19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég flyt brtt. á þskj. 511. — Það er auðséð, að Ed. hefur ekki viljað afgreiða frv. eins og það var samþ. hér í þessari deild, og var þó sú samþykkt, sem hér var gerð um að bæta fjárum gr. inn í frv., þar sem ákveðið var, að 1/4 af söluskattinum skyldi renna til bæjar- og sveitarfélaga, gerð með hag bæjar- og sveitarfélaga fyrir augum. Ég býst við, að enginn hv. dm. áliti, að nokkrar aðrar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að bæta úr þörfum bæjar- og sveitarfélaganna á auknum tekjustofnum. Þegar þessu frv. var breytt hérna í Nd., þá var það vegna þess, að þm. álitu, að bæjar- og sveitarfélögin þyrftu þess með á næsta ári að fá hluta af söluskattinum. Enn fremur var það gert með það fyrir augum að hnekkja nokkuð þeirri tilhneigingu ríkisstj. að framlengja öll lög um tekjuöflun til ríkissjóðs. — Ég hef þess vegna leyft mér að taka aftur upp þær greinar, sem samþykktar voru við 2. umr. hér í þessari deild, og legg til, að þær verði settar inn í frv. aftur, og þarf ég ekki að rökstyðja þetta nánar, þar sem ætla má, að meiri hl. deildarinnar, sem áður studdi þessa kröfu, muni halda fast við sína stefnu.

Þá lýsti hæstv. fjmrh. því yfir, að innan ríkisstjórnarinnar hefði orðið samkomulag um nokkrar greiðslur. Hann lýsti því yfir, að ríkissjóður sem hefur e.t.v. tugi milljóna króna í tekjuafgang, muni nú láta svo litið að greiða hluta af sínum skuldum, og finnst það víst fáum þakkarvert. Þar af eru 5 milljónir króna upp í ógoldin framlög til skólabygginga. En í lögum segir beinlínis, að þetta framlag skuli ríkið greiða úr sínum sjóði. Þetta stendur í lögunum, og það er ekki nokkur heimild fyrir ríkið að fresta þessum greiðslum. Það þýðir, að ríkið hefur engan rétt til að fresta þessum greiðslum. Það stendur beinlínis í lögunum, að ríkissjóði „beri“ að greiða þetta framlag. Það er vitað, að ríkissjóður hefur líka skuldað Landsbanka Íslands, og það hefur verið látið sitja fyrir að greiða þær skuldir. Það væri gott að fá það upplýst frá hæstv. ráðh., hvað mikið ríkissjóður er búinn að greiða af skuldum sínum við Landsbankann, sem græðir 20 millj. kr. á ári. Honum eru greiddar skuldirnar. En fátæk bæjarfélög víðs vegar á landinu geta ekki náð inn útsvörunum hjá meðlimum sínum vegna þess, að ríkisstj. og bankarnir skipa svo fyrir, að það skuli greiða milljónir tuga af skuldum ríkisins við Landsbankann, án þess að ríkið greiði skuldir sínar við bæjar- og sveitarfélögin. Og svo kemur hæstv. fjmrh. fram á Alþ. og hótar að segja af sér, ef bæjar- og sveitarfélögin fái ofur lítinn hluta söluskattsins, en tilkynnir, að ríkissjóður muni greiða eitthvað smávegis af skuldum sínum til bæjar- og sveitarfélaga vegna skólabygginga.

Mér finnst, að það þurfi nokkra bíræfni til að koma og bjóða hv. deild upp á það loforð ríkisstj., að hún muni nú á næsta ári greiða upp í það, sem hún skuldar sveitarfélögunum, á sama tíma og búið er að greiða Landsbankanum sínar skuldir. Það hefði verið eðlilegt, að ríkisstj. hefði borgað allar sínar skuldir við bæjar- og sveitarfélögin fyrst, látið þær sitja fyrir. — Ég vil óska þess, að fjmrh. gefi upplýsingar um það, hve mikið ríkissjóður hefur greitt á þessu ári upp í skuldir sínar við Landsbankann og hvort hæstv. ríkisstj. muni hugsa sér að greiða meira af þeim skuldum á næsta ári, þannig að þingmenn gætu myndað sér nokkra hugmynd um hlutfallið þar á milli. Það er mesti óþarfi fyrir ríkið að borga til sinna eigin fyrirtækja, sem græða 20 millj. kr. á ári. Það virðist eðlilegra að láta bæjar- og sveitarfélög sitja fyrir um þessar greiðslur.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. deild verði við minni till. um að færa frv. aftur í sama horf og það var áður afgreitt hér í Nd. Loforð hæstv. ríkisstj. um að greiða ofur lítið borð af sínum skuldum er að vísu ánægjulegt, þótt það sé hins vegar skylda ríkisins að greiða þessar skuldir alveg upp.