27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2851)

123. mál, ný orkuver og nýjar orkuveitur

Flm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 243 hef ég flutt frv. um breytingu á l. nr. 92 frá 1947, um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins. Í lögunum frá 1947 var ríkisstj. heimilað að fela rafmagnsveitum ríkisins að reisa raforkuver við Fossá í Fróðárhreppi og leggja háspennulínu þaðan til Ólafsvíkur og Sands. Frv. það, sem hér er lagt fram, fer fram á, að rafmagnsveitum ríkisins verði einnig heimilað að leggja háspennulínu frá raforkuverinu við Fossá um Fróðárhrepp og Eyrarsveit um Helgafellssveit að Hrísum og niður Þórsnes að Stykkishólmi. Á yfirstandandi ári hefur raforkumálastjóri látið framkvæma áætlun um, hvað þessi lína muni kosta, og tel ég mjög nauðsynlegt, að þegar lokið er byggingu Fossárvirkjunarinnar, verði hún fullnýtt. Ég hef því lagt til, að nokkrum hluta tekjuafgangs ársins 1951 verði varið til þessara framkvæmda, þ. e. a. s. lagningar háspennulínu frá Fossá til Stykkishólms. Það er óþarft að fara mörgum orðum um það, hve nauðsynlegt er fyrir þessi þorp að fá rafmagn frá raforkuverum ríkisins, og það verður ekki lengi spyrnt á móti þeirri öfugþróun síðustu ára, þar sem fólkið flyzt úr sveitunum til kaupstaðanna, nema með því, að ríkið sjái dreifbýlinu fyrir rafmagni.

Ég tel ekki þörf á að fara fleiri orðum um þetta frv., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.