14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2702)

90. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, var sent til umsagnar Búnaðarbanka Íslands, þar sem við töldum rétt, að bankinn segði sitt álit um málið, vegna þess að hér er um nýmæli að ræða, þ. e. a. s. nýmæli nú, því að á undanförnum árum hefur ekki verið fært fyrir bændur að veðsetja búfé og vélar, þótt lítils háttar undantekningar hafi verið gerðar með vélar, þar sem bændur hafa getað veðsett þær, ef þeir hafa veðsett fasteign jafnframt. En þannig er ástatt, að margir bændur eiga enga fasteign og ekki aðgang að slíkum lánum, meðan það er bundið þeim skilmálum, að fasteign skuli veðsett líka, en samkvæmt þessu frv. á aðaltryggingin að vera búfé og vélar og tilheyrandi verkfæri. Upphaflega var í frv. til þess ætlazt, að það væri hægt að veðsetja búfé og vélar með veði, sem væri allt að 2/3 af því, sem það er virt til skatts. En í umsögn bankans tekur bankastjórinn það fram, að hann telji, að hámark slíks veðs megi vera 40% af skattmati viðkomandi véla eða búfjár. Þess vegna höfum við flutt brtt. varðandi þetta á þskj. 392.

Það er engum vafa bundið, að ef frv. þetta nær fram að ganga, — sem ég vonast fastlega eftir, — þá mun það bæta mjög fyrir þeim, er hefja búskap, og þeim, sem hafa búið við þær aðstæður að vera alls staðar útilokaðir frá öllum lánum landbúnaðarins, sakir þess að þeir gátu ekkert veðsett, þrátt fyrir það að þeir höfðu allgóðan bústofn. Það ætti líka undir flestum kringumstæðum að vera mjög tryggt að lána bændum út á vélar og búfé, þar sem lán vegna þess er ekki nema 2/5 af því verði, sem það er virt á til skatts. Það er vitað mál, að þótt skattmat á búfé og vélum sé hátt, þá er það verulega undir því verði, sem búfé og vélar hafa gengið á manna á milli undanfarin ár, og ég hygg, að þetta ætti, ef ekki verða því verri óhöpp með búfé, að verða það tryggt, að það verði engu ótryggara en veð í fasteignum. Þetta ákvæði ætti því sizt að verða til hindrunar á framgangi málsins hér á Alþ.

Fjáröflunarleið til veðdeildar bankans hugsum við okkur þannig, að upphaflega leggi ríkissjóður fram 4 milljónir, sem eingöngu séu ætlaðar þessari deild, sem yrði á vissan hátt veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Svo er ætlunin, að ríkið leggi fram árlega nokkurt framlag til þess að auka starfsfé deildarinnar, svo að hún verði starfhæf næstu árin. Þetta er mikið nauðsynjamál, vegna þess að mikil straumhvörf hafa orðið í landbúnaðinum undanfarin ár, þannig löguð straumhvörf, sem við teljum til bóta, að ungt fólk gerist frekar til þess að hefja búskap heldur en fyrir nokkrum árum, og það má sízt verða fyrir því, það fólk, sem ætlar sér að fara út á þá atvinnugrein, að geta ekki fljótlega komið fyrir sig fótunum fjárhagslega og þurfa að hætta við sín áform vegna þess, að það er ekki hægt að sjá deildinni fyrir því fjármagni, sem búskapur í upphafi krefst. Það er alkunna, að flestar framleiðslugreinar, sem eru að hefjast handa um framleiðslu, ekki sízt landbúnaðurinn, kosta mikla peninga, og þó að bændur gætu fengið lán samkvæmt þeim kjörum og frá þeim lánsstofnunum, sem ber skylda til að lána til landbúnaðarins, þá er sízt af öllu, að þeir geti fengið það, ef þeir þurfa að hefja búskap án þess að eiga nokkurt verulegt fé sjálfir. Það er því engin vanþörf á að reyna að bæta úr þessu eftir mætti, og ég vonast eftir því, að hæstv. Alþ. taki með skilningi á þessu máli og láti ekki sitt eftir liggja að gera það, sem hægt er, til þess að greiða fyrir þeim, sem vilja stunda landbúnaðarframleiðslu, en sjá sér ekki fært að gera það, vegna þess að þeir hafa ekki nægilegt fjármagn í upphafi til þess að hefja búskap.