02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3379)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. þm. (BrB) var kennslumálaráðh. á þeim árum er þessi löggjöf var sett, og er því ekkert undarlegt, þó að hann segi hér nokkur orð um þá till., sem hér er fram borin. En eitt var það í ræðu hv. þm., sem ég álit, að sé byggt á misskilningi á þessari till., og það alveg furðulegum misskilningi. Hv. 1. landsk. þm. sagði, að till. væri í raun og veru um afnám skólakerfisins frá 1946. Þetta er vitanlega fjarri því rétta. Það er á engan hátt haggað við því skólakerfi, sem þá var sett. Við gerum hér ekki till. um að leggja niður neina skóla, sem nú starfa, né að breytt verði fyrirkomulagi. Það getur hver skóli tekið við af öðrum eftir sem áður. Við förum aðeins fram á, að lög þessi verði gerð frjálslegri en þau nú eru. Við leggjum það ekki heldur til, að skólaskylda í barnaskólum sé afnumin, þó að skólaskyldutíminn verði styttur. — Það kemur einnig fram í okkar till., að við teljum, að ekki eigi að gera minni kröfur um þekkingu barna við barnapróf en gert hefur verið. Við gerum ekki till. um að fækka skólum, og skólar eiga að vera til fyrir þá, sem vilja þar nema og fá fræðslu, bæði bóklega og verklega menntun. Hins vegar fæ ég ekki séð, hvað er unnið við það að þvinga menn til skólavistar.