11.12.1951
Neðri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2833)

143. mál, virkjun jarðgufu í Krísuvík

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Út af því. sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um framhaldsvirkjun á Soginu og þessa virkjun, er það að segja, að ég hef það ekki skjalfest víst, að ekki verði haldið strax áfram með næsta stig við virkjun Sogsins. — Hins vegar kom mér á óvart, er hv. þm. sagði, að ef ekki væri byrjað 1952 á þessu næsta stigi virkjunarinnar, væri fyrirsjáanlegur skortur á raforku, og má hann bezt vita þetta, þar sem hann á sæti í stjórn Sogsvirkjunarinnar. Þetta styður þá skoðun mína, að það megi engan tíma missa, svo að þetta mál fari ekki úr reipunum og mjög mikill rafmagnsskortur verði hér að stuttum tíma liðnum. Hins vegar get ég sagt með nokkurri vissu, að þessi virkjun er tiltölulega fljótgerð, ef það ástand skapast, að skortur verði á rafmagni, sem raunverulega er fyrir hendi. Það er hægt að framleiða vélarnar með stuttum fyrirvara. Annars er virkjunin vissulega einfaldari og hægt að koma henni upp með stuttum fyrirvara.

Viðvíkjandi notkun gufu til annars en raforku má haga því þannig, að úr túrbínunni komi jafnvel 100 gráðu heitt vatn. Það má nota vatnið til einhvers iðnaðar, þó að gufan sé notuð til raforku, og má þannig slá tvær flugur í einu höggi. — Af öllum þessum ástæðum virðist mér nauðsynlegt, að hafizt verði handa um virkjun í Krýsuvík.