27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2424)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Frsm., (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég minnist þess, að við 1. umr. þessa máls var töluvert um það rætt. Þá hreyfði hv. þm. Borgf. aths. eða fyrirspurn um, hvert væri valdsvið þeirrar yfirnefndar, sem gert er ráð fyrir að verði skipuð af fjmrh. samkv. 3. gr. frv. til þess að endurskoða fasteignamatið. Hann ræddi nokkuð um valdsvið hennar. Þetta hefur verið athugað síðan og borið saman við gildandi l. um fasteignamat frá árinu 1945, og það er alveg sams konar orðalag þar um valdsvið n. og er í þessu frv., og ég vænti, að það sé óbreytt frá því, sem var áður í gildi um þetta efni. Í 10. gr. l. frá 1945 segir svo um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta: „Fjármálaráðherra skipar þrjá menn í yfirfasteignamatsnefnd og þrjá til vara.“ og síðan segir: „Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með störfum undirmatsnefnda undir yfirumsjón fjmrh. Hún skal endurskoða og samræma mat allra fasteigna. Ef henni þykir eitthvað óljóst eða rangt, getur hún heimtað nánari skýringar hjá undirmatsn. og eiganda eða notanda fasteignar.“ — Hún á að endurskoða og samræma. Alveg á sama hátt er sagt hér í þessu frv. í 3. gr., að nefndin skuli endurskoða og samræma mat héraðsnefnda. Það er sem sagt engin breyt. ákvörðuð um hennar verksvið eða valdsvið.

Hv. þm. A-Húnv. flytur hér allmargar brtt. og hefur flutt um þær alllanga ræðu. Mér virtist hann hneykslast mjög á því í sinni ræðu, að í 1. gr. frv. er talað um að samræma fasteignamatið þeim verðlagsbreyt. og framkvæmdum, er orðið hafa í landinu frá 1940. En ég vil benda hv. þm. á það, að í 1. gr. l. frá 1945 stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú breytist verðgildi peninganna að verulegu leyti milli þess, að aðalmat fer fram, og má þá með lögum ákveða breyting á matsverði allra fasteigna í landinu í samræmi við það.“ Þarna er sem sagt talað um að breyta matinu í samræmi við verðlagsbreyt., og alveg eins er í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Hv. þm. A-Húnv. talaði um það síðar í sinni ræðu, að það sé hugmyndin að leggja matskostnaðinn á bæjar- og sveitarfélög. Þetta hefur ekki við neitt að styðjast. Fasteignaskatturinn er ekki eign bæjar- og sveitarfélaga, heldur ríkisins. Og það er ekki greitt frá bæjarfélögum. þó að lagt sé fram af fasteignaskattinum til greiðslu á matskostnaðinum, en þá fyrst er fasteignaskatturinn afhentur þeim, þegar það er búið.

Ég þarf ekki að hafa um þetta mörg orð, því að við 1. umr. málsins var rætt ýtarlega um frv., og þá var gerð grein fyrir því, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að skipaðir séu menn til þess að framkvæma endurskoðun fasteignamatsins, alveg með sama hætti og gert er, þegar menn eru valdir í fasteignamatsnefndir þegar aðalmat fer fram, og framkvæmdin virðist sú sama hjá héraðsnefndum og yfirmatsnefnd, að því fráskildu, að hér er ekki gert ráð fyrir, að skoða þurfi allar fasteignir, heldur fara eftir skýrslum, sem til eru um þær, og síðan framkvæma endurskoðun á matinu í samræmi við þær og breytingar, sem orðið hafa og telja má að gefi ástæðu til hækkunar. Með þessu móti verður þetta ódýrara og einfaldara í framkvæmd en aðalmatið. Er starf nefndanna nauðsynlegt vegna þess, að í hverju héraði og innan einstakra sveitarfélaga eru svo mismunandi ástæður, að það er ekkert réttlæti í því að breyta matinu með því að leggja sama hundraðshluta ofan á verð allra fasteigna. En aðalefnið í brtt. hv. þm. A-Húnv. er að ákveða þetta hundraðshlutaálag, og um þetta þarf ekki að ræða, því að það er svo mikil fjarstæða að láta þetta gilda um allt land. Það er vitað, að gangverð fasteigna er sums staðar tvöfalt eða þrefalt fasteignamat. Annars staðar á landinu er það tí- til fimmtánfalt og jafnvel þar yfir. Og að leggja sömu hækkun eða sama álag ofan á þetta allt, er svo mikil fjarstæða, að um það þarf ekki að ræða, og sé ég því ekki ástæðu til að eyða tíma í það.

Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, bendi ég á, að þetta er 2. umr. málsins, og hefur málið dregizt lengur en skyldi, og það er hægt að koma brtt. að við 3. umr. og athugasemdum. Og ég mælist til þess, að þessari umr. verði lokið á þessum fundi, með tilvísun til þess líka, að ekki er ráðgerður fundur á morgun í Nd., heldur í Sþ. Þess vegna legg ég áherzlu á það, að umr. þessari verði lokið nú. Það er hægt fyrir menn að koma aths. og breyt. að við 3. umr., þó að þessari umr. sé lokið nú.