21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3425)

89. mál, leturborð ritvéla

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þetta mál var flutt sem frv. í Nd. í fyrra og var vísað til nefndar, en fékkst þar ekki afgreitt. Ekki veit ég, hvað valdið hefur, en varla hefur n. fundizt, að hér væri um slíkt stórmál að ræða, að ekki væri hægt að afgreiða það á einu þingi. Hitt er líklegra, að henni hafi fundizt það þess konar smámál, sem maður getur ekki verið að hugsa mikið um og gleymir síðan. En vélritunarstúlkur og aðrir, sem hafa atvinnu við vélritun, geta fullvissað hv. alþm. um, að svo er ekki. Ósamræmið veldur ótrúlega miklum erfiðleikum, ekki sízt fyrir þá, sem kunna hina svonefndu blindskrift, en bitnar ekki nærri eins hart á okkur skussunum, sem pikkum með einum fingri.

Í þetta sinn fylgir málinu bréf frá Elís Ó. Guðmundssyni, og mega hv. alþm. trúa orðum hans, því að fáir menn hafa meiri reynslu í þessum málum en hann sakir margra ára kennslu í vélritun. Ég vil vekja athygli á því, að Elís hefur það eftir innflytjendum ritvéla, að þeir fagni þessari till. Hér vantar því ekkert nema að hafizt sé handa. Eðlilegast væri, að ráðh. hefði forgöngu í málinu og kallaði fyrir sig alla þá, er flytja inn ritvélar, og legði fyrir þá að samræma innflutninginn. — Ég mun nú ekki fara um þetta fleiri orðum, en ef hæstv. forseta þykir ástæða til að fresta umr., vil ég leggja til, að málinu verði vísað til allshn.