13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Brynjólfur Bjarnason:

Góðir hlustendur. Í þessum umræðum hafa fulltrúar sósíalista lýst ýtarlega árangrinum af stefnu afturhaldsflokkanna þriggja frá árinu 1947 og fram til þessa dags.

Við skulum draga saman aðalatriðin:

Mörg mikilvirkustu atvinnutækin, sem komið var upp á nýsköpunarárunum, liggja ýmist ónotuð eiga hafa orðið að draga mjög úr starfsemi sinni. Vélbátaflotinn er aðeins nýttur að nokkru leyti. Togararnir hafa verið látnir sigla með aflann óunninn á erlenda markaði. Fiskiðjuver, frystihús og verksmiðjur standa ónotuð. Iðnfyrirtæki, sem framleiða fyrir innlendan markað, hafa orðið ýmist að draga mjög saman seglin eða stöðva rekstur sinn með öllu. Byggingarframkvæmdir eru stöðvaðar að mestu. Afleiðingin er mikið og almennt atvinnuleysi, sem minnir á kreppuárin fyrir stríð. Á einu ári hefur tala iðnverkafólks í Reykjavík minnkað um nálega helming og á Akureyri um tuttugu og fimm af hundraði. Enn alvarlegra er þó atvinnuleysið í öðrum kaupstöðum og kauptúnum víðs vegar um land. Sums staðar er ástandið þannig, að allur þorri verkafólks fær ekki handtak að vinna mánuðum saman. Í ágústmánuði reyndist ástandið á Bíldudal þannig, að meðaltekjur þeirra, er til skráningar komu, voru 250.00 kr. til framfærslu hvers einstaklings. Þetta gefur ekki aðeins mynd af ástandinu á Bíldudal, heldur í fjölmörgum kaupstöðum landsins. Tilraunir hafa verið gerðar til þess að hagnýta þetta ástand til pólitískrar skoðanakúgunar í stórum stíl.

Frá því að stjórn Stefáns Jóhanns tók við veturinn 1947, hefur verðlag nálega tvöfaldazt samkvæmt vísitöluútreikningi. Frá sama tíma og þar til í vor, áður en verkföllin hófust, hafði kaupmáttur launanna minnkað sem svarar því, að tímakaup Dagsbrúnarmanna hefði verið lækkað úr kr. 9.24 niður í kr. 6.61, ef miðað er við gömlu vísitöluna. Talið í dollurum hafði það lækkað um meira en helming.

Í Reykjavík búa um 2200 manns, þar af 900 börn, í bröggum, auk alls þess fjölda, sem býr í öðrum íbúðum, sem ekki geta talizt mannabústaðir. Og efnahagslegu sjálfstæði okkar er nú svo komið, að við fáum ekki að byggja hús yfir okkur nema með leyfi erlendra valdamanna.

Tollar og neyzluskattar hafa hækkað úr 50 millj. árið 1946 í 228 millj. samkvæmt fjárlagafrv. því, sem nú er til umræðu, eða meira en fjórfaldazt. Þeir nema nú um átta þúsund krónum til jafnaðar á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Í stuttu máli: Af völdum þeirrar stefnu, sem fylgt hefur verið undanfarin ár, er nú „að skella yfir íslenzkt atvinnulíf verri kreppa en hin alræmda heimskreppa 1931. Það gerist, þótt nú séu afurðir okkar mjög auðseljanlegar á ágætu verði og framleiðslutæki eigum við nú betri og fullkomnari en nokkru sinni fyrr“, eins og Ásmundur Sigurðsson komst að orði í nefndaráliti sínu. Þetta eru staðreyndir, sem enginn af fulltrúum Marshallflokkanna hefur treyst sér til að vefengja í þessum umræðum. En samt eru þeir ánægðir með sjálfa sig — eins og fram kom í ræðu Hermanns Jónassonar. Hann var mjög hreykinn af, að enn skuli þó vera einhverjar framkvæmdir í landinu þrátt fyrir ríkisstj., enn skuli vera lagðir vegir, byggðar nokkrar brýr og jafnvel nokkur hús á víð og dreif.

Og hvað eigum við í vændum? Núverandi valdhafar virðast byggja allar vonir sínar á því, að ekkert lát verði á vigbúnaðinum í heiminum og að á meðan sé okkur borgið sem niðursetningi Bandaríkjanna, sem þurfa á landi okkar að halda fyrir herstöð og vígvöll í komandi stríði. En við Íslendingar ættum ekki að vera búnir að gleyma því, að „þraut er að vera þurfamaður“ — og ekki síður þótt hreppsnefndin sé vestur í Washington. Á miðju næsta ári fellur Marshallhjálpin niður. Ef von mannkynsins rætist og hægt verður að afstýra styrjöld, þá verður ekki hægt að halda vigbúnaðarkapphlaupinu áfram nema um takmarkaðan tíma. Og um leið er skollin yfir þann auðvaldsheim, sem Ísland hefur tengt öll örlög sín við, ægilegasta viðskiptakreppa í sögu hans. Íslenzkar afurðir verða óseljanlegar í þeim löndum, sem valdhafarnir hafa gert okkur efnahagslega háða. Og ef við horfum lengra fram í tímann, — hvers konar framtíð erum við að búa komandi kynslóðum? Gerum fyrst ráð fyrir, að hamingjan gefi okkur frið. Vinir okkar, sem ríkisstj. elskar svo mjög, að hún er reiðubúin að fórna lífi íslenzku þjóðarinnar fyrir þá, sækja á fiskimið okkar með sívaxandi flota og tækni, sem getur þurrausið hin beztu fiskimið á tiltölulega skömmum tíma. Þeir banna okkur að friða uppeldisstöðvar fisksins. Þegar við gerum hógværar tilraunir til þess að færa lítils háttar út landhelgina, þar sem þeir hafa minnstra hagsmuna að gæta, þá skipa þeir okkur að láta þá ákvörðun ekki koma til framkvæmda. Og ríkisstj. hlýðir í auðmýkt. Við fellum þungan dóm yfir liðnum kynslóðum fyrir að hafa eyðilagt skógana. Hvað munu þá komandi kynslóðir segja um okkur, sem erum að kippa grundvellinum undan sjálfu lífi þjóðarinnar með því að leyfa, að fiskistofninum sé tortímt? Og hvernig erum við svo viðbúnir að hagnýta aðrar auðlindir landsins, ef sjórinn bregzt? Ef við hagnýttum vatnsorku landsins t.d. til þess að koma upp áburðarframleiðslu í stórum Stíl, þá gætum við framleitt útflutningsverðmæti, sem numið gætu hundruðum milljóna króna árlega og öruggur markaður er fyrir. Þetta er okkur bannað. Við eigum nógar auðlindir, en okkur er bannað að hagnýta þær. Stefnan er ákveðin af „vinunum“ vestan hafs og framkvæmd af íslenzkum stjórnarvöldum.

Ég hef nú lýst því í fáum dráttum, hvert núverandi ríkisstj. leiðir okkur, ef hamingjan verður okkur hliðholl og við fáum að halda friði. En ef örlög okkar verða eins og til er stofnað og þriðja heimsstyrjöldin brýzt út, hvað eigum við þá í vændum?

Íslenzka ríkisstj. og allir þrír stuðningsflokkar hennar í utanríkismálum — Alþýðuflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn — hafa afhent Bandaríkjamönnum ótakmörkuð yfirráð yfir íslenzku landi til stríðsundirbúnings. Við höfum orð utanrrh. fyrir því, að rætt hefur verið um að koma einnig upp íslenzkum her. Taldi hann, að ef við ættum að standa Norðmönnum á sporði, yrðum við að koma upp 12 þús. manna her og verja 90 millj. kr. á ári til vígbúnaðar. Þetta hefur verið staðfest í erlendum blöðum og talið, að framlag Íslands ætti að vera 10–18 þús. manna her. Það er ekki farið dult með, hvaða hlutverk Íslandi er ætlað í komandi styrjöld. Því hefur verið marglýst yfir af valdamönnum Atlantshafsbandalagsins, að kjarnorkustöðvar á norðlægum breiddargráðum væru fyrirhugaðar á Bretlandi og Íslandi. Nú eru í undirbúningi í Englandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að slíkar stöðvar verði notaðar til árása þaðan. Þetta hefur verið knúið fram af brezku þjóðinni, sem óttast tortímingu. Það stóð ekki á svarinu frá Bandaríkjunum. Edwin Johnson, meðlimur kjarnorkunefndar Bandaríkjaþings, lýsti því yfir 12. nóv., að engin ástæða væri til þess að setja England í hættu fyrir óvinaárás, stöð til kjarnorkuárása væri miklu betur sett á Íslandi. Frá sjónarmiði þessara elskulegu vina okkar munar ekki mikið um einn blóðmörskepp í sláturtíðinni. Þeim finnst það litil fórn, þó að þessum fáu sálum, sem Ísland byggja, væri eytt í kjarnorkustyrjöld. Ég geri líka ráð fyrir, að núverandi valdhöfum okkar mundi finnast það mikil upphefð, ef íslenzk a þjóðin yrði útvalin til þess að fórna sér fyrir siðmenninguna, en svo heitir auðvald og fasismi Bandaríkjanna á máli þeirra. Svo mikið er víst, að ekki hafa þeir fundið ástæðu til að gera neina athugasemd við yfirlýsingu hins ameríska valdamanns:

Bandaríkjamenn leggja mikla stund á að lýsa því fyrir almenningi, hvernig þeir ætli að heyja næsta stríð. Einhver kjarnyrtasta lýsingin birtist í forustugrein blaðsins Washington Times Herald. Hún hljóðar svo: „Við skulum senda flugvélar upp í 40 þúsund feta hæð, hlaðnar kjarnorkusprengjum, sýklum og trinitrotoluoli, til þess að drepa börnin í vöggunni, gamalmennin á bæn og verkamennina að starfi.“ Við lifum í sjúkum heimi, og það kunna að vera til Íslendingar, sem telja slíkar hernaðaraðgerðir sjálfsagðar gegn þjóðum, sem búa við kommúnistiskt skipulag. Að minnsta kosti var mönnum hótað atvinnumissi og útskúfun, ef þeir skrifuðu undir mótmæli gegn notkun kjarnorkuvopna. Þessa afstöðu rökstuddi Morgunblaðið með því, að Bandaríkjamenn ættu kjarnorkusprengjur, en Rússar ekki. En það er líka önnur hlið á þessu máli, sú, sem að okkur snýr. Eftir að nokkrar slíkar árásir hafa verið gerðar frá Íslandi, þá held ég, að ekki sé of mikið sagt, að við megum búast við því, að Reykjavík og raunar öll byggðin við Faxaflóa verði ein rjúkandi rúst.

Bandarísku flokkarnir halda því fram, að herstöðvar Bandaríkjanna bæði hér á landi og annars staðar séu aðeins til varnar, með þeirri röksemd, að það sé alveg ómögulegt að hugsa sér, að Bandaríkin heyi árásarstyrjöld. Til þess að þeir geti gert sér vonir um, að einhver trúi þessu, held ég, að þeir ættu að byrja á því að banna alla kennslu í mannkynssögu í skólum landsins. Þeir, sem hafa lært eitthvað lítils háttar í sögu, eru ekki allir búnir að gleyma árásum Bandaríkjanna á Hawaiieyjar, Haiti, Kúbu, Niearagua og Fllippseyjar, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Enn er í fersku minni innrás Bandaríkjanna í Sovétríkin 1918–19, sem Bretland, Frakkland og 11 önnur ríki tóku einnig þátt í. En kannske maðurinn, sem nú situr í forsetastóli Bandaríkjanna, sá, sem lét varpa kjarnorkusprengjum yfir Hiroshima og Nagasaki og hefur lýst því yfir oftar en einu sinni, að í næsta skipti muni hann láta varpa enn þá ægilegri sprengjum, sé líklegur til að gerast verndarengill friðarins og tryggja það, að Bandaríkin geri aldrei framar árás? Er þá rétt að athuga, hvað Bandaríkin og aðrir samherjar okkar í Atlantshafsbandalaginu hafa aðhafzt í stjórnartíð hans. Hollendingar hafa farið með stríð á hendur Indónesíu og Frakkar gegn Indókína, hvorir tveggja með stuðningi Bandaríkjanna. Bretar heyja nýlendustríð á Malakkaskaga og hafa lagt undir sig egypzkt land með hervaldi. Bandaríkin hafa beitt hervaldi gegn Kína, lagt undir sig kínversku eyjuna Formósu og kastað sprengjum yfir kinverskar borgir, að ógleymdri innrásinni í Kóreu. Eða kannske Kóreumenn hafi gert innrás í Bandaríkin? Undir forustu hins kjarnorkuveifandi varðengils friðarins hefur verið komið upp hring herstöðva umhverfis Sovétríkin. Og heima fyrir eru valdamenn Bandaríkjanna ekki myrkir í máli um það, til hvers á að nota þessar stöðvar. 23. ágúst 1950 lýsti Matthew flotamálaráðherra Trumans því yfir í ræðu í Boston, að Bandaríkin ættu ekki að hika við að hefja árásarstríð „í friðarins þágu“.

Það hafði ekki heldur verið rætt lengi um varnarsamninginn á Alþingi áður en gríman datt af andlitum forsvarsmanna hans. Einar Olgeirsson bar fram tillögu um, að samningurinn skyldi úr gildi fallinn, ef Bandaríkin gerðu árás. Þessa tillögu felldu amerísku flokkarnir á Alþingi. Þeir greiddu atkvæði gegn henni allir með tölu. Og hver haldið þið, að rökin hafi verið? Þau voru þessi: Það er óhugsandi, að Bandaríkin heyi árásarstríð. Þess vegna má ekki taka fram, að stöðvarnar skuli ekki notaðar til árása. — Það er ótrúlegt, en satt, að slíkum rökum skuli beitt á málþingi fullorðinna vitiborinna manna. Eða þá mannfyrirlitningin, sem í þessu felst gagnvart þeirri þjóð, sem ætlað er að taka slík „rök“ fyrir góða og gilda vöru. Þegar Ísland gerðist þátttakandi í Atlantshafsbandalaginu, var því lýst yfir, að ekki kæmi til mála, að herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum. Hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, sagði þá í nefndaráliti, að slík yfirlýsing væri lítils virði, ef hún væri ekki tekin í samninginn sjálfan. Því var hafnað með sömu rökum og tillögu Einars Olgeirssonar nú. Hæstv. ráðh. reyndist sannspár. Nú eru komnar hér herstöðvar á friðartímum með samþykki þessa sama ráðh., Hermanns Jónassonar. Þegar svo við þetta bætist yfirlýsing Edwin Johnsons um, að Ísland eigi að verða kjarnorkustöð, og yfirlýsing amerísks flotamálaráðh. um, að Bandaríkin eigi ekki að hika við að hefja árásarstríð, þá er ekki um að villast. Forustumenn amerísku flokkanna vita, hvað þeir eru að gera. Vitandi vits hafa þeir leyft að koma hér upp herstöðvum til þess að hefja árás og varpa dauða og tortímingu yfir þjóðir, sem við eigum engar sakir við. Vitandi vits eru þeir að fórna Íslandi og íslenzku þjóðinni á altari amerískrar heimsvaldastefnu.

Þetta var þó enn betur staðfest í meðferð málsins í efri deild. Finnbogi R. Valdimarsson flutti brtt. við frv. um staðfestingu hervarnarsamningsins, þess efnis, að herstöðvar á Íslandi mætti aðeins nota til varnar, frá þessum stöðvum skyldi óheimilt að gera árás, nema árás hefði áður verið gerð á landið. Enn fremur skyldi óheimilt að gera árás með kjarnorkusprengjum frá stöðvum á Íslandi, nema Ísland hefði áður orðið fyrir slíkri árás. Allar þessar tillögur felldu þingmenn amerísku flokkanna þriggja. M.ö.o., samkvæmt samningum við Bandaríkin skulu þau hafa ótakmarkaða heimild til að hefja árás að fyrra bragði — einnig með kjarnorkuvopnum — frá stöðvum á Íslandi. Hitt er svo annað mál, að það eru aðeins bandarískir stjórnmálamenn, sem hafa ráð á því að tala svona hreinskilnislega um árásarstríð í sínum hóp. Allur styrjaldarundirbúningur er jafnan dulbúinn sem varnir. Þess vegna þarf að búa til „hættu“ til þess að sætta þjóðirnar við þær byrðar, sem á þær eru lagðar, það líf, sem er örbirgð í dag og fyrirheit um blóð og tár á morgun. Þess vegna er amerísku flokkunum á Íslandi fyrirskipað að þrástagast á því, að okkur sé ógnað af þjóðum, sem aldrei hafa sýnt okkur annað en vináttu. Þið heyrðuð ræðu hæstv. utanrrh., Bjarna Benediktssonar. Þetta var ágætt sýnishorn af stríðsæsingaræðum þeim, sem framleiddar eru í bandarískum áróðursverksmiðjum, og var þó þessi í flokki hinna hógværari. Vitanlega er svona tal langt fyrir neðan það að vera rökræðuhæft, en það er rétt að taka það til athugunar sem þjóðfélagsfyrirbæri. Svona ræður eru ekkert annað en einn þátturinn í hinu svokallaða sálfræðilega stríði, sem er mikið rætt í amerískum blöðum og hermálatímaritum og Bandaríkin verja til ótöldum milljónum dollara. Tilgangur þess er að æra og trylla þjóðirnar, gera þær örvita af hræðslu við ímyndaða og upplogna hættu.

Utanrrh. fullyrti blátt áfram, að land okkar væri í bráðri hættu fyrir rússneskri árás. — Þegar eitthvert ríki tekur að vígbúast í ákafa og utanrrh. þess fullyrðir gersamlega að tilefnislausu, að annað ríki hafi árás í huga, þá er verið að undirbúa árásarstríð af hálfu þess ríkis, sem ásökunina ber fram. Þetta hefur aldrei brugðizt. Þegar utanrrh. okkar segir svona hluti, þá er það vitaskuld ekki íslenzka ríkið, heldur ríki Bandaríkjanna á Íslandi, sem talar.

Þessi hæstv. ráðh. er sérstaklega frægur fyrir falsaðar tilvitnanir. Hann brá ekki vana sínum að þessu sinni. Líklega í 10. eða 20. sinn þuldi hann sömu fölsunina úr ræðu minni í tilefni hervarnarsamningsins við Bandaríkin frá 1941, þar sem ég átti að hafa sagt, „að hér mætti skjóta án miskunnar“. Það er vitaskuld óþarft að taka það fram einu sinni enn, að þetta er uppspuni frá rótum. Það getur raunar hver maður sagt sér sjálfur. En nú skora ég á heitustu fylgismenn Bjarna Benediktssonar, sem enn kunna að vera í nokkrum vafa, að lesa þessa ræðu alla í alþt. 1941 og spyrja siðan sjálfa sig í fullri einlægni: Er hægt að trúa svona tilvitnanasmiðum fyrir örlögum heillar þjóðar? — Hins vegar geri ég ráð fyrir, að samvizka ráðherrans sé fullkomlega hrein, eftir að hann hefur gengið til Rómar og náð fundi páfa. Þetta gerðu sumir höfðingjar Sturlungaaldarinnar líka.

Þegar fulltrúar amerísku flokkanna eru spurðir, hvað þeir hafi til síns máls, að hættan sé svona yfirvofandi, hvers vegna Íslendingar eigi að óttast og skelfast og kalla í ofboði á amerískan her inn í landið, þá segja þeir, að ástæðurnar séu eftirfarandi:

1. Valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu og öðrum Austur-Evrópulöndum. Hér verði að stemma á að ósi.

2. Styrjöldin í Kóreu og viðsjár á Balkanskaga.

3. Stefna og starf kommúnista yfirleitt.

Þessi svör koma heldur en ekki upp um strákinn Tuma. — Í Tékkóslóvakíu, Póllandi og öðrum Austur-Evrópulöndum sitja að völdum stjórnir, sem hafa að baki sér yfirgnæfandi meiri hluta þings, sem kosið hefur verið í almennum þingkosningum. Þessar stjórnir hafa tekið upp stefnu, sem hefur velferð hins vinnandi fólks og sósíalistiskt þjóðskipulag að markmiði. Ef nú flokkar, sem hafa sósíalistiska stefnu, verða ofan á við þingkosningar í einhverju landi, t.d. á Ítalíu eða í Frakklandi, þá skal það eftirleiðis heita kommúnistisk árás og vera nægilegt tilefni til styrjaldar. Og það á að heita varnarstríð.

Þá er það Kóreustyrjöldin og Balkanskagi. Allir vita, að það voru ekki Rússar, sem gerðu innrás í Kóreu, heldur Bandaríkjamenn. Tilefnið var borgarastríð í landinu. Enginn, sem á annað borð vill vita, er nú lengur í vafa um, hvernig sú borgarastyrjöld hófst. Hún hófst með þeim hætti, að leppsveitir Bandaríkjanna í Suður-Kóreu voru látnar ráðast norður fyrir 38. breiddarbauginn, enda skýrðu bandarísk blöð frá sókn þessara sveita inn í Norður-Kóreu sama morguninn og árásin hófst. — Svona á að fara að því að koma styrjöld af stað undir nafninu varnarstríð. Það á að efla óaldarflokka í löndum, sem liggja að sósialistiskum ríkjum, til þess að koma af stað landamæraárekstrum. Þetta er ekki vandasamt, eftir að fasistaríkin Grikkland og Tyrkland eru komin í Atlantshafsbandalagið. Síðan á að setja áróðursvélina í gang og láta blöð og útvarp æpa út yfir heiminn, að ráðizt hafi verið á þessi lönd. Styrjöldin er hafin, Ísland er komið í stríð samkvæmt sáttmála sínum, og það verður kallað varnarstríð. Þegar hæstv. utanrrh., Bjarni Benediktsson, lýsti því yfir í ræðu á landsfundi Sjálfstfl., að stefna og starf kommúnista gerði hervarnir Íslands nauðsynlegar, þá sagði hann óvart allan hug sinn, klíkubræðra sinna og yfirboðara. Morgunblaðíð gaf þá skýringu á þessum orðum, að hér væri ekki einungis átt við íslenzka, heldur líka erlenda kommúnista. Eins og kunnugt er, heita allir þeir kommúnistar á máli Morgunblaðsins, sem andvígir eru auðvaldi og herveldi Bandaríkjanna, t.d. allir þeir, sem skrifað hafa undir mótmæli gegn notkun kjarnorkuvopna í hernaði, og yfirleitt allir verkamenn, sem taka virkan þátt í hagsmunabaráttu stéttar sinnar, svo að samkvæmt þessu hefur amerískur her verið kallaður til landsins til þess að annast tviþætt verkefni: 1) Til þess að vera Bjarna Benediktssyni og félögum hans til aðstoðar í baráttu þeirra við landa sína og 2) til þess að heyja styrjöld gegn sósiallstum í öðrum löndum. Þessi játning er eins skýr og frekast verður á kosið. Og allt skal þetta heita varnarstríð. Hitler kallaði sína styrjöld líka varnarstríð. Allar árásarstyrjaldir eru kallaðar varnarstríð nú á dögum.

Ég hef í örfáum dráttum lýst því, hvert er orðið hlutskipti okkar Íslendinga eftir sex ára stjórn amerísku flokkanna, og reynt að gera grein fyrir því, hvað við eigum í vændum í friði og stríði, ef þeir fara áfram með völd. Ég hef aðeins haldið mér við staðreyndir, sem blasa við hverjum manni og ekki verður um deilt. Enn þá er það á valdi okkar að snúa við á þessari ógæfubraut. Við eigum nóg framleiðslutæki, nógar auðlindir og höfum nóga markaði til að tryggja hverjum manni verk að vinna og mannsæmandi lífskjör. Og okkur ber skylda til að búa eins vel í haginn fyrir afkomendur okkar og við frekast megnum, í stað þess að eyða landið, sem þeir eiga að erfa, og bjóða okkur fram sem fórn á altari Mammons í nýrri heimsstyrjöld. En til þess að forða okkur frá illu og hefja nýja framsókn er eitt nauðsynlegt: að víkja þeim flokkum til hliðar, sem eru að leiða okkur í glötun.