11.12.1951
Neðri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2855)

143. mál, virkjun jarðgufu í Krísuvík

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það kann að vera, að það virðist eins og það sé að bera í bakkafullan lækinn að flytja frv. til framleiðslu á rafmagni samhliða þeim miklu virkjunarframkvæmdum, sem nú þegar er hafin framkvæmd á. En ef betur er að gáð, þá er þetta á allt annan veg. Í sambandi við hina miklu framkvæmd, sem nú er hafin við virkjun Sogsins, er gert ráð fyrir, að þar verði virkjað kringum 3200 kw. En allir vita nú, hvernig ástandið er í rafmagnsmálunum hér á Suðvesturlandi, þar sem ekki er hægt að halda uppi nokkurn veginn fullri spennu með því álagi, sem á orkuverunum er, og hefur nú um skeið orðið að hafa mikinn hluta orkuveitusvæðisins rafmagnslausan, til þess að nokkurt viðhlítandi ástand sé á hinum stöðunum, sem eftir væru. M. ö. o., það þarf nú þegar allmikinn hluta af þeirri virkjun, sem nú er verið að byggja, til að bæta úr og fullnægja eftirspurninni. Og það má enn fremur geta þess, að nú er, að ég hygg, þetta á þeim tímum, þegar álagið er mest á toppstöðinni, sem þó var gert ráð fyrir, að ekki þyrfti að nota, nema þegar álagið færi úr hófi fram, og ekki gert ráð fyrir, að hún væri neinn aðalliður í virkjuninni eins og hún nú er orðin, þ. e. a. s. allverulegur hluti af virkjun Sogsins er til þess að létta á toppstöðinni. Auk þess er svo vitað, að nú mjög bráðlega verður hafin bygging á áburðarverksmiðju á orkuveitusvæðinu, sem gert er ráð fyrir, að mér er sagt, að muni taka kannske um eitthvað yfir 2/3 hluta orkunnar, sem nú er verið að virkja. Þannig má, þegar núverandi Sogsvirkjun er fullgerð, gera ráð fyrir, ef áburðarverksmiðjan verður þá tekin til starfa sem ætla má, að þörfin fyrir meiri framleiðslu á rafmagni til notkunar á núverandi orkusvæði aukist stórum. Það er því síður en svo, að með núverandi virkjun Sogsins sé leyst úr rafmagnsþörfinni á orkuveitusvæðinu.

Ég geri ráð fyrir, að þegar þessum virkjunum verður lokið, geti orðið hlé á því, að áfram verði haldið með Sogsvirkjunina, þó að ekki sé enn allt vatnsaflið virkjað, sem hægt væri að nota til raforkuframleiðslu. Og ýmsir telja, að skilyrðin til raforkuvirkjunar séu fullt eins góð annars staðar eða með því að nota þá jarðgufu, sem fyrir hendi er og hægt er að ná í.

Fyrir 5–6 árum hóf Hafnarfjarðarkaupstaður borun eftir jarðgufu í Krýsuvík, fyrst í mjög smáum stíl og næstum því án árangurs í upphafi, unz fengin var full vissa um, að þarna væri gufa niðri með háu hitastigi og háum þrýstingi. En hversu mikið magn væri þar, fékkst ekki upplýst, fyrr en fenginn var stór bor, sem nú hefur verið notaður næstum 4 ár samfleytt, og hefur með notkun hans komið í ljós, að þar er hægt að fá geysimikið gufumagn við heppileg skilyrði. Í holu, sem lokið var við 1. sept. 1950, komst gufumagnið í upphafi upp í 70–80 tonn á klukkustund, þó að nokkuð drægi úr því síðar.

Þessi hola hefur gosið stöðugt síðan á miðjum síðasta vetri. Og nú fyrir stuttu hefur enn fengizt viðbót á nýjum stað, þar sem gufumagnið hefur komizt upp í um 25 tonn á klukkustund, sem bendir til þess, að þarna sé hægt að fá miklu meira gufumagn en menn hafa gert sér hugmynd um. Og þær holur, sem síðan hafa verið boraðar, virðast ekki hafa tæmzt af þeim fyrri, svo geysimikið gufumagn streymir þarna, og virðist vera hægt að fá mjög mikið magn af jarðgufu og jafnvel miklu meira en það, sem nú er fengið.

Nú er þá fyrir í þeim holum, sem lokið hefur verið við að gera, um 60 tonn af gufu á klukkustund, en það svarar til um 7–8 þús. kw., ef allt væri virkjað. Þessar boranir hafa verið framkvæmdar af Hafnarfjarðarkaupstað með það fyrir augum, að þar verði reist orkuver til framleiðslu á rafmagni, og sú áætlun eða sú frumáætlun, sem hér er birt með nál., hefur verið undirbúin um alllangt árabil. Meðal annars hefur verið haft samband við þær virkjanir, sem þegar hafa verið gerðar af þessu tagi erlendis. Á einum stað á Ítalíu mun nú vera virkjað um 300 þús. kw., eða 10 sinnum stærri virkjun en sú, sem nú er verið að gera hér við Sogið. Og þessar virkjanir hafa verið í gangi nú um áratugi og við þær fengizt ýmiss konar reynsla, sem reynt hefur verið að færa sér í nyt við þessar jarðboranir í Krýsuvík. Rafveitustjóri okkar, Valgarð Thoroddsen, hefur farið á þeirra fund og fengið frá þeim ýmsar gagnlegar upplýsingar. Enn fremur hefur verið leitað tilboða í vélar og ýmislegt annað tilheyrandi, og hefur tilboð borizt frá nokkrum aðilum, eins og getið er í fylgiskjalinu. Þegar sýnt var, að nægjanlegt gufumagn var komið á staðnum til þess að hefja framkvæmd á 5–6 þús. kw. virkjun, þá samþ. bæjarráð Hafnarfjarðar að láta ganga frá þeirri frumáætlun og hefja undirbúning um, að virkjunin gæti hafizt. Í framhaldi af því er svo þetta frv. fram borið, og skal ég fara nokkrum orðum um það.

Í frv. er gert ráð fyrir, að Hafnarfjarðarkaupstað sé heimilað að reisa orkuver í Krýsuvík til hagnýtingar á þeirri jarðgufu, sem þar hefur komið fram, og að leiða háspennutaugar til Hafnarfjarðar og annarra staða, sem ákveðið kann að verða að leiða rafmagn til frá orkuverinu. Sömuleiðis að reisa spennustöðvar og þau mannvirki, sem gera þarf í sambandi við virkjun sem þessa. Áður en verkið verður hafið, skal senda ráðh. þeim, sem fer með raforkumál, frumdrætti að hinum fyrirhuguðu mannvirkjum ásamt lýsingu af þeim. — Þá er gert ráð fyrir, að ríkissjóði sé heimilt að ábyrgjast lán, sem Hafnarfjarðarkaupstaður tekur vegna virkjunarinnar, allt að 20 millj. kr., eða tilsvarandi upphæð í erlendum gjaldeyri, þó ekki yfir 85% af kostnaðarverðinu. Það er gert ráð fyrir hér, að í staðinn fyrir 22 millj. kr. fyrir fyrstu 5500 kw. stöð sé ríkissjóði heimilað með þessari 3. gr. að ábyrgjast 85% af þeim kostnaði. — Þá er enn ákvæði í frv. um, að orkuverið í Krýsuvík skuli rekið sem sjálfstætt fyrirtæki með sérstöku reikningshaldi samkvæmt reglugerð, er bæjarstjórn Hafnarfjarðar semur og ráðh. staðfestir. Síðan er gert ráð fyrir, að orkuverið selji rafmagn til rafveitu Hafnarfjarðar og annarra aðila, sem þess kunna að óska. En fagmenn, sem málið hafa kynnt sér, hafa gert ráð fyrir, að heppilegasta notkunin á orkuverinu í Krýsuvík mundi vera sú, að það væri rekið sem virkjunaraflstöð, en hinar aðrar stöðvar, sem væru í tengslum við orkuverið, kæmu þá inn eftir því, sem þörf krefur og ástæður væru til. Þá er enn fremur gert ráð fyrir, að ríkissjóður geti orðið þátttakandi í þessari virkjun eins og hann er nú í Laxárvirkjuninni, en þessi lög eru að verulegu leyti samin eftir þeim l., sem nú gilda um Laxárvirkjunina.

Mér er það ljóst, að það er nú svo áliðið þings, að mjög hæpið er, að þetta frv. nái þremur umr. í hvorri þd., svo að í þetta sinn er kannske varla að búast við, að það afgreiðist sem lög frá Alþingi. En ég taldi sjálfsagt að flytja það nú, úr því að ástæður voru fyrir hendi, þannig að hægt væri að flytja það, m. ö. o., þegar vitað var um magn hinnar nýju gufu. En tilgangur þess er ekki þýðingarlaus á þessu þingi, þó að það nái ekki fram að ganga nú, með því að ég ætlast til, að hv. þm. kynni sér málið og hugsi um það, og það er þess vert, svo þýðingarmikið sem það er.

Virkjunarkostnaðurinn ætti á þennan hátt síður að verða meiri, og eftir áætlun strax í fyrstu virkjun minni en vatnsaflsvirkjunin þar sem hún er ódýrust, þ. e. a. s. við Sogið. Það er því frá fjárhagslegu sjónarmiði séð þýðingarmikið frv., sem hér er á ferðinni, og ætlast ég til, að hv. þm. kynni sér málið svo ýtarlega sem þeir hafa ástæður til.

Ég tel, að sjálfsagt sé að leita umsagnar um málið hjá þeim sérfræðingum, sem ríkisstj. hefur á að skipa. Og um leið og ég leyfi mér að leggja til, að málinu að lokinni þessari umr. verði vísað til hv. iðnn. þessarar d., þá vildi ég láta þá ósk mína í ljós, að málið fengi fyrst og fremst þá afgreiðslu, að það fengi umsögn raforkumálastjórnar ríkisins, og helzt að það tækist, að hún kæmi fram fyrir þinglok, svo að hv. þm. gætu kynnt sér hana í næði. — Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn.