20.11.1951
Neðri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

17. mál, varnarsamningur

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Nú á síðustu tímum hefur borið mjög á því, að smáþjóðirnar hafa verið óöruggar með sinn hag og talið, að hætta steðjaði að. Sá uggur og kvíði er vissulega ekki ástæðulaus eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur síðustu 10–20 árin, og ekki sízt af reynslu tveggja síðustu heimsstyrjalda, sem svo oft hefur verið lýst. Mörg smáríki, sem höfðu verið undir áþján stórvelda, fengu frelsi eftir stríðið 1914–18. Má þar nefna ríki eins og Finnland, Tékkóslóvakíu, Eistland og Lettland, sem öll fengu frelsi í lok þess stríðs. En það ömurlega hefur skeð eftir stríðið 1939–45, að nokkur þessara ríkja hafa orðið yfirgangssömum stórveldum að bráð og misst aftur frelsi sitt. Má þar nefna Eistland, Lettland og Lithauen og óhætt að segja Tékkóslóvakíu, og ógnin vofir yfir finnska lýðveldinu. Það er von, að smáríkin hugsi um sinn hag og á hvern hátt sé hægt að bægja hættunni frá. — Af hverju stafar þessi hætta, sem vofir yfir smáríkjunum? Ef maður vill svara þessari spurningu, þarf maður ekki að rifja upp marga~ staðreyndir til að fá svarið. Svarið er það, að ýmis stór og voldug ríki hafa sett sig yfir hlut smáríkjanna og neytt færis til þess að leggja þau undir sig, svo að þau hafa glatað frelsi sínu. Menn bjuggust við, að síðasta stríð yrði barátta fyrir rétti smáríkjanna. En örlögum smáríkjanna er ekki borgið, sumpart fyrir yfirgang Sovétríkjanna og sumpart fyrir eftirlátssemi annarra stórvelda, sem sömdu við þau eftir síðasta stríð. Þó vonuðu menn, að eftir síðasta stríð kæmu tímar friðar og öryggis. Þær þjóðir, sem stóðu saman í styrjöldinni, vonuðust til að geta staðið saman áfram, eins og orð Roosevelts forseta bera með sér. Undirbúningur að stofnun Sameinuðu þjóðanna var órækt vitni þess, að menn vonuðu að þau ríki, sem voru stríðsaðilar, gætu lifað saman í sátt og samlyndi. Þegar undirbúningur að stofnun Sameinuðu þjóðanna var hafinn í San Fransisco, var auðsætt, hvernig leikurinn mundi enda. Þá var Þýzkaland Hitlers fallið, og Japan gat ekki staðið lengi gegn sameinuðum herstyrk þeirra þjóða, sem stóðu saman að verulegu leyti síðari hluta heimsstyrjaldarinnar 1939–45.

Ég hygg, að þau smáríki, sem héldu frelsi sínu eftir síðara stríðið, hafi ákaft vonað, að sú samvinna tækist með þeim ríkjum, sem stóðu saman í stríðinu, að nú hæfist langt og farsælt friðartímabil. En því miður hefur þetta ekki reynzt svo. Þó að nú sé ekki heimsstyrjöld, þá kannast allir við hið kalda stríð, sem er þó ekki alltaf kalt, heldur blossar upp í ljósum logum, eins og sjá má í Kóreu, víða í Asíu og jafnvel hérna í Evrópu. Von okkar um frið var byggð á því, að einstök ríki tækju sig ekki út úr til óþurftarverka. Vesturveldin sýndu það í verki, að þau vildu frið. Órækt vitni þess er afvopnun sú, sem hinar engilsaxnesku þjóðir framkvæmdu upp úr lokum síðustu heimsstyrjaldar. Í styrjöldinni hafði England 5 millj. manna undir vopnum, sem var geysimikill herstyrkur hjá ekki stærri þjóð. 1947–48 var herstyrkur þess kominn niður í 750 þús. manns. Bandaríkin höfðu í lok síðustu heimsstyrjaldar 10-12 millj. manna undir vopnum, en 1947–48 var her þeirra ekki orðinn stærri en 11/2 millj., svo mikil var afvopnunin. En það var eitt stórveldi, sem fór ekki sömu braut, Sovétríkin. Í stað þess að afvopnast hélt Rússland enn þá sterkari her. Þegar engilsaxnesku ríkin höfðu rúmar 2 millj. manna undir vopnum, þá höfðu Rússar 4 millj. Það gerðist annað í löndunum í Austur-Evrópu, þar sem Rússar höfðu her. Þau fóru fyrir atbeina Rússa og undir vernd þeirra að koma sér upp her, her, sem var þjálfaður af her Rússlands. Það var ekki aðeins, að landið sjálft væri undir herstjórn Rússa, heldur var t.d. settur rússneskur yfirhershöfðingi í Póllandi, og skýrara tákn um rússneska hervernd er ekki hægt að finna. En það var ekki nóg, að þessi mikli her héldist í Sovétríkjunum og að þessi ríki í Austur-Evrópu væru háð Rússlandi, þar sem rússneskur her var í landinu, heldur þurftu þau að auka herstyrk sinn. Sýnir þetta eitt á hernaðarsviðinu ekki nægilega, hvað hefur orðið til að auka þá þenslu, sem nú ríkir í heiminum? Óttinn er ekki ástæðulaus og ekki sízt hjá smáþjóðunum, sem eiga mest undir friði komið að fá að njóta þess sjálfstæðis, sem þau hafa öðlazt. — En á sviði fjármála og viðskiptamála hefur stríðið verið kalt eða jafnvel heitt. Árið 1947 kom Marshall með tillögu sína um, að Bandaríkin hjálpuðu löndum Evrópu til að rétta aftur við atvinnu- og fjármálalífið. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fjármálalífið í Stóra-Bretlandi var í öngþveiti. Í stríðinu var öllu fórnað, verðmætum og lífi manna, til að vinna stríðið gegn Hitler. Það var auðsætt, að válegir tímar vofðu yfir Evrópu, ef fjármála- og atvinnulíf yrði ekki eflt. Þá kom Marshall fram með sína merku tillögu, sem við hann er kennd, um aðstoð til ríkja í Evrópu. Ég segi af ásettu ráði: til ríkja í Evrópu, því að hún var ekki bundin eingöngu við Vestur-Evrópu. Mér finnst Marshallaðstoðin vera beint framhald af og í orsakasambandi við láns- og leiguframkvæmd Roosevelts forseta í stríðinu, þar sem Bandaríkin með sínum möguleikum hjálpuðu samherjum sínum í stríðinu, svo að þeir stæðu betur að vígi í baráttunni gegn Hitler, og var það vel þegið bæði að Bretum og Rússum. Þetta er beint framhald á þeirri fögru hugsjón Roosevelts, að þjóðirnar standi saman til þess að sigrast á erfiðleikunum. Tillögu Marshalls til endurreisnar Evrópu var vel fagnað, jafnvel í þeim ríkjum, sem að verulegu leyti voru háð Rússlandi. Það leyndi sér ekki, að bæði Tékkóslóvakía og Finnland vildu taka þátt í þessari endurreisn, en Rússland hindraði þau ekki aðeins í því, heldur sagði Marshallskipulaginu stríð á hendur. En Vestur-Evrópa lét hvorki undan hótunum Rússa né fimmtu herdeilda þeirra, sem starfa í hverju landi, hún lét hvorki undan æsingi Rússa né áróðri fimmtu herdeilda þeirra. Baráttan var háð úr austri og ógnað með miklum herstyrk, þegar vesturveldin afvopnuðust. Það var barizt gegn því, að vestrænar þjóðir gætu náð sér fjárhagslega. Hér var augsýnilega hætta á ferð, og hættan var mest fyrir smáríkin yfirleitt.

Þegar ég talaði um afstöðu smáríkjanna, varpaði ég fram tveimur spurningum út af háskanum, sem stafaði af öryggisleysi. Af hverju stafar sú hætta, og hver eru úrræðin? Hættan stafar frá hinum alþjóðlega kommúnisma, en uppruni hans er í Rússlandi. Þar er að finna mikinn herstyrk, sem er hafður til taks, þegar afvopnun fer fram í öðrum löndum. Þetta er stríð gegn viðreisn og atvinnuöryggi þjóða Vestur-Evrópu.

Hættan stafar því frá útþenslu einræðis, sem rennur frá Rússlandi, eins og hún stafaði áður frá einræði, sem stafaði frá Þýzkalandi Hitlers. Þá kemur að síðari spurningunni: Hvað er til bragðs að taka, hvað eiga smáþjóðirnar — þá er Ísland meðtalið — að gera, og hvaða úrræði er að finna til að bægja burt þeirri hættu, sem stafar af öryggisleysinu? Ég held, að ekki sé efi á því, að einmitt siðasta stríð hafi fært Íslandi heim sanninn um það, að það sé ekki til annað, sem hægt sé að gera, þegar ógnir einveldis séu á ferð, en að búast til varnar og það svo myndarlega, að það sé of áhættusamt að leggja út í árás. Þetta er ekki sízt nauðsynlegt fyrir smáþjóðirnar. Danmörk, Noregur, Holland og Belgía vildu ekki fyrir síðasta stríð gera bandalag við Stóra-Bretland og Frakkland, meðan tími var til, til varnar, ef ráðizt væri á þau. Þessi ríki trúðu eða vonuðust til, að þau mundu sleppa, ef til átaka kæmi, og óttuðust hótanir Hitlers, sem bjó næstur þeim. Danmörk, Noregur, Holland og Belgía vildu ekki sverjast til varnar með Bretum og Frökkum. Þýzkaland hótaði þeim öllu illu, og þau létu undan þeim hótunum. Það var lifað í þeirri von í hverju landi, að það slyppi, ef til átaka kæmi. En kaldur veruleikinn kenndi þessum þjóðum, að vonirnar um það, að einvaldsríki hlífði vopnlitlum eða vopnlausum þjóðum, voru tálvonir einar. Það var vaðið yfir Holland, Belgíu og Luxemburg og ráðizt á Danmörku og Noreg af herskörum Hitlers. Þessar þjóðir vildu ekki eða þorðu ekki að sverjast til samvinnu til varnar við Breta og Frakka. Það var fullseint að kalla á Stóra- Bretland, sem hafði nóg að gera fyrir sig sjálft, þegar ráðizt var inn í Noreg í síðustu styrjöld. Bretland gat ekki veitt þá hjálp, sem það hefði getað, ef varnarsamningur hefði verið milli þessara aðila. Við þekkjum víssulega söguna af því, hvernig fór fyrir Noregi. Norska þjóðin barðist hetjulegri, en vonlausri baráttu í 100 daga og var allan þann tíma pínd og hrjáð af innrásarherjunum og raunar út allt stríðið. Nú, þegar ríki með útþensluvilja sínum ógnar öryggi og friði í heiminum, þ.e. Sovét-Rússland, sem líkja má við Hitlers-Þýzkaland, hafa smáþjóðirnar lært af reynslunni. Út af þessu varð Atlantshafsbandalagið til. Það má einnig nefna þjóðir eins og Holland, Luxemburg, Noreg og Danmörk, sem 1939 vildu ekki gera sanming við Frakkland og Stóra-Bretland, en reynslan hafði kennt, að það var nauðsyn að hafa fyrir fram gerðan varnarsamning. Vegna þess varð Atlantshafsbandalagið til, og vegna þess gekk Ísland í Atlantshafsbandalagið. Ísland hafði fengið þá reynslu í síðustu styrjöld, að vegna tækniþróunar og legu sinnar var það orðið þýðingarmikið í átökum milli austurs og vesturs, og það vildi láta í ljós, hvorum megin það stæði. Af þessum ástæðum gekk Ísland og hin smáríkin í Atlantshafsbandalagið, til þess að reyna að bægja frá sér hættu vegna skorts á öryggi. Það þarf enginn lifandi maður að láta sér detta í hug, að ríki eins og Beneluxlöndin og Norðurlönd gangi í bandalagið til þess að hefja stríð. Sama má segja um engilsaxnesku stórveldin og Frakkland.

Þau ganga ekki í Atlantshafsbandalagið til að hefja stríð, heldur til að tryggja öryggi sitt með sameiginlegum vörnum. Einkenni Atlantshafsbandalagsins eru því hrein varnareinkenni. Einræðis- og ofbeldisríkin virða ekki neitt annað en aflið, og ég vil taka undir þau orð merks stjórnmálamanns á Norðurlöndum, að „brjótist út stríð þrátt fyrir Atlantshafsbandalagið, þá hafi það ekki náð tilgangi sínum“. En það yrðu mikil vonbrigði fyrir öll þessi ríki, ef svo færi, en þrátt fyrir það að svo illa kynni að fara, eru þó þessi ríki betur stödd á vegi en þau voru 1939, ef þriðja heimsstyrjöldin brytist út.

Ég sagði það áðan, að það eina, sem einræðisríkin virða, eru kröftug samtök og afl. Hin samstilltu og styrku átök Sameinuðu þjóðanna í Kóreu gegn innrás kommúnistanna hafa verið Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra þörf áminning. Það kann svo að fara, að þessar þjóðir hugsi sig um, áður en þær leggja út í annað slíkt ævintýri. Fullyrðingar um, að Atlantshafsbandalagið sé árásarbandalag, eru svo kjánalegar, að ekki er hægt að bera þær á borð fyrir fólk, sem eitthvað fylgist með því, sem gerist í heimsstjórnmálunum. En þótt bandalagið sé stofnað, — og einkum með því að viðsjár hafa enn vaxið í heiminum, — er það ekki nóg, það þarf að fá því í hendur þau tæki, er geri það meira en orðin tóm, vegna þess að vopnaframleiðslu og hervæðingu er stöðugt haldið áfram í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra. Þess vegna urðu ríkin í Atlantshafsbandalaginu líka að efla hervarnir sínar, og þess vegna hefur Evrópuher verið myndaður undir stjórn Eisenhowers, sem er frægastur allra hershöfðingja úr síðustu styrjöld og ekki aðeins frægur sem hershöfðingi, heldur og sem stjórnmálamaður. Það er dálítið óvanalegt og sýnir hina frábæru hæfileika hershöfðingjans, að hershöfðingi, sem er enn í starfi, sé jafnframt stjórnmálamaður. Það hefur því orðið að efla hervarnir í löndum Atlantshafsbandalagsins, en það þarf enginn að halda, að það sé neinn barnaleikur né verði gert án mikilla fórna og átaka. En þær þjóðir, sem meta mest frelsi sitt, vilja leggja þetta á sig til þess að geta varið frelsi sitt og sjálfstæði, ef á þarf að halda. Ríkin í kringum okkur haf lagt mikið á sig vegna hervarna. Svíar t.d., sem ekki eru í Atlantshafsbandalaginu og enginn mun væna um ástæðulausan stríðsundirbúning, verja 4250 millj. kr. til hervarna hjá sér, en það svarar til um 740 ísl. kr. á mann í Svíþjóð. Það er þannig ekki litið, sem þessi þjóð leggur á síg í varnarskyni. Í Danmörku eru útgjöldin til landvarna áætluð um 1300–1600 millj., sem svarar til 360–400 ísl. kr. á mann í Danmörku. En til samanburðar má nefna það, að eftir þeim upplýsingum, sem beztar er hægt að fá, eru hernaðarútgjöld Sovétríkjanna 1900 ísl. kr. á hvern mann. Það er meira en helmingi hærra en í því ríki, sem ég hef nefnt og hæst er, Svíþjóð. En þessar tölur munu vera byggðar á þeim beztu upplýsingum, sem hægt er að fá um þetta. Svo er verið að tala um, að smáríkin séu að kikna undir álögum vegna hervæðingarinnar. Hvað má þá alþýðan í Sovétríkjunum segja, hefur hún þá ekki ástæðu til að kvarta? Þegar miðað er við þjóðartekjur, ver Danmörk 6%, Noregur og Svíþjóð 5% og England 10% til þessara mála. Þetta er að vísu mikið fé, en þó bókstaflega hverfandi, þegar miðað er við það, sem Sovétríkin eyða í þessu skyni.

Ísland hefur ekkert lagt fram til hervarna eða herkostnaðar. Það var tekið fram, er Ísland gekk í bandalagið, að það hefði engan her, ætlaði engan her að hafa. Það var samt auðsætt, eftir því sem hættan á alheimsstyrjöld jókst, að ekki var hægt að hafa Ísland eitt allra bandalagsríkjanna án allra hervarna. Þá var ekki um annað að gera en semja við eitthvert bandalagsríki okkar um að taka að sér hervarnir hér, og þá var samningurinn frá 5. maí, sem einmitt er hér til umræðu, gerður við Bandaríki Norður-Ameríku. Framlag Íslands var ekki herkostnaður, eins og ég hef rakið á öðrum stað í ræðu minni, heldur að lána land sitt til vistar vinveittum varnarher til þess að tryggja öryggi Íslands. Það kostaði íslenzka ríkissjóðinn ekkert í beinum fjárframlögum. Menn geta litið sjálfir í fjárlögin og séð, að þar er ekki einum einasta eyri varið til hernaðarútgjalda. Ég skal játa, að hver einasti Íslendingur hefði kosið það heldur, að hér væri enginn her, en yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar og sá, sem hugsar um hagsmuni Íslands og metur þá mest, er því samþykkur, að þetta varnarlið sé hér. Ég veit, að engum er ánægja að dvöl erlends hers hér, en það er víst, að það eru minni óþægindi fyrir íslenzku þjóðina að hafa þennan her heldur en að leggja á hana þau miklu útgjöld, sem smáþjóðirnar hafa orðið að taka á sig vegna þessara mála. Ég held, að við Íslendingar þurfum ekki að kvarta, þegar við berum okkur saman við hinar smáþjóðirnar í þessum efnum. Það var eðlilegt, að Bandaríkin yrðu sú þjóð, sem tæki að sér þessar varnir hér á landi fyrir Atlantshafsbandalagið. Íslendingar hafa reynslu af Bandaríkjunum, og sú reynsla er ánægjuleg. Þetta ríki hefur aldrei þröngvað högum okkar á neinn hátt, heldur sýnt okkur í hvívetna skilning og tilhliðrunarsemi. Bandaríkin og Vestur-Evrópa verða að vinna saman. Tvær síðustu heimsstyrjaldir hafa sýnt, að án hjálpar Bandaríkjanna væri Vestur-Evrópa glötuð. Þessi stríð hafa sýnt, að Vestur-Evrópa væri lögð í rústir, ef ekki hefði notið aðstoðar Bandaríkjanna. Eins og það sýndi sig 1917 og 1941, að án aðstoðar Bandaríkjanna hefði Vestur-Evrópa verið glötuð, eins mundi það sýna sig, ef til stríðs kæmi 1951 eða 1952, að Vestur-Evrópa getur ekki komizt af án Bandaríkjanna. Við skulum játa þessar staðreyndir fyrir sjálfum okkur, að Vestur-Evrópa væri komin á vonarvöl, ef Bandaríkjanna hefði ekki notið við. Við hefðum orðið einræðinu að bráð 1941 og yrðum það einnig bráðlega nú án Bandaríkjanna. Allur sá dólgsskapur í garð Bandaríkjanna, sem kemur fram hjá kommúnistum, er einmitt af þessu. Það er alveg víst, að kommúnistar á Íslandi og annars staðar í heiminum beittu ekki áróðursvél sinni svo sem þeir gera gegn þeim, ef svo væri ekki. Þessi beiting áróðursvélarinnar er eðlileg, því að þeir sjá Bandaríkin sem hindrun gegn því, að hinn alþjóðlegi kommúnismi geti flætt yfir Evrópu.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um þetta á þessu stigi málsins og ekki fara út í að ræða einstök atriði samningsins. Ég vil þó benda á, að í niðurlagi 5. gr. samningsins stendur þetta ákvæði: „Ekkert ákvæði þessa samnings skal skýrt þannig, að það raski úrslítayfirráðum Íslands yfir íslenzkum málefnum.“ Ég fyrir mitt leyti vona, að þetta sé hinn rauði þráður samningsins. — Ég vil endurtaka það, að Atlantshafsbandalagið og allt, sem gert hefur verið í sambandi við það, nær ekki tilgangi sínum, ef styrjöld brytist út. En aðstaðan verður þá önnur og betri og samvizkan verður betri, eftir að það hefur verið gert, sem gert hefur verið með stofnun Atlantshafsbandalagsins. Og sigur lýðræðisþjóðanna væri með því gerður tryggari, ef einræðisþjóðirnar legðu út í árásarstyrjöld, en þegar herskarar Hitlers flæddu yfir Evrópu, og þótt þetta kosti átök, þá er ég víss um, að þau borga sig. En við skulum vona, að þessi ríki verði sigruð á annan hátt en með blóðugri styrjöld, að ofbeldið, sem kemur frá Rússlandi, verði sigrað af fólkinu sjálfu, og ég er viss um, að ekkert þeirra ríkja, er að bandalaginu standa, óskar eftir, að til komi annað, og við skulum vona, að þessi ríki verði sigruð á þann hátt.