05.12.1951
Sameinað þing: 22. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (3141)

106. mál, jöfnunarverð á olíum og bensíni

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég held ég hafi verið einn þeirra, er tóku undir ósk til hæstv. stj. um það, að reynt yrði að koma á jöfnunarverði á olíu og benzín. Ég er þó ekki frá þeim stað, sem verst verður úti í þessum efnum, en mér finnst, að hér sé um mikið sanngirnismál að ræða, sem snerti ekki aðeins þá landshluta, sem fjærstir eru, heldur alla landshluta.

Ég vil vekja athygli á því, að á þinginu í fyrra var lögð áherzla á það, að hæstv. ríkisstj. beitti verðlagsákvæðunum til þess að leysa þetta mál, svo að framkvæmd þess þyrfti ekki að öllu leyti að ganga út yfir Reykjavík og nærsveitir. Hæstv. ríkisstj. átti að beita valdi sínu til þess að fá félögin til að lækka verðið. En ályktun Alþ. var hunzuð af hæstv. stj., og ég vil segja eins og hv. þm. V-Sk., að það er leitt, að sá hæstv. ráðh., sem fyrir því stóð, skuli ekki vera hér.

Þessi málalok hindra þó ekki, að málið sé tekið upp á ný, enda hefur það nú verið gert. Ég vil veita hv. þm. Snæf. og hv. þm. V-Sk. þann stuðning, sem ég get, til þess að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Ég vil því beina því til hv. fjvn., sem mun hafa mörgu að sinna, ef að vanda lætur, að það er hægðarleikur, ef því er að skipta, að koma málinu á framfæri við allshn. Ég skal þá sjá til þess, að till. verði fljótt afgr., ef botninn dettur ekki svo úr þinginu, að fleiri mál verði óafgr.