráð fyrir í aðaltillögunni. Þar hefur nú verið prestslaust síðan 1924, nærfellt í 30 ár. — Hitt er svo brtt. um að taka upp einn farandprest í staðinn fyrir tvo, sem felldir voru við 2. umr. Ég vil vænta þess, að deildin athugi vel sína afstöðu, áður en hún fer inn á þetta. Ég lít svo á, að með þessu sé verið að stofna nýtt, óþarft embætti. Það er létt að leiða að því sterk rök, að þetta er vafasöm nauðsyn. Stundum er sagt, að farandprestunum sé ætlað að hlaupa í skarðið, ef sóknarprestur forfallast. Vitað er þó, að sjaldan hefur komið til verulegra vandræða, þó að prestur þurfi að víkja sér frá. Og mörg prestaköll standa óveitt árum saman, án þess að verulegar kvartanir komi fram. — Þá er sagt, að þeir eigi að hafa eftirlit með störfum sóknarpresta og boða orðið hér og þar undir sérstökum kringumstæðum. Um þetta vildi ég segja, að nú er svo hagað kirkjumálum hér, að biskup á að hafa eftirlit og fara visitasíuferðir og enn fremur prófastar, hver í sínu umdæmi. Í þriðja lagi er það á allra vitorði, að fjöldi presta hefur ekki meira að gera en svo, að þeir starfa við margs konar kennslu, skrifstofustörf, þ. á m. í bönkum og sparisjóðum, endurskoðun reikninga o. m. fl., sem ekki kemur embætti þeirra við. Sýnist nær, að þeir legðu eitthvað af þessu veraldarvafstri til hliðar og sýndu því meiri alúð við boðun orðsins, heldur en nú að stofna ný prestsembætti, svo sem fyrirhugað er með brtt. um farandprestinn. — Get ég svo látið þetta nægja að sinni.