11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

161. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til að ræða um þetta nú, sérstaklega þar sem málið fer til n., sem ég á sæti í, en ég vil þó leyfa mér að benda á í þessu sambandi, að það mun ekkert hafa leift af því undanfarið, að sá tekjustofn, sem skrifstofa skipulagsstjóra hefur haft af þessu gjaldi, hafi nægt til þess að halda uppi starfsemi skipulagsn. og skrifstofu skipulagsstjóra. Ég vil því óska eftir, að það verði nokkru betur upplýst, í fyrsta lagi, hvort það fé, sem ætlað er í þessu skyni, muni gera meira en nægja til þess að halda uppi skrifstofu skipulagsstjóra, sem verður að reka áfram, og í öðru lagi, hvort ekki sé eðlilegt, ef Reykjavíkurbær tekur til sín nokkurn hluta af gjaldinu, að aðrir bæir úti um land, sem hafa ýmsan annan hliðstæðan kostnað af undirbúningi skipulagsins hjá sér, þ. e. hafa verkfræðinga í sinni þjónustu, sem annast mælingar og annan undirbúning, — að þeir fái þá einnig þann hluta af þessu gjaldi, sem til fellur í þeirra umdæmi. Ég fyrir mitt leyti teldi það ekki heppilegt, að út á þá braut yrði farið að klípa svo af þessu gjaldi skipulagsskrifstofunnar sem þannig yrði gert, en tel sjálfsagt, ef farið yrði út á þá braut varðandi Reykjavík, að það verði þá einnig gert þar, sem svipuð skilyrði eru fyrir hendi annars staðar.

Eins og hv. 7. þm. Reykv. réttilega benti á, er þessi tekjustofn sérstakt, ákveðið gjald af nýbyggingum. En þróunin hefur orðið sú, að þetta gjald hefur dregizt mjög saman að undanförnu, og eru engar líkur til þess, að það verði á næstunni svipað því eins hátt og verið hefur undanfarin ár. Af þessum sökum álít ég því rétt, að þetta mál yrði gaumgæfilega athugað, a. m. k. áður en svo langt væri gengið, að starfsemi skipulagsskrifstofunnar yrði skert; ég tel hana svo gagnlega. Og þó að henni hafi ekki verið falið það verkefni út af fyrir sig að annast skipulag Reykjavíkurbæjar, álít ég, að ekki eigi að skerða það verk, sem hún innir af höndum, að minnsta kosti ekki svo að neinu verulegu nemi. Þessi skipulagsdeild, er Reykjavíkurbær heldur uppi, er rekin á hans kostnað eingöngu, að ég hygg, en ef út í það hefði verið farið, teldi ég líkur til þess, að skipulagsskrifstofa ríkisins hefði getað innt af höndum a. m. k. verulegan hluta af því starfi, sem skipulagsdeild Reykjavíkur hefur með höndum.

Ég vildi þess vegna mjög eindregið leggja til, að ekki verði rasað um ráð fram í þessu máli. og hvað sem öðru líður, verði ekki starfsemi skipulagsstjóra skert svo að nokkru nemi frá því, sem nú er.