29.11.1951
Efri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (3007)

130. mál, orkuver og orkuveitur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í tilefni af þessari ræðu hæstv. landbrh. vildi ég mega spyrja hann, hvort hann sæi sér ekki fært að láta hækka greiðslu til þeirra manna, sem koma sér sjálfir upp rafstöðvum, úr 33% upp í 66%a, eins og ákveðið er í lögum. Hæstv. ráðh. hefur upplýst, að það kosti ríkissjóð að meðaltali 27 þús. kr. á hvern bæ að koma upp veitu. Mér er ljóst, að það væru fjöldamargir bæir í landinu, sem gætu tryggt sér rafmagn með eigin virkjun fyrir um það bil 50 þús. kr. eða jafnvel minna, ef tveir eða fleiri bæir gætu verið saman um virkjunina. Rekstrarkostnaðurinn fyrir þessa bæi yrði ekki nema brot af þeim rekstrarkostnaði, sem hér um ræðir. Ef þetta væri hægt, er ekki nema um 30 þús. kr. að ræða, sem greiddust úr ríkissjóði, ekki sem styrkur, heldur sem lán. Þetta virðist mér styðja þá till. mína, að tekið verði til gaumgæfilegrar athugunar, hvort ekki sé hægt að gera meira en gert hefur verið til þess að hjálpa bændum við að koma upp eigin rafstöðvum, þar sem vel hentar. Ég veit, að á Vestur- og Austurlandi mundi þetta hafa í för með sér miklu minni stofnkostnað og miklu minni rekstrarkostnað fyrir stórvirkjanir. Þess vegna virðist mér, að öll rök hnígi að því, að það eigi að hugsa meira um þessar virkjanir, til þess að hér sé hafður meiri jöfnuður á milli en gert hefur verið. Vænti ég þess, að hæstv. landbrh. athugi, hvort hann sjái sér ekki fært að fyrirskipa eða leggja til við raforkumálastjórnina, að eftirleiðis verði greiðslur til þessara manna, sem inntar eru af hendi sem lán, hækkaðar úr 33% og helzt í 66%. Þegar stundir líða fram, má svo kannske þoka þessum málum lengra áfram en vonir standa nú til.