17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2567)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Áður en kemur til að greiða atkv. um þetta mál, sem hefur orðið hér deilumál milli hv. þm. Vestm. og hæstv. ráðh., langar mig til að fá nokkrar upplýsingar, sem ég geri ráð fyrir, að þeir geti veitt. Það blandast engum hugur um, að læknadeild háskólans er stofnun til að undirbúa lækna undir starf sitt í landinu. Nú hélt ég, að kennsla í meðferð röntgenverkfæra og geislalækningum og yfirleitt það, sem hér er um að ræða, sem er mikilsvert fyrir lækna, væri ekki einhlítt, heldur þyrftu þeir að hafa aðstöðu til að geta notfært sér þessa þekkingu í störfum sínum á ýmsum stöðum, þar sem þeir eru. Nú langar mig til að vita, hvað eru margir læknar, sem hafa aðstöðu til að nota sér þessa fræðslu eftir á. Hafa héraðslæknarnir röntgentæki, og geta þeir gert geislalækningar? Þetta þarf ég að vita, áður en ég greiði atkv., því að eftir því fer að nokkru, hvernig atkv. mitt fellur. Ef læknarnir hafa þessi tæki um landið þvert og endilangt og geta framkvæmt slíkar rannsóknir og lækningar, tel ég sjálfsagt að veita þeim þessa kunnáttu. En ef þeir búa við þá aðstöðu að geta ekki annað en sent sjúklingana frá sér til Akureyrar eða Reykjavíkur, þar sem tækin eru, er vafasamt, hvort þeir eigi að fá þessa fræðslu að sinni, fyrr en þeir geta hagnýtt hana. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. hafi athugað þessa hlið málsins og hv. þm. Vestm., sem álítur hér um að ræða eins konar allsherjarbót á krabbameininu. (Rödd: Hann á ekki gott með að svara hér eftir.) Hann þarf ekki annað en nefna tvær tölur, hve margir hafa tækin og hve margir ekki.