08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (3522)

46. mál, mæðiveikivarnir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þessi svör í sambandi við mína fyrirspurn. Mér þykir vænt um að heyra, að hann hefur gert ráð fyrir, að tvöfaldaðar verði þessar girðingar á Vesturlandi, sem sýnir náttúrlega, að sauðfjársjúkdóman. hefur treyst allt of mikið á fjárskiptin, án þess að gera sjálfsagðar ráðstafanir til þess að halda þessum girðingum við, eins og var áður en skipt var um fé. Sýnir það of mikla bjartsýni eða of mikla vanrækslu hjá n., sem fór með svona stórt mál fyrir þjóðina, enda lutu orð hæstv. ráðh. að því, að honum fyndist forráðamenn þessara mála ekki hafa sýnt áhuga um þetta, eins og vænta hefði mátt, þar sem hann sagði, að ekki stæði á honum að framkvæma það, sem þeir impruðu á í n., og hann þyrfti að impra á ýmsu í þessum málum. Og þá finnst mér, að ráðh. ætti að taka þetta til athugunar, hvort ekki væri hægt að finna aðra betri 5 bændur á landinu í þessa n. heldur en þessa, úr því að svo er komið sem komið er, hvort það er fyrir áhugaleysi hjá n. eða slysni. Það má einskis láta ófreistað til þess að bæta hér úr. Það er um svo mikið mál að ræða.