04.01.1952
Sameinað þing: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (3672)

Innflutningsréttindi bátaútvegsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur atriði viðvíkjandi ræðu hæstv. atvmrh.

Hæstv. atvmrh. sagði, að innflutningsverzlunin væri frjáls. Ég hef lagt þann skilning í frjálsa innflutningsverzlun, að það væri þegar hvaða aðili sem væri mætti flytja til landsins vörur og gæti fengið keyptan til þess gjaldeyri á opinberu gengi. Ég býst við því, að flestir verði mér sammála um þetta. Bátavöruinnflutningurinn er auðvitað ekki frjáls. Þær vörur má ekki hver sem vill flytja til landsins.

Hagnaðurinn af innflutningi þeirrar vöru byggist einmitt á því, að hann er ekki frjáls. Þess vegna er hægt að selja leyfin með álagi, og ætti hæstv. ráðh. ekki að vera að þræta um þetta. — Það er rétt, sem hann sagði um aðstöðu þeirra, er kaupa fiskinn fyrir fast verð, að þeir bera söluáhættu. Reynslan af þessu bátagjaldeyrisskipulagi er samt þannig, að það færir milliliðunum meiri hagnað en útgerðarmönnum, og mótmælti hæstv. ráðh. því í sjálfu sér ekki.

Ég ætlaðist ekki til, að neinn skildi orð mín þannig, að ég teldi stjórnina hafa brotið milliríkjasamninga með bátagjaldeyrisskipulaginu. Slíkt er ekki álit mitt, enda á þess háttar auðvitað ekki að heyrast frá hinu háa Alþingi. En ég sagði og legg áherzlu á, að með þessu er gengi krónunnar lækkað óbeint, svo að með aðgerðum þessum er stefnt að nýrri, almennri gengislækkun.