19.10.1951
Efri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2386)

66. mál, byggingu nokkurra raforkuveitna

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég get ekki verið alveg sammála öllu, er hv. þm. Barð. sagði, vegna þess að eins og ég hef leitazt við að sýna fram á, hefur þetta frv. sérstöðu, og er hér einungis um að ræða ráðstöfun til að framkvæma l., sem sett voru fyrir 6 árum. Það er aðeins þetta eina atriði eftir, til að búið sé að framkvæma þessi l. Ég veit ekki, hvort ástæða er til að taka raforkumálin í heild til meðferðar. Hér er um að ræða fyrirheit og hvort Alþ. ætlar að standa við það, sem það hefur lofað.

Ég ætla ekki að gera það að kappsmáli, í hvora n. málið fer, því að þótt ágætir menn séu í fjhn., eru þeir líka ágætir í iðnn. A. m. k. er hv. þm. Barð. í báðum n. og hefur sömu aðstöðu til að fjalla um málið, og kann svo að vera um fleiri. Ef rétt þykir, get ég tekið mína upphaflegu till. aftur og fallizt á, að þetta mál fari til iðnn.