21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (3594)

184. mál, mannahald við vöruskömmtun og verðlagseftirlit

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Mér hefur þótt ástæða til að óska upplýsinga um mannahald við þessa starfsemi, vöruskömmtun og verðlagseftirlit. Vöruskömmtun er nú að mestu leyti úr sögunni. Þó er enn ekki búið að afnema skömmtun á tveim vörutegundum: smjörlíki og smjöri. Mun þetta vera vegna þess, að vörur þessar eru lækkaðar nokkuð í verði til neytenda með fjárframlögum úr ríkissjóði, og mun það gert í því skyni að koma í veg fyrir þá vísitöluhækkun, sem verða mundi, ef þessi niðurgreiðsla ætti sér ekki stað. Nú er það öllum kunnugt, að það er mikil fyrirhöfn við þessa skömmtun, ekki aðeins hér í Reykjavík hjá yfirvöldunum í höfuðstaðnum, heldur um allt landið, þar sem bæjarstjórnir og hreppsn. fá í sínar hendur fjórum sinnum á ári skömmtunarmiða til útdeilingar til allra landsmanna. Þess vegna vildi ég spyrjast fyrir um, hvort ekki mundi vera fyrirhafnarminna og kostnaðarminna að koma þessum aurum til manna með öðrum hætti. Að minnsta kosti væri þó mögulegt að gefa út skömmtunarseðla aðeins einu sinni á ári, sem mundu gilda fyrir allt árið, í staðinn fyrir að senda þessa pappírsseðla ársfjórðungslega um allt land.

Mér þætti fróðlegt að vita, hve margir menn vinna við þessa skömmtun, og hve miklu nema launagreiðslur til þeirra, og einnig, hve margir menn vinna við verðlagseftirlitið. Þessu eftirliti var aflétt á mörgum vörutegundum á þessu ári. En eftirliti er enn haldið uppi á nokkrum vörutegundum, og mér þætti fróðlegt að vita, hve margir menn vinna nú við það eftirlit, til samanburðar við það, sem áður var haft við þessi störf.