18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

(Fjmrh.:

Það sýndi sig, hvernig það var.) Það sýndi sig, að álagningin hækkaði ekki vegna veltuskattsins. Þessi skattur þýddi, að álagning á vöruna minnkaði. Og hann kom ekki á almenning. Þetta veit hæstv. ráðh. vel. Og að bera þennan skatt saman við söluskattinn er fjarstæða.

Í öðru lagi talaði hæstv. ráðh. um söluskattinn og iðnaðinn. Það gæti ekki verið, að söluskatturinn mundi valda því, að iðnaðurinn myndi niður vegna aðgerða ríkisstj. Ég hef aldrei haldið því fram, að aðeins söluskatturinn mundi valda því, að iðnaðurinn hryndi saman, heldur aðrar ráðstafanir þessa ráðh., sem valda fátækt hjá fólki — ekki aðeins í Reykjavík, heldur um allt landið, og svo lánsfjárkreppan, sem enn fremur er skipulögð af þessari ríkisstj. En söluskatturinn er stórt atriði. Það þýðir ekki að segja, að skattur, sem nemur allt að 15%, hafi enga þýðingu fyrir iðnaðinn hér í Reykjavík. Hvaða iðnrekanda er hægt að telja trú um það. að enga þýðingu hafi fyrir afkomu hans fyrirtækis, hvort hann þarf að borga allt að 15 % af vöru eða ekki? (Fjmrh.: Það er ekki svo mikið.) Það getur komizt upp í 15%.

Þá er spurningin um, hvort ríkissjóði er skylt að greiða lögboðið framlag til skólanna. Hæstv. ráðh. getur ekki neitað því, að ríkissjóði er skylt að greiða þetta framlag samkvæmt lögum. (BSt: Ekki þegar féð er ekki veitt á fjárlögum.) Það er það, sem hæstv. viðskmrh. vildi fá í lög í fyrra, en var neitað um það. Hann vissi, að skylt var að greiða þetta. En þetta hefur ekki verið gert. Það er annað, að skyldan hefur ekki verið uppfyllt. Ég gerði allt, sem í mínu valdi stóð, til þess að þetta lögboðna framlag væri hækkað. En ég réð ekki yfir ríkisreikningunum þá. Og að því leyti var þetta lögboðna framlag ekki greitt að fullu, og þá var ríkissjóður laus við þá skyldu, sem honum ber samkvæmt lögum.

Þá var fjórða atriðið, að ráðh. fullyrti enn einn sinni, að það mundi þýða stórkostlegan greiðsluhalla á fjárlögum, ef söluskatturinn félli niður, og það mundi draga verulega úr framkvæmdum. Það hefur enginn haldið því fram. að það ætti að afgreiða fjárlögin með rekstrarhalla. En ég held ekki fram, að á þessum tíma sé nauðsynlegt að afgreiða fjárlögin endilega greiðsluhallalaus. En það hefur ekki nokkur haldið því fram, að það ætti að afgreiða þau með rekstrarhalla. Hefur það komið í ljós við afgreiðslu fjárlaganna. Og það er engin þörf, úr því sem komið er, að afgreiða þau nú fyrr en eftir nýár. En það mundi ekki standa á mér að taka það til athugunar, hvernig ætti að jafna niður, annaðhvort með því að draga úr útgjöldum, sem ég er sannfærður um, að hægt er með góðum vilja, eða með því að draga úr verklegum framkvæmdum eða þá með því að finna einhverja nýja tekjuöflun, sem áreiðanlega þyrfti ekki að vera nema lítið brot af söluskattinum. En ég hef margsýnt fram á, að þessi söluskattur er ranglát og skaðvænleg tekjuöflun.