11.01.1952
Efri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

93. mál, skattfrelsi sparifjár

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og gert hafði verið ráð fyrir við 2. umr., sem fór fram í gær, tók fjhn. frv. þetta til nýrrar athugunar á fundi í morgun. Niðurstaðan af athugunum n. og umr. var í stuttu máli sú, að n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt að öðru leyti en því, að hún leyfir sér að flytja brtt., sem felur í sér þá hugsun, sem háttvirtur 11. landskjörinn (ÞÞ) varpaði fram hér við umr. í gær, sem sé, að það sparifé, sem stæði inni 6 mánuði, þegar l. ganga í gildi, öðlaðist líka skattfrelsi og þá líka séð fyrir því, að þeir, sem seinir væru til þess að koma fé sínu á innlánsskírteini eða bindast samningum við innlánsstofnanir, fái slík réttindi, og það er sanngjarnt, því að mjög margir þeirra, sem eru umkomuminni, safna sparifé í raun og veru til þess að eiga það á vöxtum. — N. tók fyrir þau sjónarmið, sem komu fram við umr., og niðurstaða athugana hennar varð, eins og ég hef greint, þessi brtt. um bráðabirgðaákvæði, sem ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta. — Meira sé ég ekki ástæðu til að segja um málið við þessa umr. án nýs tilefnis.