16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

51. mál, mótvirðissjóður

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er ánægjulegt, að þessari till. miðar áfram og auðsýnt er, að hún muni fá afgreiðslu hér á Alþ., en þarna virðist ekki vera verulegur ágreiningur.

Það er vitanlega ástæða til að ræða það hér og gera nokkra grein fyrir því, hve mikla þörf landbúnaðurinn hefur fyrir þetta fjármagn. En ég ætla ekki að tefja umr. um þetta, enda hafa þau mál nokkuð verið rædd hér á Alþ. og eru áreiðanlega atriði, sem stendur ljóst fyrir flestum þm.

Það, sem gefur tilefni til þess, að ég segi örfá orð, er fsp., sem beint var til mín út af því, sem ég sagði við 1. umr. þessa máls, og var lesinn upp kafli úr ræðu um málið, sem ég hélt þegar málið var fyrst til umr. — Eins og þm. munu hafa tekið eftir, kom það ekki greinilega fram í till., eins og hún lá þá fyrir, og alls ekki í grg., hvort væri fyrst og fremst ætlunin að verja mótvirðissjóði, þegar hann kemur úr þeirri lánaumferð, sem hann nú fer til, til landbúnaðarins að hálfu leyti eða hvort að verulegu leyti sé átt við Marshallféð, áður en því hefur verið ráðstafað í þessari umferð. Ég vil samt skilja þetta svo, að ef afgangur yrði af því fé, sem varið verður til þessara þriggja fyrirtækja, sem nú eru talin í grg., þ. e. Laxárvirkjunarinnar, Sogsvirkjunarinnar og áburðarverksmiðjunnar, þá yrði því fé varið til landbúnaðarins. En eins og reikningarnir standa nú, með þeim aukna kostnaði, sem er vegna þessara fyrirtækja, eftir því sem það hefur verið gert upp, þá virðast því miður ekki líkur til þess, að mótvirðissjóður geri meira en hrökkva til að koma þessum þremur fyrirtækjum í framkvæmd, og verði ekki um fé að ræða, sem er ráðstafað í fyrsta skipti úr sjóðnum og leyfi þarf þess vegna til að ráðstafa. — Hitt er alveg jafnvafalaust atriði, að eftir að fénu hefur verið ráðstafað einu sinni, eins og því nú hefur verið ráðstafað til Sogsvirkjunarinnar, Laxárvirkjunarinnar og áburðarverksmiðjunnar, þarf ekki að leita samþykkis til ráðstöfunar á fénu eftir það, það eru íslenzkir fjármunir, sem íslenzk stjórnarvöld ráðstafa.

Ég ætla svo ekki að tefja þessar umr. Það skiptir mestu máli að fá þessa till. afgreidda, sem er um ákaflega þýðingarmikið mál og ég er glaður og ánægður með að virðist ætla að fá þá afgreiðslu, sem til er ætlazt.