07.11.1951
Efri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2989)

94. mál, Fyrningarsjóður Íslands

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Ég rís hér ekki upp til að mótmæla þessu frv., því að ég veit, að tilgangur þess og meginhugsun er góð og athyglisverð. Það stefnir að því að hafa fé handbært handa atvinnufyrirtækjum. — Mér dettur í hug í þessu sambandi það, sem einn góður og gegn húsasmiður sagði við mig einu sinni. Hann sagði réttilega, að við vissum ekki, hvernig framtíðin vildi byggja, og með því að byggja svo dýrt og vandað sem við gerum, þá værum við að taka fram fyrir hendur afkomendanna. Hann áleit, að við ættum að byggja hús, sem kæmu til með að standa í 50–75 ár og ódýrt væri að byggja. Það er anzi mikið til í þessu, og við sjáum vel, hvernig trékofarnir hér í Aðalstrætinu hafa staðið í veginum fyrir því nú í ein 30 ár, að þar væri hægt að byggja eftir kröfu tímans. Í sambandi við þetta viðtal sagði ég, að mér fyndist, að til þyrftu að vera fyrningarsjóðir, — að mynda þyrfti sjóð með því að borga árlega gjald, sem rynni í sjóð til þess að endurbyggja hús að ákveðnum tíma liðnum. En skilyrði fyrir þessu er, að verðmæti peninganna haldist óbreytt, svo að það sama fáist fyrir þennan sjóð, þegar til hans þarf að grípa, og hægt er að fá fyrir peningana, þegar þeir eru lagðir í sjóðinn, og er ég á sama máli og hv. 1. þm. N-M., að þessi sjóður verði að fylgja viðkomandi fasteign. En það allra nauðsynlegasta er, að verðgildi peninganna haldist.

Ég get sem dæmi um það sagt, að þegar ég var 20 ára, gat ég valið um það að byggja hús og kaupa mér líftryggingu, og hefði þá getað byggt hús eins og t. d. eru hér á Melunum fyrir sama framlag og líftryggingin kostaði. — Ég kaus líftrygginguna. En nú, þegar ég fæ þessa tryggingu útborgaða, er ekki einu sinni hægt að byggja fyrir hana eitt herbergi, hvað þá meira. Það er því höfuðatriðið að tryggja verðgildi peninganna og á hinn bóginn, að þessi sjóður fylgi viðkomandi fasteign, og ef hægt er að tryggja það með þessu frv., má segja, að nokkuð sé áunnið.

Þá er það annað atriði. Það var minnzt á það, að ef fyrirtæki væri rekið með tapi, gæti því orðið ókleift að leggja fram fé í fyrningarsjóð. Fyrningarafskriftir eru að vísu dregnar frá skattskyldum tekjum. Við vitum það nú, að lengi hefur það verið svo, að afskrift hefur leyst undan skatti, en hefur svo aftur bætzt við sem halli, og þá á það fyrirtæki ekki eyri til að leggja í þennan sjóð.

Ég álít því, að þótt þessa máls sé full þörf, beri að athuga það gaumgæfilega, svo að það komi að sem mestum notum.