14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2402)

112. mál, öryrkjahæli

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af ummælum hæstv. dómsmrh. í sambandi við Klepp. Það virðist sem hann hafi skilið orð mín þannig, að ég væri á einhvern hátt að sneiða að dr. Helga Tómassyni, forstöðumanni Klepps. Það var ekki til þess ætlazt, að orð mín skildust þannig. Þjóðinni er hins vegar kunnugt um það. að í upphafi var Kleppur sérstaklega byggður til þess að taka á móti þeim sjúklingum, sem hér um ræðir og valdið höfðu erfiðleikum hjá sveitarfélögunum. Síðar tók dr. Helgi Tómasson, sem hefur mikla sérþekkingu í taugalækningum, við forstöðu Klepps. Er hann þeirrar skoðunar, eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að það beri að leggja áherzlu á að taka það fólk, sem sterkar vonir væru til, að hægt væri að bjarga sem fyrst. Fyrir það hefur hinum verið þokað burt. Ég fyrir mitt leyti hygg. að slíkt hæli eigi að vera aðskilið frá Kleppi, en ætti ekki að byggjast í sambandi við hann. Dr. Helgi Tómasson hefur unnið þarna mikilsvert og stórt starf, en hins vegar er því ekki að neita, að vegna þessarar starfsemi hefur ekki verið hægt að láta Klepp inna af hendi það hlutverk, sem honum var upphaflega ætlað. Það getur enginn sagt um það, hvort hægt er að bjarga lífi og framtíð þeirra manna, sem brjálast skyndilega, ef þeir komast strax undir læknishendur. Það er því sannarlega aðkallandi að ætla þeim mönnum rúm á hæli jafnt og öðrum sjúklingum. Það er einmitt vegna þessa sjónarmiðs, sem landlæknir hefur bent á, að það væri kannske heppileg lausn þessa máls að rýma Kristneshæli og koma sjúklingum þaðan að Vífilsstöðum fyrir minni kostnað. — Hv. 4. þm. Reykv. spurði, hver ætti að gera þetta. Hann vísaði m. a. í grg. og ummæli rn. í sambandi við málið og sagði, að það, sem hæstv. dómsmrh. hafi undirritað, væri í raun og veru sín skoðun. Ég vil því spyrja: Eru þá engar líkur til þess, að leysa megi þennan erfiðleika á þann hátt, að ríkissjóður leggi strax fram sína 1½ millj. kr., sem hann virðist tilbúinn að leggja fram nú, og sveitarfélögin láni þá ríkissjóði 3½ millj. kr.? Væru þá komnar 5 millj. kr., og mætti þá halda áfram að byggja við Klepp og reisa fávitahæli. Gætu sveitarfélögin sjálfsagt fengið 6% vexti af lánunum, eins og bændur eiga að fá nú, þegar þeir lána ríkissjóði til þess að skera niður féð. Þetta væri kannske lausnin á málinu, ef þetta fé er nægilegt til þess. — Ég er reiðubúinn að ræða þetta í n. og við hv. þm. S-Þ. og vita, hvort hann telji, að sveitarfélögin muni vilja snúa sinni lántöku upp í þá aðferð að lána þetta fé og taka á sig þá skuldbindingu að innheimta það. Óneitanlega yrði allur rekstur hælisins miklu ódýrari, ef það væri rekið í sambandi við hæli, sem fyrir eru. Mætti þá nota sama starfsfólk og sömu tæki, svo sem þvottahús og annað, sem annars þyrfti að byggja í sambandi við rekstur hælisins.