08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (3092)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er rætt um byggingarmál eins og oftsinnis áður, og er ekki óeðlilegt, að um þau sé rætt. Húsnæði er ein helzta lífsþörf manna. Eins og nú háttar, búa margir við slæm kjör í þeim efnum, hafa litið og slæmt húsnæði, og þeir, sem leigja, greiða óeðlilega háa leigu. Þess er því vissulega þörf, að reynt sé að bæta úr og mönnum gert kleift að eignast þak yfir höfuð sér og fjölskyldu sinnar. Og einnig þarf að byggja mikið af nýjum húsum vegna fólksfjölgunar í landinu. Þetta mál og viðhorf manna til þess hefur oft verið rætt áður hér á Alþingi. Eru þessi mál, húsnæðismálin, gamalkunn hér á þingi.

Á árunum 1944–46 sat hér að völdum ríkisstj., sem af mikilli hógværð og lítillæti kallaði sig „nýsköpunarstjórn“. Í tíð þeirrar stjórnar var mikið byggt af húsum og þá sérstaklega í Reykjavík. Var mikið byggt af stórhýsum, sem voru að hæfi auðmanna, en of lítið var byggt af byggingum, sem hæfðu fyrir almenning. Síðasta stjórnarár þeirrar stjórnar, sem ég gat um, voru sett lögin um útrýmingu á heilsuspillandi íbúðum. Minna hefur nú orðið úr þessu en ráð var fyrir gert, en þessi lög eru einn af víxlum þeirrar ríkisstj., sem afsagður hefur verið sökum greiðslufalls. Enn er talað um að byggja, og farið er fram á, að skýrslur verði gerðar um það fé, sem varið hefur verið til íbúðarhúsabygginga. Ég held nú, að það sé auðvelt, án þess að það mál sé sérstaklega falið ríkisstj. Það er ástæða fyrir þm. að kynna sér það. Ef athugaðar eru tölur, þá kemur í ljós, að upphæðir lána hafa verið hærri að meðaltali til hverrar íbúðar í kaupstöðum en sveitum. Árið 1950 var það ákveðið í gengisl., að lánaður skyldi meiri hl. gengisgróðans til íbúðarhúsabygginga. Sá helmingur lánsfjárins, sem byggingarsjóður Búnaðarbankans fékk, mun hafa nægt til að lána til rúml. 100 íbúða í sveitum, en hinn helmingurinn, sem fór í kaupstaðina, hefur sennilega hrokkið til lánveitinga til helmingi færri íbúða þar. Þetta stafar af því, að íbúðir í kaupstöðunum, sérstaklega í Rvík, eru langtum dýrari en í sveitum og kauptúnum. Ef byggingarkostnaður í höfuðstaðnum væri ekki meiri en í sveitunum, hefðu helmingi fleiri Rvíkurbúar getað fengið byggingarlán af gengishagnaðinum en raun varð á. En af hverju getur þetta stafað? Það ætti ekki að vera dýrara að byggja í kaupstöðum en sveitum, heldur hið gagnstæða. Ekki þurfa Reykvíkingar að greiða mikinn flutningskostnað á byggingarefni. Nei, orsökin mun aðallega vera fólgin í því, að óstjórn og ólag er oft á byggingarvinnunni og umsjón og eftirlit alls konar meistara of dýrt í Rvík og fleiri kaupstöðum landsins. Það er ófrelsið í þessum efnum, sem verður þyngst á metunum. Mönnum er ekki leyft að haga framkvæmdum þannig, að byggingarnar verði sem ódýrastar, t. d. með því að vinna sjálfir eða nokkrir saman í félagi að byggingunni. Byggingar í kaupstöðum verða mönnum of dýrar, en þó er verð þeirra misjafnt. Verkamannabústaðirnir munu yfirleitt vera með ódýrari byggingum, en þó of dýrir fyrir þá, sem minnst hafa úr að spila. Reykjavíkurbær byggði íbúðarhús á árunum. Þau hús urðu dýrari en allt, sem dýrt er og dýrast var áður í þeim efnum. Sú er reynslan af því fyrirkomulagi byggingarmálanna, og er oft svo um opinberar framkvæmdir. Aðrar leiðir eru heppilegri til lausnar þessum vanda, sem byggingarmálin eru. Það á að styrkja menn til sjálfsbjargar í þessum efnum sem öðrum.

Árið 1948 lá hér fyrir frv. til l. um byggingarmálefni Reykjavíkur. Það frv. dagaði uppi. Ég bar á þeim tíma fram brtt. við það frv., sem er prentuð á þskj. 94 frá þinginu 1948. Efni þeirrar till. var það, að húsameistari bæjarins skyldi láta þeim, er þess óska, í té fullnægjandi uppdrætti að íbúðarhúsum, sem fyrirhugað er að reisa innan kaupstaðarins, ásamt séruppdráttum af járnbentri steinsteypu, fyrirkomulagi vatns- og skolpveitna, hita- og rafmagnslagna, eftir því sem krafizt er af byggingarfulltrúa. Gjald var ákveðið fyrir uppdrætti þessa 1 króna fyrir hvern m3 í húsunum. — Í öðru lagi var gert ráð fyrir í síðari hluta þessarar till., að hver sá, sem vinnur sjálfur að meira eða minna leyti að byggingu á íbúðarhúsi, gæti fengið leiðbeiningar við verkið og eftirlit með því hjá húsameistara bæjarins eða aðstoðarmönnum hans. Gjald fyrir slíkar leiðbeiningar var gert ráð fyrir að ákveða í byggingarsamþykkt, en yrði þó ekki hærra en 2 kr. fyrir hvern m3 í byggingunum.

Þessi brtt. mín við frv. var felld, og var hv. 7. þm. Reykv. m. a. á móti till. Frv. um sama efni var svo borið fram á síðasta þingi af hv. 8. þm. Reykv. og aftur á þessu þingi. Í því frv. eru svipuð ákvæði og fólust í till. mínum, en þó nokkru við aukið. Tilgangur þess frv. er að auðvelda mönnum að koma upp íbúðarhúsum með samhjálp og samstarfi að byggingarframkvæmdum. Nú hef ég heyrt, að í haust hafi verið byrjað á framkvæmdum á smíði íbúðarhúsa með því fyrirkomulagi, sem ég lagði til í till. mínum 1948. Bærinn lætur í té uppdrætti að smáíbúðarhúsum fyrir lítið eða jafnvel ekkert gjald, og ég hef einnig fregnað, að bærinn láti í té sérfræðilegar leiðbeiningar varðandi byggingarframkvæmdirnar fyrir hóflegt gjald, svo að menn þurfi ekki að kaupa dýra umsjón alls konar meistara, eins og annars tíðkast. — Hef ég ekki fengið nákvæmar upplýsingar um þetta, en sé þetta svo, vil ég lýsa ánægju minni yfir því. Það er mál til komið, að Reykvíkingar séu ekki skyldaðir með l. að kaupa þessa dýru umsjón. Forráðamenn Reykjavíkurbæjar virðast þá hafa séð, að það var skynsamlegt að veita þá fyrirgreiðslu, sem till. mínar frá 1948 fjölluðu um. Með þeim till. var stefnt að því að gera mönnum greiðara og léttara að koma upp húsi yfir sig og fjölskyldu sína, og er það vissulega breyting til batnaðar frá því, sem verið hefur. Ef þetta frjálsræði er nú fengið að lokum, að menn geti í auknum mæli unnið að byggingu húsa sinna sjálfir ásamt skylduliði sínu, þá er það, sem þessa menn vantar fyrst og fremst, nokkurt lánsfé. Fyrst og fremst þyrfti að vera hægt að lána til efniskaupa. En það fjármagn er takmarkað, sem hægt er að verja árlega til íbúðabygginga, og er þess því mikil þörf, að því verði sem haganlegast varið, þannig að sem flestir geti notið lána til að koma upp húsum, sem teljast mega við hæfi almennings. Þeir, sem gætu byggt ódýr, hagkvæm og viðunandi híbýli, ættu að ganga fyrir um útvegun nauðsynlegs fjármagns. Verkamannabústaðir koma hér til greina, en engu síður smáíbúðarhúsin, sem einstaklingar eru að koma sér upp að meira eða minna leyti með eigin vinnu. Ég tel mjög gott, ef það opinbera styður menn til sjálfsbjargar í þessum efnum með því að láta í té ódýra uppdrætti og leiðbeiningar við byggingarnar og veita mönnum frelsi til að vinna sjálfir að þeim. Að öðru leyti ætti það opinbera að hafa sem minnst afskipti af þessum málum, t. d. bæjarstj. hér í Rvík. Ef ég væri bæjarbúi, mundi ég segja við bæjaryfirvöldin: „Í hamingjunnar bænum verið þið ekki að byggja fleiri hús. Við erum búnir að sjá, hvernig ykkur hefur farnazt sú starfsemi. Það er betra að haga þessu öðruvísi, því að með því móti er hægt að fá fleiri hús fyrir það takmarkaða fjármagn, sem fáanlegt er til íbúðabygginga.“