13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

6. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta frv. til athugunar eins og sjá má á nál. á þskj. 389. N. hefur auk þess kallað á sinn fund skipaskoðunarstjóra og Viggó Jessen vélaeftirlitsmann og átt viðræður við þá, en það er upplýst af hæstv. forsrh., að þeir hafi verið ríkisstj. til ráðuneytis um þau togarakaup, sem þetta frv. fjallar um.

Þetta frv. var í fyrstu borið fram til staðfestingar á brbl. frá 9. apríl í ár, en við meðferð málsins í Nd. bar hæstv. forsrh. fram brtt. við frv., sem gera það viðtækara en brbl. voru. Samkv. þessum brtt. er stj. heimilað, til samræmis við ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur þegar gert í þessu efni, að ábyrgjast lán til kaupa á nokkrum gömlum togurum vegna bæjarfélaga og sjávarþorpa, til þess að bæta úr atvinnuástandinu á þessum stöðum.

Það er sameiginlegt álit fjhn., að staðfesta beri þessar ráðstafanir ríkisstj., en hvað forsögu málsins snertir kom fram gagnrýni á gerðum ríkisstj. í þessu efni og sérstaklega frá hv. þm. Barð., enda skrifar hann undir nál. með fyrirvara, sem mun frekar lúta að meðferð málsins heldur en því, að hann hafi sérstöðu að því er varðar samþykkt frv.

Ég skal taka það fram, að n. fékk ekki ýkja mikinn fróðleik frá þeim mönnum, sem hún kallaði á sinn fund og átti viðræður við. Þeir töldu sig ekki muna, hvað staðið hefði í álitsgerðum þeim, sem þeir hefðu sent ríkisstj. viðvíkjandi þessu máli. Ég gerði tvær tilraunir til þess að fá þessi skjöl til athugunar, en það virðist svo sem þau hafi farið milli ráðuneyta. (Forsrh.: Þau liggja í forsrn.) Það kann að vera. Mér var bent á það að síðustu, þegar þeirra hafði verið leitað bæði í atvmrn. og fjmrn., en það komst ekki í verk að ná þeim þar.

Hæstv. forsrh. gerði grein fyrir þessu máli við 1. umr., og sé ég ekki, að það mundi upplýsa málið frekar, þó að ég hefði um það fleiri orð, en ég vil endurtaka, að n. — a.m.k. fjórir nm. — leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.