12.10.1951
Neðri deild: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

15. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. flm. þessa frv. gerði það að till. sinni í ræðulok, að frv. yrði að lokinni umr. vísað til fjhn. Þar sem ég á nú sæti í þeirri nefnd og það liggur því fyrir mér að athuga þetta frv. nánar, vildi ég leyfa mér að leita eftir frekari skýringum á nokkrum atriðum þess. Það fylgir frv. að vísu nokkuð skýr greinargerð, og auk þess hefur nú hv. flm. þess gefið nokkrar frekari skýringar á því í ræðu sinni og því sérstaklega, hvernig það mundi verka í framkvæmdinni. Ég hef þó ekki fengið upplýst öll þau atriði, er ég tel mig þurfa, áður en málið kemur fyrir nefndina, og því langar mig til að leggja spurningar fyrir hv. flm.

Það er þá í fyrsta lagi: Hefur hv. flm. hugsað sér, að gerðar yrðu breytingar á reglum um útsvarsálagningu á hjón, um leið og frv. þetta yrði samþ.? Mér skildist, að í þeim talnadæmum, sem hann kom með áðan, tæki hann bæði útsvars- og skattaálagningu. Hins vegar tekur þetta frv. aðeins til álagningar ríkisskatta, og það væri fróðlegt að heyra álit hv. flm. um það, hvernig hann ætlast til, að tryggt verði, að þessi skipan verði einnig höfð við útsvarsálagningu á hjón. Eins og við vitum, er nú útsvarsálagning í höndum bæjar- og sveitarstjórna. — Um þetta óska ég sem sagt að fá upplýsingar hjá hv. flm.

Önnur spurning mín er þessi: Er rétt skilið hjá mér, að ákvæði þessa frv. um sérsköttun hjóna gildi aðeins, þegar bæði eða annað hjóna vinna utan heimilis? Ég hef skilið þetta atriði þannig, bæði í greinargerð frv. og ræðu hv. flm., og mig langar að vita, hvort þessi skilningur minn er réttur, hvort ákvæðin gildi aðeins þegar annað eða bæði hjónin vinna utan heimilis, en ekki, þegar hvorugt þeirra vinnur utan heimilis.

Í þriðja lagi vildi ég spyrja hv. flm.: Síðasta málsgr. 1. gr. frv. hljóðar svo: „Tekjur, sem annað hjóna aflar með vinnu hjá hinu eða í fyrirtæki, sem það á eða er meðeigandi að, skulu þó ekki taldar sértekjur í þessu sambandi.“ — Ja-há! Samkvæmt orðanna hljóðan liggur næst að skilja þetta svo, að þetta eigi við þegar fjárhagur hjóna er sundurskilinn og fyrirtækin séreign annars aðila hjónabandsins. Eða er meiningin hin, að málsgreinin gildi um þau fyrirtæki, sem eru sameign hjónanna? Þetta þyrfti að orða betur, svo að það kæmi skýrt í ljós, við hvað er átt.

Hv. flm. segir í greinargerð, og það kom líka fram í ræðu hans, að með núgildandi fyrirkomulagi í þessum málum sé konum, sem vinna utan heimilis, sýnt sérstakt ranglæti. Sumir túlka líka þetta sérsköttunarmál sem kvenréttindamál og með núgildandi fyrirkomulagi í þessu efni sé beinlínis verið að ganga á rétt kvenna. Oft heyrir maður talað um það, að tekjur konunnar lendi í miklu hærri skattstiga, vegna þess að þeim sé bætt ofan á tekjur eiginmannsins. Þetta sjónarmið er auðvitað ekki rétt. Það mætti alveg eins segja, að tekjur konunnar gengju á undan og tekjum eiginmannsins væri bætt ofan á hennar tekjur, því væru það hans tekjur, sem lentu í mun hærri skattstiga en ella. En hvorugt er að sjálfsögðu rétt. Tekjur, sem hjónin afla, eru sameign þeirra. Því er þetta fyrirkomulag ekki frekar ranglæti í garð konunnar en eiginmannsins.

Hv. 3. landsk. kom með ýmis töludæmi máli sínu til stuðnings, ég held ein sex. Nú er hægt að reikna út á ýmsa vegu, á hvern hátt þetta frv. mundi hafa áhrif á skattálagninguna, ef að lögum yrði, og ég hef sett hér niður á blað nokkur dæmi, er miða að því að sýna, hver áhrifin hefðu orðið, ef frv. hefði verið orðið að l. áður en skattur var lagður á árið 1951. Ég skal þó viðurkenna, að ég er ekki þaulkunnugur niðurjöfnunarreglum hér í Reykjavík, en ég vona þó, að tölur, sem ég tek, séu ekki langt frá lagi. Í tveimur fyrstu dæmunum er reiknað bæði með sköttum og útsvörum, en aðeins með ríkissköttum í þeim síðustu.

Til eru hér í Reykjavík tveir ríkisstarfsmenn. Þessir tveir ríkisstarfsmenn eru hjón, og vinna þau við sitt ríkisfyrirtækið hvort og hafa sömu laun. Ég sé, með hliðsjón af skattskrá Reykjavíkur, að þessi hjón hafa afgangs af launum sinum árið 1950 sér og sínum til framfærslu eftir að hafa greitt skatta og útsvör 50 þús. kr. Þetta er raunverulegt dæmi. Svo hugsa ég mér dæmi um tvo aðra ríkisstarfsmenn, báða kvænta, en konur þeirra gegna ekki störfum utan heimilis. Þessir starfsmenn fá hvor um sig jafnhá laun og hvort embættishjónanna. Samkvæmt gildandi reglum mundu þessir menn hafa eftir af launum sínum árið 1950 eftir að hafa greitt skatta og útsvör rúml. 30 þús. kr. hvor. Í hvorugu þessara dæma geri ég ráð fyrir ómagaframfærslu. Þeir hafa þá báðir til samans á að gizka 60–65 þús. kr. til framfærslu fjölskyldna sinna, og er hugsað, að þeir leggi báðir fram jafnmikla vinnu og hjónin, þar sem launin eru hin sömu. Þá lítur samanburðurinn þannig út: Tvö heimili þessara manna hafa til sinna þarfa 60–65 þús. kr., en hjónin hafa fyrir sig 50 þús. kr. Svo getum við bollalagt um það, hvað af þessu fólki sé bezt sett. Til þess að njóta sömu lífsþæginda, þurfa þessi tvö heimili helmingi meira húsnæði en hjónin, — og sá liður er nú orðinn einna stærstur í heimilishaldi hér í Reykjavík, — helmingi meiri mat og drykk, klæði og skæði, og á ég þá bágt með að skilja. að hjónin séu miklu verr sett með sínar 50 þús. kr. heldur en hin heimilin tvö, sem hafa 60–65 þús. bæði til samans, og það jafnvel þótt embættishjónin þurfi að kosta einhverju til húshjálpar. Þetta getur að sjálfsögðu hver og einn metið á sína vísu.

Nú hef ég sett niður fleiri dæmi um það, hvernig frv. mundi hafa verkað á skattálagningu þessa árs, og nú tek ég aðeins skatta til ríkisins með í reikninginn. Ég hugsa mér verkamann, sem er kvæntur og á tvö börn, og áætla tekjur hans 25 þús. kr., en ég man ekki betur en sú upphæð sé talin meðaltekjur verkamanns í frv., sem nú liggur fyrir þinginu og Alþýðuflokksmenn standa að. Það má því gera ráð fyrir, að þessi maður hafi haft um 24 þús. króna nettótekjur s. l. ár. Þessi maður greiðir í tekjuskatt í ár 319 krónur, en ef hjónin hefðu verið skattlögð samkvæmt þessu frv. hvort í sínu lagi, hefði skattur þeirra samanlagður numið 126 krónum, og hefðu þau þá grætt á sérsköttuninni 193 krónur. — Ég tek annað dæmi, þar sem líka er um að ræða verkamann, kvæntan með 2 börn á framfæri, en geri ráð fyrir því fráviki frá fyrra dæminu, að kona hans vinni sér inn utan heimilis 6 þús. kr. á ári, þannig að nettótekjur hjónanna verða um 30 þús. kr. á ári. Að óbreyttum l. greiða þessi hjón 632 krónur í tekjuskatt, en hefðu orðið að greiða, ef tekjurnar hefðu skipzt jafnt á milli þeirra, eins og frv. kveður á um, 244 krónur, eða þau hefðu grætt á sérsköttuninni 388 krónur. Það má segja, að þetta sé dálítil upphæð, en ég vil þó vekja athygli á því, að þetta er lægri upphæð en því nemur, sem þessi hjón þurfa að greiða til trygginganna og til sjúkrasamlagsins, og sýnir þetta, að tekjuskattur til ríkisins er nokkru léttari en mörg önnur gjöld. — Svo tek ég þriðja dæmið og tek nú einn af þeim stóru. heildsala í Reykjavík, kvæntan en ómagalausan. Þessi heildsali veitir forstöðu fyrirtæki í bænum og vinnur því utan heimilisins, en kona hans vinnur ekki utan þess. Þetta dæmi er raunverulegt. Þessi heildsali hafði á s. l. ári, samkvæmt skattskránni, yfir 100 þús. kr. tekjur, og eftir að hann er búinn að greiða af þessum tekjum skatt til ríkisins og útsvar til Reykjavíkurbæjar, hefur hann þó eftir um 50 þús. krónur fyrir sig og sína. En hefði þetta frv. hv. 3. landsk. verið orðið að l. í vor, hefði þessi heildsali haft af því ágóða, sem numið hefði 7460 krónum, sem sagt grætt 19 sinnum meira en verkamaðurinn í seinna dæminu, sem hafði 24 þús. kr. tekjur og kona hans 6 þús. Þannig er hægt að taka ýmis dæmi um það, hvernig frv. þetta, ef að l. yrði, mundi verka. Það getur vel verið, að það sé búið svo að heildsölum í þessum efnum, að ástæða sé til að bæta þar úr, svo sem hv. 3. landsk. vill með þessu frv. En hér kemur ýmislegt til greina, og það má fá ýmislegt út úr frv.

Hv. flm. sagði, að samþykkt þessa frv. mundi aldrei stefna fjárhag ríkisins í voða, en mér er ljóst, að tekjur af sköttum mundu lækka verulega við samþykkt þess. Nú er það öllum ljóst, að ekki er hægt að lækka ríkisskatta nema lækka útgjöld ríkisins á móti, svo að einhvers staðar verður þá að skera niður fjárveitingar ríkisins, en hvar á það að vera? Nú vil ég vekja athygli á því, að jafnvel þótt hægt yrði að lækka skatta til ríkisins, kæmi það mjög til athugunar, hvort meiri þörf væri á að lækka tekjuskattinn en aðra skatta, hvort ekki væri réttara að lækka þá óbeina skatta, tolla og söluskatt. Það hefur stundum verið talið, og það af Alþýðuflokksmönnum, að óbeinu skattarnir legðust nú með meiri ofurþunga á fólkið í landinu en nokkru sinni fyrr og þar væri söluskatturinn þyngstur, svo að það væri máske rétt, ef til skattalækkunar kæmi á annað borð, að byrja þá á þeim ríkissköttum, sem meiri þýðingu hafa fyrir afkomu fólksins í landinu en tekjuskatturinn.

Ég vænti þess svo, að ég fái svör við þessum þrem fyrirspurnum mínum frá hv. flm., svo að þessi atriði liggi ljósar fyrir mér en nú. Læt ég svo máli mínu lokið að sinni.