02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (3358)

49. mál, bifreiðavarahlutir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Rang. tók nú að beina ásökunum sínum í aðra átt. Nú viðurkenndi hann, að ekki væri um misgáning hjá þm. að ræða eða þeir hefðu ekki gert sér ljóst, hvað var að gerast. Nú tók hann að beina árásum sínum til sérstakra tegunda þm. og sagði, að ef legið hefðu fyrir mótmæli frá meiri hl. þm., hefði þetta ekki verið gert. Hann var að vísu svo elskulegur að undanþiggja mig og sagði, að ríkisstj. hefði ekki leitað ráða hjá mér, en gaf það hins vegar í skyn, að hún hefði gert það hjá hv. 1. þm. N-M.

Hv. 2. þm. Rang. gaf þær upplýsingar, að eftir að ríkisstj. hefði ráðgazt við suma þm., og þá sennilega aðallega þm. Sjálfstfl., — því að eins og hæstv. atvmrh. (ÓTh) sagði á landsfundi sjálfstæðismanna núna um daginn, þá eru það aðallega þeir, sem hafa ráðið stjórnarforustunni, — þá eru varahlutar til bifreiða settir á bátagjaldeyrislistann. Hvaða hv. þm. eru það hér, sem hefðu fyrst og fremst átt að mótmæla? Er það ekki einmitt hv. 2. þm. Rang.? M. ö. o., það er misgáningur hjá hv. 2. þm. Rang., að hann skyldi ekki mótmæla í vor. Þá hefði ríkisstj. tvímælalaust tekið mótmæli hans til greina. Ég get vel skilið, að hv. 2. þm. Rang. vilji gera tilraun til að leiðrétta þá villu, sem hér hefur verið gerð, en ég verð að vísa því lögbroti, sem hér hefur verið framið, á hendur Sjálfstfl. Við höfum hér á Alþ., án þess að vera spurðir ráða, gefið ráð. Ég stóð upp hér í vor til að lýsa því yfir, að ríkisstj. hefði ekki heimild til að gefa þennan lista út, án þess að leita áður álits Alþ. Hefði 2. þm. Rang. viljað taka þetta til greina í vor, þá var búið að benda honum á það, svo að ég held, að það sitji sízt á honum að vera að kvarta núna. Alþ. er ekki til að ráðfæra sig við, heldur til að taka ákvarðanir. En nú er sá háttur hafður á, að ríkisstj. gefur út reglugerðir og brbl., meira að segja strax og Alþ. er slitið, sem síðan er stjórnað eftir og eru metnar meir en lög sett af Alþ.

Ég skil það vel, að hv. 2. þm. Rang. vilji ekki frekar en hæstv. viðskmrh. ræða þessi mál, því að það verður ekki gert öðruvísi en fram komi, að ríkisstj. hafi framið lögbrot. 2. þm. Rang. sagði áðan, að við værum ekki lögfræðingar, en við erum löggjafar. Með allri virðingu fyrir lögfræðingum þá er það þeirra að túlka l., en ekki setja þau, þó að nú þyki það mestir lögfræðingar, sem geta snúið og teygt l. sem mest sér í vil.

Ég hef spurt hæstv. viðskmrh. í umr. hér á Alþ., hvaða lög það væru, sem fælu í sér heimild fyrir frílistann. Hæstv. viðskmrh. hefur sagt, að það væru l. um fjárhagsráð. Ég hef lesið upp þá grein í téðum l., sem fjallar um innflutning, en hvorki í þeirri gr. né annarri gr. í l. eru nein ákvæði, sem leyfa þetta. Sú gr., sem hér kæmi helzt til mála, er 12. gr. í 2. kafla l., en hún tekur af öll tvímæli í þessa átt, því að í henni segir, að miða beri úthlutun leyfanna við það, að verzlunarkostnaður og gjaldeyriseyðsla verði sem minnst, og reyna beri, eftir því sem unnt er, að láta þá sitja fyrir leyfunum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. M. ö. o., í l. þessum er boðað, að miða beri innflutningsleyfi við þá, sem geta selt ódýrast. En til hvers er bátagjaldeyririnn settur? Til þess að hægt sé að selja sem dýrast. Allar kaupmannaverzlanir og öll kaupfélög eru hindruð í því að flytja þessar vörur inn beint og á sem ódýrastan hátt. Hinn 8. marz í vor þverbraut því ríkisstj. l. um fjárhagsráð.

Hæstv. viðskmrh. hefur sagt: Ja, við í ríkisstj. höfum góða lögfræðinga. — Hins vegar hefur það komið fyrir hér í hv. Nd., að fundizt hefur ákvæði í l., sem brotið hefur í bága við önnur lög, og hefur það ekki fengizt leiðrétt. Við hér á Alþ. vitum ekki, hverjir þessir lögfræðingar eru, og höfum ekki fengið að tala við þá.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að viðskmrh. væri ákaflega hugaður maður, og ég efast ekki um, að svo sé, en hann ætti bara að standa fyrir sínu máli hér á Alþ. Það þarf ekki mikið hugrekki til þess að segja, að heimildin til frílistans standi í þessari og þessari lagagr. En það þarf hugrekki til þess að viðurkenna, að í landsl. sé ekki til nein heimild fyrir frílistanum, og til þess brestur hæstv. viðskmrh. hugrekki.

Hv. 2. þm. Rang. sagði hér áðan, að óþarfi væri að ræða þetta mál frekar. En hann og hans flokkur kemst ekki hjá því, m. a. vegna þess, að þeim berast stöðugt mótmæli frá sínum eigin flokksmönnum.

Hv. 2. þm. Rang. spurði mig, hvers vegna ég hefði ekki fengið ákveðna menn til þess að höfða mál gegn ríkisstj., þar sem ég væri svo sannfærður um, að hér væri um lögbrot að ræða. Ég sagði útvegsmönnum og öðrum, að þetta væri lögbrot, og ég sagði það mönnum, sem hafa með kaupmannaverzlun og samvinnuverzlun að gera. En jafnvel hjá þeim mönnum úr Sjálfstfl., sem ég átti tal við, virtist hugrekkið ekki vera svo mikið til að fara í mál við ríkisstj., að þeir teldu sér það fært. Hvað þýðir að eiga í máli við ríkisstj. um svona mál? Það, að eiga í málaferlum árum saman. Og hvernig er að eiga við dómstólana, þegar við ríkisstj. er að eiga? Hvaða praktiska þýðingu hefði það haft fyrir menn að fara í mál út af þessu, þegar Alþ. kæmi saman 1. okt. og dómar mundu ekki vera fallnir fyrir þann tíma? Það er enginn leikur að fara í mál við ríkisstj., og þeir menn mundu varla standa sérstaklega vel að vígi og vera litnir réttu auga af þeirri ríkisstj., sem veitir einokunargjaldeyrisleyfi og ræður öllum innflutningi. Það er ekki hlaupið að því fyrir menn að ná rétti sínum í þessu landi. Og hv. 2. þm. Rang. spyr, hvers vegna ekki sé höfðað mál gegn ríkisstj. út af þessu. Því valda miður skemmtilegar orsakir, en því miður sannar.

Hv. þm. sagði, að hann byggist við, að ég og fleiri, sem hefðum sömu skoðanir í þessum efnum, mundum hjálpa til þess að fá þessar vörur frjálsar úr þeim viðjum, sem Sjálfstfl. hefði ólöglega hneppt þær í. Það má hv. flm. vita, að ég — og sjálfsagt meiri hl. hv. þm. — mun hjálpa til þess að leysa þær úr viðjum. En það má vel vera, að meira þurfi en þáltill. til þess að fela ríkisstj. að gera þetta, því að það hefur komið fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að lítið sé gert með slíkar þáltill. Ég er hræddur um, að það þurfi lög til þess að banna hæstv. ríkisstj., og þó sérstaklega ráðh. Sjálfstfl., að hafa annað eins og þetta í frammi.

Vona ég, að hv. þm. láti sér þetta að kenningu verða, a. m. k. þeir sem kenndir voru við misgáning í vor, og gangi þannig frá þessu máli, að ekki verði möguleiki á misgáningi hjá hæstv. ríkisstj. hér eftir.