12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (3133)

57. mál, heimilisdráttavélar, prjónavélar og bifreiðar til landbúnaðarþarfa

Pétur Ottesen:

Ég vil mæla með samþykkt þessarar þáltill. eins og hún er nú flutt af allshn. Það er hyggilegt af n. að flokka jeppana og dráttarvélarnar og gera þar á nokkurn mun, því að samkv. flokkun n. er gert ráð fyrir, að innflutningur verði skilyrðislaust gefinn frjáls á dráttarvélum nú þegar, en ríkisstj. hafi það nokkuð í hendi sér með jeppana, því að þar er sá varnagli sleginn, að innflutningur þeirra fari eftir gjaldeyrisástæðum.

Út af ummælum hæstv. viðskmrh. vildi ég benda honum á í sambandi við innflutning á dráttarvélunum, að umsóknir bárust um 1200 á árinu, en 150 var úthlutað. Nú sendi úthlutunarnefndin að lokinni úthlutun út tilkynningu þess efnis, að eldri umsóknir væru úr gildi fallnar og yrði að senda umsóknir að nýju. Nú má gera ráð fyrir, að allur þorri umsókna hafi borizt á þessu ári, en þær hafa reynzt vera um 400. Er vissa fyrir því, að umsóknirnar eru fleiri en raunveruleg geta er fyrir hendi til greiðslu á. Ef tekið er tillit til úthlutunar þeirrar, sem fram fór á síðasta ári, þá má geta þess í þessu sambandi, að ýmsir þeirra, sem fengið höfðu úthlutun, áttu í allmiklum erfiðleikum með að leysa vélarnar út, er til kastanna kom. Má af þessari reynslu gera ráð fyrir, eins og fyrr segir, að umsóknirnar séu allmiklu fleiri nú, sem verða að bíða afgreiðslu, vegna þess að hlutaðeigendur hafa ekki fjárráð til að greiða þessar vinnuvélar. Það er því mjög líklegt, að ekki verði mikill munur á þessu gjaldeyrislega séð, hvort innflutningurinn er gefinn frjáls eða ekki.

Hæstv. ráðh. virtist þykja miður, að í tillögunni eru fyrirmæli til ríkisstj. um framkvæmd málsins. Þetta tekur eingöngu til dráttarvélanna, því að varðandi jeppana hefur stjórnin þetta í hendi sér. Frágangur allshn. á till. er því hyggilegur. Annars er þetta orðalag einnig mjög algengt á þáltill. og er þá bindandi fyrir ríkisstj. Gert er ráð fyrir í till., að jepparnir fari eingöngu til bænda, en þessar bifreiðar eru einnig mjög eftirsóttar t. d. af læknum og ljósmæðrum. Vil ég fyrir mitt leyti ekki útiloka þessa aðila frá því að geta fengið jeppabifreiðar.

Hv. þm. V-Sk. sagði í ræðu sinni, að mikil brögð hefðu orðið að því, að jeppar, sem úthlutað hefði verið til bænda, hefðu horfið aftur til kaupstaðanna. Úthlutun þessara bíla var í upphafi, meðan stjórn Búnaðarfélags Íslands hafði hana á hendi, miðuð við það að uppfylla eingöngu þarfir sveitanna. Meðan þessu var fylgt, mun ekki hafa mikið borið á, að bílarnir færu til kaupstaðanna. Svo kom, að horfið var frá þessu fyrirkomulagi; er nýbyggingarráð tók úthlutunina í sínar hendur og úthlutaði jeppum jöfnum höndum til kaupstaðanna og sveitanna. Stafar hinn mikli fjöldi jeppabifreiða í kaupstöðum af þessu fyrirkomulagi. Um þetta vildi ég aðeins geta hér vegna tilefnis þess, sem hér gafst.